20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Ég flyt nokkrar brtt. nú við 3. umr. fjárl., sem ég skal gera nokkra grein fyrir.

Fyrsta brtt. mín er á þskj. 733 XI., við 13. gr. Þar er um að ræða framlag til vitabyggingar. Í Nd. var flutt till. um að byggja radíovita á Reykjanesi og ætlaðar til þess 40 þús. kr. samkv. till. vitamálastjóra. Eins og kunnugt er, er meðfram Reykjanesskaga einhver hættulegasta siglingaleiðin hér við land, og slys eru þar mjög tíð, bæði vegna þess, hvað sjór er þar ótryggur og skipaumferðin mikil, hin mesta hér við land. Það, sem gerir siglingaleiðina austan með Reykjanesi hættulegasta, er þó klettadrangurinn Eldey, sem liggur þar skammt undan landi. Skipaleiðin liggur um mjótt sund milli lands og eyjar, og þótt oftast takist að komast þar klakklaust þegar ýtrustu varfærni er gætt, þá þarf ekki miklu að muna á áttavita á langri leið, til þess að skip reki sig þar á. Það þykir því sjálfsagður hlutur, að þarna eigi að koma upp radiovita, svo að skipin viti, þegar þau koma þar nálægt. Talað hefir verið um klukkuvita á þessum stað, til þess að skipin heyrðu hringingu, þegar þau koma nálægt. En það hefir verið upplýst, að það væri ekki nægilegt, radioviti væri það eina, sem afstýrt gæti slysum á þessum slóðum. Þrjú stór gufuskip hafa strandað þar nýlega, auk margra áður. Það er því brýn skylda ríkissjóðs að reyna að afstýra frekari slysum og auka öryggið á sjónum með því að koma þarna upp góðum vita. Vitanlega verður aldrei komið í veg fyrir öll slys, en til þess eru vitarnir settir með ströndum fram, að slysunum fækki.

Þessi upphæð, sem hér er um að ræða, er ekki stór, 40 þús. kr. Hinsvegar er vitað, að ríkissjóður hefir miklar tekjur af vitunum. Þeirra vegna er tekið gjald af öllum skipum, sem hér sigla, og rennur það beint í ríkissjóð. Þegar vitagjaldið var sett, var ætlazt til, að það gengi eingöngu til þess að byggja upp vitakerfi með ströndum landsins. En það hefir það ekki verið látið gera, og er það hið mesta ranglæti að skattleggja þannig skipastól landsmanna og annara, sem hér hafa skip í förum, fram yfir það, sem varið er til vitamálanna. Hefir þannig runnið í ríkissjóð margföld sú upphæð, sem hér er farið fram á.

Ég þykist vita, að allir hv. þm. séu á þeirri skoðun, að þessi viti eigi að komast upp. Hitt munu þeir fremur segja, að nú sé ekki hentugur tími til slíkra framkvæmda, fjárhagsins vegna. En við megum alls ekki við að verða fyrir slíkum áföllum, sem við höfum orðið fyrir á undanförnum árum, meðfram af því að vantað hefir vita á hættulegum stöðum. Það hefir sýnt sig, að þegar við missum togara, eru ekki keypt ný skip í staðinn, heldur minnkar togaraflotinn, jafnframt því sem hann gengur úr sér fyrir aldurs sakir. Það er því sama, hvernig þessu máli er fyrir sér velt, það er brýn nauðsyn á að auka og bæta vitakerfið, og skylda ríkissjóðs að leggja fram fé er ótvíræð. Og mest aðkallandi er talin þörfin á þessum umrædda radióvita á Reykjanesi. Bygging hans má alls ekki dragast lengur en til næsta árs, og fyrr kemst hún ekki í framkvæmd, þó fjárframlag sé samþ. nú. Ég vænti því, að hv. d. fallist á þessa till. mína, sem er nauðsynleg öryggisráðstöfun vegna fiskiveiða og siglinga landsmanna.

