13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2178 í B-deild Alþingistíðinda. (3404)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Jónsson:

Úr því umr. voru hafnar, þá get ég ekki annað en látið í ljós gleði mína yfir því, að þetta frv. skuli fram komið, og þakklæti til stjórnarinnar og bændanefndarinnar. Nú eru eins og allir vita mjög slæmar horfur í landbúnaði, en með þessu frv. eru gerðar róttækar, gagnlegar ráðstafanir til viðreisnar honum. Ég geng þess ekki dulinn, að þessar ráðstafanir munu kosta ríkið mikið framlag. Mér er ekki ljóst, hvernig hv. 1. landsk. hugsar sér að gera þessar ráðstafanir án þess ríkissjóður vissi nokkuð af þeim. Ég skildi ekki gagnrýni hans á frv. Mér skildist hann telja framlagið til kreppulánasjóðs óþarflega mikið. Það er ekki gert ráð fyrir öðru framlagi en vaxtagreiðslum þeim, sem búnaðarbankinn á að greiða ríkinu. (JónÞ: Hvað er það mikið?). Ég ætla það séu um 280 þús. kr. á ári. Annars er hér maður í deildinni úr stjórn búnaðarbankans, sem gæti upplýst þetta. Þetta er mjög lítið framlag, ef tekið er tillit til þessa mikla verkefnis, sem fyrir sjóðnum liggur. Honum er ætlað að leysa starf sitt af hendi mest með ríkisskuldabréfum. Annars finnst mér umkvörtun hv. 1. landsk. um að tillögur mþn. hafi ekki verið teknar upp óbreyttar ekki mikilvægar, með því að frv. er að mestu leyti eins og n. lagði til. Nokkur atriði í 25. gr. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að tryggja lágmarksverð á kjöti o. fl. eru nú tekin út. Þá eru nokkur fleiri atriði, sem höfðu komið inn í frv., en nú eru tekin út. Ég sé ekki annað en að frv. sé nú að mestu eins og það kom frá mþn., nema að því leyti, að höfuðstóll sjóðsins er nú stærri en n. ætlaðist til, og nokkur ákvæði skýrari, svo sem um tryggingar. Hv. 1. landsk. virtist málinu hlynntur, og vænti ég þess, að hann geti við nánari athugun hnigið að þessu, án þess að rýra gildi 1. gr.

Eitt atriði er það í frv., sem er neyðarráðstöfun og samþ. var í Nd., en kom upphaflega frá milliþinganefnd, að ríkisskuldabréfin skuli seld með afföllum, en það þýðir í raun og veru hækkun vaxtanna. Þetta gerir kjör lántakenda stórum verri, og ég efast um, að þeir megi við því. Ég vildi aðeins láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er fram komið og vænti þess, að það gangi greiðlega í gegnum deildina.