13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2184 í B-deild Alþingistíðinda. (3407)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Baldvinsson:

Það er aðeins til þess að leiðrétta einhvern misskilning, sem hefir komizt inn hjá hv. 2. þm. Eyf. Honum fannst ég fyrst hafa tekið vel í frv., en ekki síðar í ræðu minni. En ég held ég hafi sagt það alltaf gegnum alla ræðu mína, að það sé alveg sjálfsagður hlutur að veita bændum stuðning, þegar þeir eru í erfiðleikum. En hv. þm. má ekki rígbinda sig svo við orðalag vissra tillagna, að þar megi hvorki hreyfa staf né krók. Því að það, sem fólst í orðum mínum, voru ýmsar aths. við málið í heild sinni, og ég benti á aðrar leiðir, sem ég taldi heppilegri til þess að styrkja bændur og væru ekki eins vafasamar um árangur eins og þessi, sem hér er um að ræða. En allt mitt tal hné að því að styðja bændur, enda held ég, að annað hafi ekki verið hægt að fá út úr orðum mínum. Og ég vona, að hv. 2. þm. Eyf. vilji ekki endilega fara að búa sér til mótstöðumenn móti hjálpinni til bænda, þar sem þeir eru ekki.

Hv. þm. kvaðst vera í efa um, hvort ástandið væri betra hjá bændum eða verkamönnum. Hann sagði, að ég hefði ekki skilyrði til að dæma um þetta, og það má vel vera. En það liggja fyrir skýrslur frá opinberri nefnd um ástand hjá verkamönnum. Þær lágu fyrir þinginu í fyrra, frá stjórnskipaðri nefnd, og sýndu, að hátt á 3. þús. framfærendur voru atvinnulausir. Bak við þá voru um 12—15 þús. manns. Og þó að nýjar skýrslur hafi ekki komið fram nú, þá er vitað, að ástandið er ekki vitund betra nú, það versnar eftir því sem atvinnuleysistímabilið varir lengur. Þeir af verkalýðnum, sem hafa átt eitthvað fyrir sig að leggja, hafa orðið að eyða því, þangað til allir eru nokkurnveginn jafnir og hafa ekkert. Þess vegna er það alveg víst, að brýn þörf gerir það alveg óhjákvæmilegt að leggja fram fé til styrktar verkamönnum, enda er það viðurkennt af hv. 2. þm. Eyf. Og ég vil segja um það, sem hv. þm. Eyf. réttilega sagði um stuðninginn við bændastéttina, að stuðningur við verkalýðinn er engu síður stuðningur við þjóðfélagið. Þetta eru tvær aðalstéttir landsins.

Ég ætla ekki að fara að deila neitt við þm. um það, í hvaða skyni þessi styrkur er veittur til bænda. Hann segir, að þetta sé ekki beint styrkur til að geta lifað, heldur til að standa í skilum með skuldbindingar sínar. Vitanlegt er það, að sá styrkur, sem veittur er eftir þessu frv., hann er styrkur handa bændum til þess að geta lifað áfram af búum sínum, geta framfleytt sér og sínum fjölskyldum á búunum, alveg eins og það er styrkur til verkalýðsins að leggja fram fé til einhverra framkvæmda, sem veitir verkalýðnum atvinnu sér til bjargar.

Ekki skal ég heldur deila um afkomu útvegsbænda. En þó að verð á fiski hafi verið stöðugt nú í 9—10 mán., þá hafa þeir fengið mjög mikið áfall með verðfallinu 1930—31, og þeir eru yfirleitt illa staddir, því miður. Meginhluti þeirra eru svo illa staddir, að þeir hafa fulla þörf fyrir stuðning hins opinbera á einn eða annan hátt. Það getur vel verið, að þjóðfélagið geti ekki lagt fram allan þann stuðning, sem þarf. En mér finnst a. m. k., að þessi stuðningur eigi að ganga nokkurn veginn jafnt yfir hinar verst stöddu stéttir.

Ég tel rétt, að þetta mál fari til athugunar í fjhn. deildarinnar, og geri það að till. minni.