Þá á ég á sama þskj. undir lið XVIIIa. till. um að veita Guðmundi Guðmundssyni stúdent 1000 kr. styrk til þess að kynna sér starfsemi tryggingarfélaga í Þýzkalandi. Þetta er fátækur bóndasonur ofan úr Borgarfirði, sem fáa á að, og enga, sem geta lagt honum til fé. Hann tók stúdentspróf fyrir fáum árum frá stærðfræðideild menntaskólans og hefir síðan stundað stærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Ætlar hann nú að snúa sér að því praktíska starfi að kynna sér tryggingarstarfsemi í Þýzkalandi. Hér heima er mikil þörf á manni, sem aflað hefir sér þekkingar á því sviði, því tryggingarstarfsemi er hér enn öll í bernsku, en ætti hinsvegar að fara að líða að því, að ríkið komi upp tryggingarstofnunum fyrir almenning, því stórfé rennur út úr landinu árlega til erlendra tryggingarfélaga.

Þessi maður er nú orðinn það fullorðinn, að hann þarf að fara að hraða námi sínu. Þyrfti hann nauðsynlega að fá til þess styrk í þessum fjárlögum og sennilega líka í fjárl. fyrir árið 1935, en þá mundi hann geta lokið námi. Nú vill það verða svo hér á þingi, eins og sjálfsagt víða annarsstaðar, að það eru oft ekki þeir allra fátækustu, sem hjálp fá, heldur byggist það á því, hvað umsækjendurnir eiga marga að, og hvort þeir hafa áhrifamikla menn til að koma sér á framfæri, en það eru þá venjulega menn, sem töluvert hafa um sig og betri aðstöðu en aðrir til að styrkja stúdenta sína sjálfir. En þessi piltur er þannig settur, að hann á engan að af ættfólki sínu, sem hjálpað getur honum til náms. Svipað stendur á um Alfred Gíslason cand. med., sem ég legg til undir sama rómverskum lið, b., að verði veittur 1000 kr. styrkur til sérfræðináms í geð- og taugasjúkdómafræði. Hann hefir stundað nám við læknaskólann hér, og fengið styrk frá mjög fátækum foreldrum, en þau eru nú að gefast upp við að leggja honum fé, og þess vegna þarf hann að fá styrk frá því opinbera, ef hann á að geta lokið námi. Vitanlegt er, að mikil þörf er á lækni í þessari sérfræðigrein, því mikil deila hefir verið um það, hvort þeir geðveikralæknar, sem við nú höfum, eru starfi sínu vaxnir. Er þá gott, að fleiri komi til. Hættulegt er að fela geðveikissjúklinga mönnum, sem ekki eru einhverra hluta vegna færir um að fara með þá, og það þó þeir hafi eitthvað til þess lært, ef þeir t. d. hafa þannig geðslag, að kunnátta þeirra kemur ekki að haldi. En eins og kunnugt er hefir slík deila staðið um annan lækninn á Kleppi.

Þá hefi ég borið fram till. á sama þskj. undir lið XX, um að veita landssambandi iðnaðarmanna 3000 kr. Eftir fjárlagafrv. að dæma virðist Alþingi enn ekki hafa veitt því eftirtekt, að iðnaðarmenn eru 3. stærsta stéttin í þjóðfélaginu. Bændur, verkamenn og iðnaðarmenn eru stærstu stéttirnar í landinu. Í 1. lið 16. gr. eru búnaðarfélaginu ætlaðar 200 þús. kr., og fiskifélaginu munu ætlaðar einar 60—70 þús. kr. Þó að hinum almenna verkalýð sé að vísu skammtað smátt, þá er hann engu bættari, þó iðnaðarmenn séu settir hjá líka. Virðist ekki ósanngjarnt, að þeir, sem fyrir iðnaðarmálin vinna, fái ofurlítinn styrk, þegar bændur fá stórfé til síns atvinnurekstrar. Ég hefi hér aðeins farið fram á 3000 kr. til landssambandsins. Ég sé, að fram er komin önnur till. um 1200 kr. styrk til þess, en það er nokkuð lítil upphæð. — Aðra brtt. flyt ég í sömu átt, til þess að koma inn aftur styrk, sem lengi hefir staðið í fjárl., til verklegs náms iðnaðarmanna erlendis. Hefi ég stungið upp á að hafa þann lið 4000 kr. Ekkert er okkar unga iðnaði nauðsynlegra en að þeir, sem að honum vinna, séu vel færir í sinni grein, svo að varan, sem þeir láta frá sér fara, geti keppt við erlendan varning að útliti og gæðum. Það þýðir ekkert að tala um að koma upp innlendum iðnaði, það verður ekki annað en orðin tóm, ef ekki er jafnframt stuðlað að því, að iðnaðarmannastéttin geti orðið fær um að inna sín verk vel af hendi og framleiða fullkomnar vörur, annað þýðir ekki að hafa á boðstólum. Vitanlega á sú leikni og kunnátta að koma með æfingunni, að hægt sé að keppa við erlendan iðnað, en til þess þurfa iðnaðarmennirnir í upphafi að læra verk sitt svo vel, að þeir viti alveg upp á hár, hvernig þeir eiga að fara að og hvernig þeir eiga að beita vélum sínum til þess að leysa gott verk af hendi.

