13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2188 í B-deild Alþingistíðinda. (3409)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Jónsson:

Ég get nú í sjálfu sér ekki annað en þakkað hv. 1. landsk. fyrir hans góðu undirtektir undir þetta ákvæði, sem ég minntist á, sem felst í niðurlagi 2. gr., sem ég tel skipta miklu máli, að lagfært verði. Hitt býst ég við, að við getum gert upp okkar á milli í tómi, að ekki verði hægt að komast hjá, að ríkissjóður lengi fram nokkurt fé. Ég er ekki viðbúinn að sýna nákvæma útreikninga. En það sýnir sig, að þar sem gert er ráð fyrir, að þessi lán afborgist á 42 árum með 5%, en vextir eru 4%, þá kemur fram mismunur, sem óhjákvæmilega hlýtur að lenda einhversstaðar. Þetta getur maður nú reynt að áætla. En auk þess þarf að gera ráð fyrir, að eitthvað af þessum lánum tapist, eins og alltaf á sér stað í lánastarfsemi. En sem betur fer hefir lítið af lánum tapazt hjá bændastéttinni, og ég vildi óska, að svo yrði áfram.

Ekki get ég að sama skapi þakkað hv. 2. landsk. fyrir hans undirtektir. Hv. 2. þm. Eyf. hefir tekið af mér ómakið og svarað honum. Fremur kalt þótti mér anda frá honum í garð þessarar stofnunar. Honum fannst bændastéttin vel afgreidd, ef lagðar væru fram ein eða tvær millj. til þess að gera upp hennar sakir. Hv. 2. landsk. sagði, að ég vildi yfirleitt minna sinna þeim, er væru ennþá nauðulegar staddir en bændastéttin. En mér finnst, að hann vilji öllu minna styðja bændurna þar sem hann gerir till. við fjárl. um að verkamenn fengju eina millj. bara á þessu eina ári og svo auðvitað áframhaldandi meðan þörf væri á, og finnst mér það vera ríflegra en styrkurinn, sem hann ætlar bændum. Annars er tækifæri til að ræða um það seinna. En mér finnst þetta heldur undarleg till. Get ég svo að öðru leyti vísað til þess, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði.