24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2190 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm:

(Jón Jónsson): N. hefir nú haft þetta aðalmál þingsins til athugunar nokkra stund og hefir komizt að þeirri niðurstöðu, eins og allir hv. þdm. munu vera sammála um, að nauðsyn sé að gera einhverjar róttækar ráðstafanir landbúnaðinum til hjálpar á þessum örðugu tímum. Þær skýrslur, sem liggja fyrir þinginu, sýna ljóslega, hversu ástandið er alvarlegt um rekstrarafkomu bænda. N. er því meðmælt þeirri hugmynd, sem felst í frv. um að ráðstafa lausum lánum landbúnaðarins, um 20 millj. kr., á þann hátt, að stofnaður sé sjóður, sem taki að sér að lána út með til muna lægri vöxtum en annarsstaðar er kostur á, og tryggja það, að samningar takist um skuldir, þannig að afsláttur verði af þeim gefin áður en lánin eru veitt, eins og réttlátt má virðast. Þetta fyrirkomulag telur n. heppilegt og gott, eftir því sem hún getur dæmt. En hún telur, að sitthvað megi betur fara en er í þess frv. Fyrst og fremst lítur hún þannig á, að það sé mjög æskilegt, að þetta fyrirtæki sé gert í byrjun það sjálfstætt, að nokkrar líkur séu til þess, að það geti staðið straum af sínum skuldbindingum sjálft, svo að ríkissjóður þurfi ekki að búast við mjög miklum byrðum fram yfir það, sem upphaflega er lagt. Ég ætla, að þessi skoðun hafi líka komið fram við 1. umr. hjá hv. 1. landsk. Til þess að svo mætti verða, hefir n. fallizt á þá uppástungu, að kreppulánasjóðurinn sjálfur gæfi út vaxtabréf, í stað þess að gert er ráð fyrir í frv. að ríkissjóður geri það, og skuldabréf frá lántakendum séu fyrst og fremst til tryggingar þeim vaxtabréfum, svo og höfuðstóllinn, sem ríkið leggur fram, og að lokum ríkið sjálft í bakhönd. Með þessu móti kemst kannske dálítið veðdeildarsnið á þetta. Á að vera tryggt, að árgjöld í kreppulánasjóð gangi beint til að inna af höndum þær greiðslur, sem á sjóðnum hvíla, svo sem vexti og inndrátt vaxtabréfa. Ef þetta hinsvegar er látið laust og bundið, þá þekkir maður freistingu fjárveitingavaldsins til að ráðstafa fé, og mundi þessu þá máske ráðstafað miður gætilega. Þess vegna telur n. þetta til bóta.

En til þess að tryggja betur, að þessi sjóður standi straum af sér sjálfur, hefir n. lagt til að hækka örlítið það beina framlag ríkissjóðs, og er ekkert farið í grafgötur með það, að þetta sé framlag ríkissjóðs. Í frv. er talað um það, að vaxtagreiðslur eigi að renna í sérstakan sjóð. En vitanlega er það ekki annað en að ríkið leggi þetta til. N. sér þess vegna ekkert athugavert við það, að taka þetta skýrt fram. Hinsvegar heldur n. því ákvæði, að til þess að inna þetta fé af hendi, séu notaðir einmitt þessir vextir frá búnaðarbankanum, af því að gera má ráð fyrir, að sjóðurinn sé að meira eða minna leyti undir stjórn og handleiðslu búnaðarbankastjórnar. Því finnst n. þetta vel eiga við, en vill ganga lengra en gert er í frv. Ég finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta atriði, en vona, að deildin geti fallist á, að þetta sé heilbrigt fyrirkomulag.

Þá er annað stórt atriði. N. var ljóst, að ef hjálp við bændur ætti að vera að gagni, þá yrði að gera eitthvað það, sem um munaði, Og eftir rekstrarafkomu bænda væri það nauðalítil hjálp, ef vextir væru hærri en 4%. Vitanlega er gott að geta komið skuldum á einn stað með hæfilegum afborganafresti, en hitt er þó aðalatriði, að vextir séu skaplegir. Það alvarlega við búskapinn er ekki skuldirnar fyrst og fremst, heldur það að láta búin bera sig og hve útlitið er hörmulegt. Af þessum sökum hefir n. talið mikla nauðsyn, að hinir raunverulegu vextir, sem lántakendur þurfa að greiða, væru lækkaðir. Og það er gert á þann hátt að hneigjast að ákvæðum stjfrv., að vaxtabréfin séu gjaldgengur gjaldeyrir með nafnverði. Ef vextir eru hækkaðir með þessum afföllum svo að þeir verða 4,7%, og lántakandi getur ekki staðið í skilum, þá þýðir það, að lánardrottinn verður að gefa eftir. Og sannast að segja býst ég við, að lánardottnar verði fullhertir af þessu vandræðaástandi, þótt þessu sé ekki bætt við. Þess vegna leggjum við alla áherzlu á, að vextir séu á einhvern hátt lækkaðir, og eru allir nm. sammála um það.