Áður hafa verið veittar 3000 kr. til að styrkja iðnaðarmenn til utanfara. Hefir þeirri upphæð venjulega verið skipt milli 10 umsækjenda og hver þá fengið 300 kr. Hafa menn fyrir það getað komizt utan, en sjálfir orðið að koma sér fyrir hjá kunnáttumönnum og vinna fyrir uppihaldi sínu meðan þeir eru að afla sér þekkingar í sinni grein.

Nú er það kunnugt, að langflestir beztu iðnaðarmenn okkar hafa stundað framhaldsnám erlendis og aflað sér þar þekkingar, sem ekki er hægt að fá hér heima hjá okkar fábreytta iðnaði. Það er aðeins í mjög fáum iðngreinum, sem menn geta fengið fullkomna þekkingu hér heima. Ég skil því ekki, hvernig hv. fjvn. gat haft brjóstheilindi til að flytja till. um að fella þennan styrk niður. Það skýtur nokkuð skökku við allt tal fjvn.manna og annara um það, að við eigum að búa sem mest að okkar og efla innlenda framleiðslu. Það er ekki lengra síðan en nokkrir dagar, að ýmsir hér í hv. d. vildu banna innflutning á einni hollustu og nauðsynlegustu fæðuteg., sem notuð er hér á landi, aðeins vegna þess, að möguleiki væri til þess, að Íslendingar framleiddu af henni nægilegt handa sér, þó þeir geri það ekki enn. Svo maður minnist nú ekki á allt, sem sagt hefir verið í sambandi við íslenzku vikuna. Starfsemi hennar vilja hv. þdm. styrkja með fjárframlagi, og við því er út af fyrir sig ekkert að segja, en í verkinu er iðnaðarmannastéttinni sýnd hin mesta óvirðing með því að fella niður þann litla styrk, sem henni var ætlaður til framhaldsnáms erlendis. Ég býst við, að þegar iðnsambandinu vex fiskur um hrygg, muni það knýja fram hærri fjárveitingu í þessu skyni. Það verður að athuga, að hjá okkur er miklu erfiðara og dýrara að kynna sér nýjungar, sem fram koma erlendis, heldur en er hjá nágrannaþjóðum okkar. Það hefir t. d. verið mjög auðvelt fyrir iðnaðarmenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð að fara til Þýzkalands og kynna sér framfarirnar í því mikla iðnaðarlandi; þessi lönd liggja nærri því saman og er því mjög ódýrt að komast á milli. Slíku er ekki til að dreifa hjá okkur. Við liggjum svo langt frá öðrum löndum, að það kosta ekki svo lítið ferðirnar á milli, þó ekkert sé ætlað til uppihalds eða dvalar.

Það er því sama, hvernig þessu máli er fyrir sér velt, það verður alltaf uppi á teningnum, að ríkinu ber skylda til að styrkja iðnaðarmenn til framhaldsnáms erlendis, til þess að reyna að byggja upp svo fullkominn iðnað hér eins og við frekast getum. Það tekst aldrei með öðru móti en því, að mennta iðnaðarmenn okkar sem allra bezt.

Þá hefi ég flutt till. undir lið XXII, a og b, um tvennskonar styrk handa kennarastéttinni í landinu. Það stendur nokkuð svipað á um kennarana og iðnaðarmenn, að þeir hafa þörf fyrir meiri menntun en þeir geta fengið á þeim eina skóla, sem þeim er ætlaður hér heima. Þess vegna hefi ég flutt þessa till. um 1500 kr. til framhaldsnámskeiðs fyrir barnakennara. Þessi fjárveiting hefir áður verið í fjárl., og er því dm. kunnugt um þau rök, sem hér liggja til grundvallar.

