13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2182 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

167. mál, kreppulánasjóð

Einar Árnason:

Ég vil aðeins gera örfáar aths. út af ræðu hv. 2. landsk. Í fyrri hluta ræðu sinnar virtist hann taka vingjarnlega í þetta frv., en þegar á leið ræðu hans þóttist hann finna svo verulega galla á því, að annað fyrirkomulag væri farsælla. Ég fann ekki, að þær athuganir, sem fyrir honum virtust vaka, væru ljósar, og þess vegna ætla ég ekki að fara út í þær. En út af því, sem hv. þm. talaði um, að það væru aðrar stéttir í landinu, sem nauðulegar væru staddar en bændastéttin og hann kvað vera sýnt tómlæti af þinginu, þá er það svo um verkamannastéttina, sem hv. þm. vitanlega átti við, að mikill vafi er um það, ef borið er saman atvinnuleysi hjá verkalýð landsins og verðfallið hjá bændum, hvort bændur hafi í raun og veru borið meira kaup úr býtum að jafnaði heldur en verkamenn í landinu, þó að atvinnuleysið sé tekið til greina. Ég segi, að ég er ekki viss um, á hverja sveifina hallar. Og ég tek ekki yfirlýsingu hv. þm. sem góða og gilda vöru í þessu efni, því að ég býst við, að hann vanti öll skilyrði til þess að geta í raun og veru um þetta dæmt.

Hv. þm. talaði líka um það, að bændur skulduðu 30 millj. kr., en eignir þeirra væru 60 millj. Og þetta virtist honum sýna, að það gæti nú varla verið um mikla örðugleika að ræða hjá stétt, sem ætti svo mikið fram yfir skuldir. En samt sem áður viðurkenndi hv. þm. það, að þessi skýrsla væri í raun og veru ekki réttur mælikvarði, þegar borinn er saman hagur bænda og hagur verkamanna. En það er sérstaklega eitt í þessu máli, sem ég vildi benda hv. þm. á, að þessi stuðningur, sem ráðgert er að veita bændastéttinni, er ekki réttur henni einni, heldur allri þjóðinni. Er þetta því engu síður mál verkalýðsins en annara. Þess vegna sé ég ekki annað en að sá stuðningur, sem hér er ætlazt til að veita bændum, sé í raun og veru stuðningur fyrir verkalýðsstéttina, og þess vegna megi, þegar litið er á hag þjóðarinnar sem heildar, telja það stuðning við allar stéttir.

Þessi stuðningur við bændastéttina er í raun og veru allt annars eðlis en sá stuðningur, sem hv. 2. landsk. fer fram á, að veittur sé verkalýðnum. Að mestu leyti fer þetta í þá átt að veita bændum hjálp til þess að standa í skilum með sínar skuldbindingar. Það er ekki bein hjálp handa bændum til þess að lifa á afrakstri búa sinna. Eftir sem áður eiga þeir að komast af með þær tekjur, sem búin veita þeim, og þar að auki greiða þó nokkuð af þeirra skuldum, sem alltaf verða, þrátt fyrir þessa hjálp, afarmiklar. Það er sem sagt ekki beinlínis verið að veita bændum fé til þess að þeir hafi í sig og á, sem kallað er. En styrkur til verkamanna er beinlínis ætlaður til þess. Ekki svo að skilja, að ég ekki viðurkenni, að það sé nauðsyn að veita atvinnulausum mönnum einhverja hjálp. Hjá því verður ekki komizt. En mér virðist hv. þm. vilja blanda þessu of mikið saman. Og í ræðu sinni komst hann inn á það, að það myndi kannske vera eins mikil nauðsyn til þess að styðja útvegsmenn eða útvegsbændur í landinu. Hann lét jafnvel þau orð falla, að til væru kannske hér þeir menn, sem gleymdu því, að þessir menn væru til. (JBald: Ég átti ekki við 2. þm. Eyf.). Nei, enda þekki ég talsvert til bátaútvegsins við Eyjafjörð. Hefi ég sérstaklega kynnt mér; hvernig afkoma hans var síðastl. ár, en þetta síðastl. ár var eitthvert allra þyngsta ár, sem landbúnaðurinn hefir haft við að búa. En eftir því, sem ég veit bezt, þá var afkoma sjávarbænda í fyrra vonum betri. Hún var beinlínis góð, borin saman við landbúnaðinn. Þeir gerðu meira en að greiða þær skuldir, sem þeir urðu að stofna til vegna rekstrar síns útvegs, þeir borguðu líka aðrar skuldir. Ef afkoma landbændanna árið sem leið hefði verið eins og afkoma þessara manna, þá held ég, að engum bændum hefði dottið í hug að fara fram á þann stuðning ríkisins, sem hér er nú verið að biðja um. Ekki neita ég, að þröngt kunni að vera í búi hjá einstökum útvegsbændum. En það er ekki beinlínis af því verðfallsástandi, sem hefir skapazt nú, því að verðfallið á fiski hefir ekki verið svo ýkjamikið upp á siðkastið. Eins og hv. þm. veit, hafa verið gerðar ráðstafanir um fisksöluna, sem sennilega hafa haft mikil áhrif í þá átt að festa fiskverðið og þar með gera smáútveginn tryggari en ella.

Nú liggja í raun og veru ekki fyrir neinar skýrslur um þetta, hliðstæðar þeim skýrslum, sem safnað hefir verið um afkomu landbúnaðarins, og þess vegna eigum við ákaflega örðugt með að gera okkur nokkra grein fyrir því, hvernig umhorfs er yfirleitt hjá smáútveginum, og hvort þær þrengingar, sem kunna að vera þar, séu því að kenna, sem menn hafa ekki ráðið við, sem sé verðfalli afurða.

Ég skal svo ekki gera fleiri aths. við þetta að sinni. En út af því, sem hv. 2., landsk. minntist á, í hvaða nefnd málið skyldi fara, þá finnst mér liggja beinast við að vísa því í landbn. Það hefir ekki bólað á uppástungu um að skipa sérstaka n., enda er vafi, hvort það yrði nokkur fyrirgreiðsla fyrir málinu. Það er dálítið óþægilegt, þegar svo áliðið er þings, að setja sérstaka n. í málið. Það getur truflað starf hjá öðrum n. og jafnvel heldur tafið. Auk þess er sá kostur við að senda málið til landbn. að þar er einn af þeim mönnum, sem hafa starfað mjög mikið að undirbúningi þess í mþn., og er því málinu sérstaklega vel kunnugur. Vil ég því gera að till. minni, að frv. verði vísað til landbn.