Þetta ákvæði um fullgildi bréfanna hefir vitanlega mætt allhörðum mótmælum frá Landsbankanum, sem búast má við, að sitji uppi með bréfin að miklu leyti um það er lýkur. Og það að sitja með bréfin og bíða þangað til þau eru dregin út, þýðir vaxtatap nokkurt fyrir Landsbankann, þar sem hann á ekki eftir l. að fá meira en 4½%. En þetta þýðir 2% vaxtamismun, og verður það eitthvað á 2. millj. kr. fyrir bankann. En n. virðist, að þegar svona mikilvæg ráðstöfun er gerð fyrir stærstu stétt manna í landinu, þá sé ekki ósanngjarnt, að aðalþjóðbanki landsins hlaupi ríflega undir bagga, og hinsvegar sé bankanum opin vegur að öllum líkindum að meira eða minna leyti að gera sér tapið minna með því að lækka bæði innláns- og útlánsvexti. Bankinn segist nú ekki ráða þessu að öllu leyti. En þingið hafði með höndum frv., sem gerir honum léttara en ella að ráða við innlánsvextina. Og geti hann lækkað innlánsvexti, þá getur hann lækkað útlánsvexti, en fyrir slíka lækkun hafa allir atvinnuvegir landsins sára þörf. Þess vegna virðist bankanum vera í lófa lagið að gera þennan mismun minni.

Þá er á hitt að líta, að með því að stofna kreppulánasjóð er tryggara en ella, að bankanum greiðist sitt fé, með því að hagur manna batnar stórkostlega fyrir þessar ráðstafanir. Með þessu er því betur tryggð afkoma Landsbankans í framtíðinni, og starfsemi hans fyrir bændur verður tryggari en ella.

Þegar á þetta allt er litið, tækifæri bankans til að lækka vextina og þann mikla þátt, sem frv. á í að stuðla að betri skilum til bankans, þá er ekki efamál, að rétt er að leggja áherzlu á að taka bréfin affallalaust.

Þá er eitt atriði, sem ég býst við að orki tvímælis í deildinni. N. virtist eins og dálítill tvíveðrungur í frv. Samkv. 4. gr. frv. er tvímælalaust gert ráð fyrir, að bændur, sem eiga erfitt með að standa við skuldbindingar sínar án þessara lána, þeir geti orðið lánanna aðnjótandi, ef þeir fullnægja öllum skilyrðum. Það er gert ráð fyrir, að yfirleitt allir bændur geti komið til greina, sem hafa það örðugar ástæður, að þeir eigi bágt með að reka bú sín á heilbrigðum grundvelli, án þess að fá svona lán. En það kemur ekki til mála að gefa þeim bændum, sem ekki skulda nema 50% af sínum eignum, afslátt af sínum skuldum, vegna þess að lánardrottnar gætu fengið sínar skuldir greiddar, ef þeir gengju að. Þetta kemur þó óljóst fram í 9. gr., því að þar er gert ráð fyrir að áður en lán er veitt, sé samið frv. til skuldaskila fyrir manninn. Það bendir á afslátt eða samning um skuld. En ég hygg, að hv. d. sé ekki óljúft að styðja þá menn í þjóðfélaginu, sem eru það sjálfstæðir, að þeir eru eftir öllum líkindum færir um að standa við skuldbindingar sínar með aðeins eitthvað vægari kjörum en eru nú, heldur en hina, sem eru það langt leiddir, að gefa verður þeim stóran afslátt. Það eru vitanlega að öðru jöfnu tápmeiri mennirnir, sem ekki þurfa afsláttinn.