Sama máli er að gegna um utanfararstyrk barnakennara, 2000 kr. undir sama lið. Þessi fjárveiting hefir áður verið í fjárlögum, en hefir nú fallið burt. Þykir mér það neyðarleg sparnaðarráðstöfun. Það er kunnugt, að við getum vandað til kennslu og uppeldis barnanna, svo að hún verði ekki tóm mistök eða kák, en til þess þurfum við að eignast góða barnakennara og þeir fást ekki nema þeir eigi kost á löngu námi og svo því að fá að kynnast skólafyrirkomulagi og nýjum kennsluaðferðum menningarþjóða þeirra, sem okkur eru næstar og skildastar. Þá á ég á sama þskj. XXIX till. um 750 þús. kr. framlag úr ríkissjóði til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum. Ég talaði fyrir þessari till. við 2. umr. og ætla því ekki að fara mjög mörgum orðum um hana nú, enda getur komið tilefni síðar til þess að ræða hana. Þó þykir mér vissara að geta hennar ofurlítið. Það getur farið svo, að atkvgr. um fjárl. fari fram á undan útvarpsumr., og því verð ég að nota þetta tækifæri. Við 2. umr. var þessi till. um 1 millj. kr. framlag frá ríkissjóði, gegn jafnmiklu frá bæjarfélögum og kauptúnum. Ég færði rök fyrir því, að þessi upphæð úr ríkissjóði væri ekki of há til þess að afstýra mestu neyðinni, sem vofir yfir verkamönnum í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Þessar 750 þús. kr. er miklu lægri upphæð. Gegn jafnmiklu frá bæjarfélögunum verður það ekki nema hálfönnur millj. kr. alls. Það er vissulega of lítið, en gæti þó verið nokkur úrbót, sem þó nokkuð mætti gera með, en ég held sannast að segja, með þeim mikla samdrætti, sem átt hefir sér stað í atvinnuvegunum og framkvæmdum ríkis og bæjarfélaga, þá sé þetta ekki nándar nærri nægileg upphæð til þess að bæta úr sárustu þörf atvinnuleysingja. Auk þess sem hér er um allt of litla upphæð að ræða, þá hefir hið opinbera með forgöngu sýslu- og bæjarfélaga gripið til þess óyndisúrræðis að lækka vegavinnukaupið úti um landið, svo að verkamenn, sem eftir þeirri vinnu sækja upp í sveitirnar, og fátækustu bændur bera nauðalítið úr býtum og miklu minna en áður var. Þó að þessir menn verji þarna löngum tíma, þá sleppa þeir svo að segja snauðir frá vinnunni. Mér er sagt, að síðastl. sumar hafi vegavinnukaupið í sveitum landsins farið allt niður í 50 aur. á klst. Og ástæðan, sem fram er borin fyrir þessari lækkun, er sú, að sýslufélögin borgi ekki hærra en þetta. Mér finnst, að þetta sé engin ástæða, ríkissjóði kemur það ekki við, hvað sýslufélögin borga, hann ætti að geta fylgt þeim kauptaxta, sem umsaminn er á hverjum stað milli verklýðsfélaganna og atvinnurekenda. Ríkissjóður ætti ekki fremur að vera yfir það hafinn að fylgja þessum taxta en bæjarstjórnin í Rvík og Hafnarfirði. Þess vegna treysti ég í raun og veru ekki hæstv. stj. eða hv. þd. mikið, en ég trúi því vart, að hv. d. vilji fella þessa till. og að stj. fái svo á eftir kröfur um atvinnubætur, sem ekki verður hægt að neita, og verði því, án þess að hafa nokkra heimild frá Alþingi, að láta kreista út fé til atvinnubóta undan sínum blóðugu nöglum, hvort sem henni þykir betur eða ver.

Hv. fjvn. þykist víst ryðja sig, þar sem hún leggur til, að veittar verði úr ríkissjóði 300 þús. kr. Ætlazt hún til, að bæjarfélögin leggi þar tvöfalt á móti. Í till. minni er gert ráð fyrir jafnháu tillagi frá bæjar- og sveitarfélögum. Þegar farið er út á þá braut að krefja þessa aðilja um tvöfalt hærra framlag heldur en hið opinbera á að greiða, þá er verið að minnka hlutdeild ríkissjóðs í atvinnubótunum, en velta byrðinni meira yfir á sveitar- og bæjarfélögin. Þó er það vitanlegt, að þessir aðiljar hafa við mikla fjárhagslega erfiðleika að stríða, og að ríkissjóður hefir líka seilzt inn á skattstofna þeirra með því að hækka tekjuskattinn og skatt á nauðsynjavörum. Þetta dregur vitanlega úr mætti kaupstaðabúa til þess að leggja fram fé til atvinnubóta. Þegar það er athugað, að ríkissjóður og Alþingi hefir valdið til þess að skammta sjálfu sér þannig af gjaldþoli borgaranna, þá finnst mér, að ríkissjóður sé skyldugur til að leggja fram ríflegt tillag til atvinnubóta, og létta þannig beint og óbeint undir með bæjar- og sveitarfélögum. Það er að vísu ætlazt til þess í till. fjvn., að bæjarfélögin eigi kost á láni, sem nemi helmingi af þeirra tillagi, en þetta framlag bæjar- og sveitarfélaga, þó að lán fáist, verður vitanlega til þess að auka skuldbindingar þeirra. Auk þessa verður það ekki séð á orðalagi till., að bæjar- og sveitarfélög eigi að fá ríkisábyrgð fyrir þessum lánum, þó um annað geti varla verið að ræða, því að annars væri þetta lánsákvæði meiningarlaust. Eins og allir vita eru fjárl. undir framkvæmd stj. og stj. getur varla tekið við heimildinni nema útvega bæjar- og sveitarfélögum lán. Ég skoða þetta því nokkuð sama og ríkisábyrgð, úr því ríkisstj. á að útvega bæjunum lán, — enda sé þeim gefinn kostur á láni — stendur í till. — Ég skal ekki um það segja, hvort till. fjvn. hefir fylgi hér í hv. d. Líklega hefir hún þó fylgi n. og stj. Ég get því búizt við, að þessir og fleiri hv. þm. muni verða á móti minni till. En smátt þykir mér nú skammtað, ef aðeins á að játa sitja við till. fjvn. um 300 þús. kr. til atvinnubóta, þegar jafnframt er dregið úr ýmsum framkvæmdaliðum fjárl., svo sem raun er á.

Þá á ég brtt. á sama þskj., XLI, um 10 þús. kr. framlag úr ríkissjóði sem rekstrarfé til útgáfu skólabóka. Þessi brtt. er við þá gr. fjárlaganna, þar sem ríkisstj. er gefin heimild til að leggja fé til ýmissa hluta, sem Alþingi telur gagnlega, en gerir ekki beina skipun um. Á undanförnum þingum hefir nokkuð verið rætt um útgáfu skólabóka. Það er nú svo ástatt í þeim efnum hér á landi, að ekki er farið eftir neinum reglum eða kerfi. Hver, sem þykist fær til þess að skrifa kennslubók, hann getur það, ef hann hefir ráð á að gefa hana út. Þá er bókin orðin kennslubók við opinbera skóla, þó engin trygging sé fyrir gildi hennar. Oftast munu það vera einhverjir kennarar, sem standa að útgáfunni, og reyna þeir þá með hjálp sinna starfsbræðra að ýta undir með sölu og notkun bókarinnar. Við Alþýðuflokksmenn höfum áður borið fram till. um, að ríkið tæki að sér útgáfu kennslubóka og seldi þær við vægu verði, því bækurnar eru mjög stór liður í námskostnaðinum. Þessi till. hefir ekki náð fram að ganga, en af kennurum hefir verið stungið upp á annari tilhögun í þessu efni, sem sé þeirri, að ríkissjóður legði fram rekstrarfé, allt að 10 þús. kr., til útgáfu kennslubóka, og að fræðslumálastjóri hefði umsjón með þeirri útgáfu. Fræðslumálastjóri er yfirmaður kennaranna og því sjálfsagður til þess í samráði við þá, að ákveða hverjar bækur séu útgefnar. Ætti sú skipun ögn að geta dregið úr þeim hringlandahætti, sem verið hefir á útgáfu kennslubóka. En til þess að geta komið á bættu skipulagi í þessu efni, þarf nokkurt fjármagn, og hyggja kennararnir, að til þess mundi nægja 10 þús. kr. Þetta fé mundi standa í þeim bókum, sem út yrðu gefnar, en sennilega líða ekki mörg ár, áður en fé þetta kæmi aftur inn í ríkissjóðinn. Hæstv. forsrh., sem áður var fræðslumálastjóri, hefir tekið þessari till. mjög vinsamlega, og núverandi fræðslumálastjóri telur þetta fyrirkomulag mjög til bóta, og muni það verða til þess að leiðrétta þann rugling, sem átt hefir sér stað í þessum efnum og ennfremur létta að stórum mun aðstöðu fátækra foreldra, ekki sízt þeirra, sem eiga stóran barnahóp. Ég trúi því vart öðru en að hv. dm. fylgi þessari brtt.