Þá er ein till. til að tryggja betur rétt þeirra manna, sem eiga veð í fasteignum. Samkv. frv. er gert ráð fyrir að opna möguleika til að skylda menn til að slá af útistandandi skuldum, jafnvel þó að þeir hafi veð í fasteignum, ef skuldin er meira en virði fasteignarinnar að mati sjóðstjórnar. Þetta er nokkuð hart að gengið, af því að veðið getur selzt hærra en sjóðstjórnin kann að meta, og réttur veðhafa er þar með fyrir borð borinn. N. ákvað að bæta því tryggingarákvæði fyrir lánardrottin, að því aðeins sé hann skyldur til að slá af skuldinni, að hann óski ekki eftir kaupi á hinni veðsettu eign fyrir a. m. k. 15% hærra verð en matsverð. Okkur þótti heldur ekki ástæða til að taka eignina fyrir sama verð og matsnefnd metur, með því að þá kynnu að opnast dyr til að taka jarðir af bændum meira en nauðsyn ber til.

Þá orðum við lítilsháttar upp 16. gr., og skiptir sú breyt. ekki miklu. Sama er að segja um 17. gr.

Í 18. gr. er gert ráð fyrir, að lán séu veitt til 42 ára, árgjaldið sé 5%, og sýnist því reiknað með 4%. Nú vildi n. slá föstu, að vextir mættu ekki vera hærri en þetta, í samræmi við fyrri brtt. hennar. En hinsvegar telur hún neyðarkost að ganga inn á, að öll lán til bænda verði svona löng, — m. ö. o. að útiloka, að sama kynslóðin geti endurborgað lánin. Það er svo fyrir þakkandi, að ekki er ómögulegt, að guð og gæfan sendi bændum eitt og eitt ár betra en önnur, svo að þeir losni fyrr við lánin. N. miðar þess vegna við, að lánin verði yfirleitt veitt til skemmri tíma, t. d. ekki lengri en 28 ára, og verður þá árgjaldið að vera 6%. Mundi þetta létta töluvert mikið á sjóðnum. N. slær því föstu, að vextir séu 4%, en um lánstímann fari eftir samningum, eftir því sem stjórn kreppulánasjóðs telur hagkvæmast.

Þá telur n. það fullskamman tíma, ef lánveitingum úr sjóðnum skuli lokið 1934, því að umsóknir fara ekki að koma fyrr en í haust eða vetur. Uppgjörið tekur mikinn tíma. Vill því n. framlengja tímann til ársloka 1935.

Þá er lagt til, að árgjaldið í sjóðinn renni að öllu til kreppulánasjóðs, m. ö. o. gangi upp í afborganir og vexti af þeim útgefnu vaxtabréfum.

Loks er að síðustu orðuð skýrar 23. gr., sem gerir ráð fyrir, að greiða megi úr sjóðnum afborganir af fasteignalánum bænda, enda sé sú afborgun hugsuð sem lán, en ekki framlag, og er því tekið skýrt fram.

Ég held ég hafi þá gert grein fyrir meginbreyt. þeim, sem n. vill gera. Hún leggur mikið kapp á samþykkt frv.

Ég skal taka það fram, að ég er ekki fyllilega viðbúinn að gefa glögga hugmynd um afkomu sjóðsins. Virðist horfa vænlega um hana, þó að nokkrir erfiðleikar verði fyrstu árin. Ef gert er ráð fyrir, að meginþorrinn verði lánaður út, og greiddar eru þær lögmætu afborganir og vextir, þá mundi fljótlega koma meira en nóg til að standa straum af vöxtum og kostnaði við sjóðstjórnina. Annars verða um þetta gerðir allmiklir útreikningar. En við höfum nefndarmennirnir heldur ekkert sparað til að gera okkur grein fyrir þessu.

Að sjálfsögðu má gera ráð fyrir, að eitthvað tapist af þessum lánum; en ef bændum verða veitt lánin með þetta góðum kjörum og ekki fer því ver um rekstur landbúnaðarins, þá er mikil von um, að tapið verði ekki mjög stórt. En þessháttar fer sem sagt algerlega eftir árferði.

Að síðustu vil ég geta þess, að n. er kunnugt um, að uppi eru ýmsar stefnur um stjórn þessa sjóðs. N. virðist henni sæmilega fyrir komið eins og er í frv., að höfuðmaðurinn sé form. búnaðarbankans. Sjálfsagt má segja, að margt mæli með því, að búnaðarbankinn hafi þetta með höndum, þar sem hann er stofnun fyrir landbúnaðinn fyrst og fremst. Hinsvegar má segja, að ríkisvaldinu sé tryggi eftirlit, þar sem tveir eru kosnir af landbn. þingsins. N. hefir frestað rækilegri athugun um stjórn sjóðsins, til 3. umr., en mun þá koma með till., ef þörf virðist. — Annars man ég ekki eftir, að það séu sérstök atriði, sem þarf að taka til athugunar, en ef svo er, þá vona ég, að það komi fram í umr.