Ég ætla þá, að ég hafi minnzt á allar þær brtt., sem ég hefi sjálfur flutt. Þó eru eftir tvær eða þrjár brtt., sem ég flyt með öðrum, sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni, þar sem aðalflm. þeirra munu gera það. Þó vil ég minnast enn á eina brtt., sem að vísu hefir ekki enn verið útbýtt í hv. d. Það er brtt. við brtt. 751 um upptalning á ýmsum stúdentum, sem ætlazt er til, að Alþingi bindi menntamálaráðið til að úthluta styrkjum. Þar vantar nafn eins stúdents, Ingólfs Þorsteinssonar, sem stundar vélfræðinám í Þýzkalandi. Þessi brtt. mín er um það, að nafn þessa manns verði sett á listann, en till. getur ekki orðið útbýtt fyrr en seinna á fundinum.

Ég get varla skilizt svo við þetta mál, að ég ekki minnist á þá algerðu óhæfu, sem þingið hefir sýnt sig í með því að samþ. aftan við fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til þess að draga úr öllum fjárveitingum fjárl. allt að 25%. Ég skil ekki, hvað hv. alþm. hugsa, er þeir veita í fjárl. svo og svo háar fjárupphæðir, en éta það svo allt saman ofan í sig aftur og heimila stj. að draga úr fjárveitingunum eins og henni sýnist, allt að 25%. Slík samþykkt fer algerlega í bága við allt lýðræði eins og það var túlkað í umr. í dag, að þegnarnir ættu að hafa valdið til að ákveða skatta og notkun þeirra tekna, er þeir gefa hinu opinbera. Hér er verið að gefa stj. alræðisvald yfir nokkrum millj. króna. Ef hér er um alvöru að ræða hjá hv. þm., þá hefði verið réttara fyrir þá að koma hreint til dyra og skera heldur niður þær fjárveitingar, sem þetta er meint til, heldur en að fá stjórninni þessa heimild, sem gefur henni ákvörðunarvald yfir svona tveimur til þremur millj. kr. Það mun vera sagt, að þessi heimild snerti aðeins þær fjárveitingar, sem ekki eru bundnar með lögum, en það er sama, þetta er ekkert annað en það, að þingið er að gera sig ábyrgðarlaust, en ætlar að skella allri ábyrgðinni yfir á stj. Slíkt andvaraleysi og kæruleysi er alveg dæmalaust. Það er ekkert hugsað út í þá dæmalausu spillingu, sem af slíku getur leitt. Þeir, sem stj. skipa, eru menn eins og aðrir, þeir eiga kjördæmi, þeir eiga vini og stuðningsmenn og þeir eiga andstæðinga. Nú er í fjárl. veitt fjárveitingarheimild til hins og þessa í ýmsum kjördæmum og á ýmsum stöðum. Er nú ekki hugsanlegt, að stj. kunni að hlaupa yfir þessar heimildir, þar sem eiga í hlut kjördæmi eða menn, sem eru hennar fylgismenn og velunnarar, en hafi heimildina aftur á takteinum þegar í hlut eiga kjördæmi eða menn, sem henni er ekki um? Er það ekki freisting fyrir stj. að líta ekki alltaf á það, sem eðlilegast er og réttlátast, heldur borga sumum fullar fjárhæðir, en öðrum ekki? Ég er sannast að segja alveg forviða yfir þeirri endemis vitleysu, sem samþykkt hefir verið í Nd. með 25. gr. fjárl. Ég býst við að gera eina tilraun enn til lagfæringar á þessari frámunalegu vitleysu með því að flytja brtt. um að fella þetta ákvæði niður, þó að nú þurfi meira atkvæðamagn við 3. umr. til þess að fella það úr heldur en þurft hefði við 2. umr., en ég get ekki annað skilið en að augu hv. þm. hljóti að hafa opnazt fyrir því, hvílíkt óhæfa það er, að láta þessa heimild standa í frumvarpinu.