24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (3416)

167. mál, kreppulánasjóð

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil leyfa mér að þakka n. fyrir þá miklu vinnu, sem hún hefir lagt í þetta frv., og ég verð að telja, að till. hennar margar miði að ýmsu leyti til bóta. Fyrst og fremst verð ég að telja það til bóta, að n. hefir lagt til, að hækkað yrði hið beina framlag til kreppulánasjóðs um 400 þús. kr., þar sem tekið er fram í 1. gr. í brtt. hennar, að framlag ríkissjóðs skuli vera 2½ millj. í stað þess að í frv. eins og það kom frá 3. umr. í Nd. er framlagið ætlað 2100000 kr. Ég get einnig verið því samþykkur, að það sé tryggara fyrirkomulag, að kreppulánasjóður gefi sjálfur út skuldabréf með þeirri tryggingu, sem lagt er til í brtt. n., sem er fyrst og fremst stofnféð — þessi 2½ millj. kr. —, og skuldabréf lántakanda, og svo ábyrgð ríkissjóðs. Ég tel það tryggara að því leyti, að með því er algerlega sett undir þann leka, að ef einhverntíma kæmi inn meira fé í árgjöldum en þarf að verja til útdráttar bréfanna og vaxta af þeim, þá lenti afgangurinn inn í sjálfan ríkissjóðinn og yrði þar að eyðslufé, þótt vitanlega hefði e. t. v. mátt með annarskonar ákvæðum fyrirbyggja það. Þá er það og í sjálfu sér heppilegra form, að kreppulánasjóðurinn sé þannig gerður að sérstakri lánstofnun, með ábyrgð ríkissjóðs að baki, heldur en að ríkissjóður gefi sjálfur út skuldabréfin. Ég tel það einnig til bóta. Það er fastara orðalag í b-liðnum um að eigi skuli innleystur minna en 1/40 hluti lánanna árlega. Hinsvegar verður ekki hjá því komizt að leggja verði þær byrðar á ríkissjóð, að hann verði að hlaupa undir bagga, þegar handhært fé kreppulánasjóðs reynist ekki nægilegt til að greiða þær skuldbindingar, sem á honum hvíla á hverjum tíma. Um brtt. l.c — væntanlegrar 3. gr. — um að skuldabréf kreppulánasjóðs skuli vera með nafnverði gildur gjaldeyrir til greiðslu skulda eldri en frá 1. jan. 1933, þá kemur það heim við till. mínar í frv. því, sem flutt var í Nd., þótt þar yrði ofan á sú samkomulagstill., að fjmrh. ákvæði gengi bréfanna. Einnig get ég verið samþykkur því, að 2. málsliður l. málsgr. 3. gr. falli niður, ekki af því, að ég búist ekki við, að þeir, sem þar eiga hlut að máli, eigi vissan rétt til þess að njóta góðs af þessum sjóði, sérstaklega vegna þess að smábýladeild eða lánstofnun fyrir smábýli hefir ekki verið stofnuð enn, eins og þó er gert ráð fyrir í 1. frá 1929. En það liggja ekki fyrir neinar skýrslur um það atriði, hve mikið fé myndi þurfa til þessa, enda geri ég ráð fyrir, að það verði erfitt að gera þar upp á milli, ef málsgr. verður orðuð eins og nú er í 3. gr. Má þá vel fara svo, að sá hljóti lánið, sem hefir stærri kartöflugarð og stærri tún, en hinn fái ekkert, sem stendur að þessu leyti verr að vígi.

Viðvíkjandi brtt. við 9. gr., þeirri viðbót, sem n. leggur til, að verði þar við málsliðinn, að stjórn sjóðsins semji því aðeins frv. um skuldaskil fyrir skuldunaut, að hún telji hann þurfa að fá eftirgjöf á skuldum, vil ég einungis minna á, að í því frv. getur falizt fleira en eftirgjöfin ein. Þar geta og falizt í samningar um greiðslu lánanna, og hygg ég, að það geti verið mjög mikils virði fyrir viðkomandi skuldunaut að geta fengið hjálp sjóðsstjórnarinnar til þess að komast að sem heppilegustum samningum um greiðslu skulda sinna, annara en þeirra, sem kreppulánasjóður veitir honum lán til að greiða, en það getur stundum skipt miklu fyrir lántakanda. Vildi ég því mælast til þess, að n. vildi athuga þetta mál til 3. umr. og að hún geymdi till. sínar þangað til. Sama er að segja um brtt. n. við 15. gr., sem ætlazt er til, að verði 16. gr. í þessu frv., að ég teldi heppilegra, að atkvgr. um það yrði og frestað til 3. umr. — Brtt. n. við 16. gr. verð ég að vera samþykkur. Það er betra orðalag og kemur skýrar fram, hvað átt er við.

Brtt. n. við 18. gr. kemur ekki að neinu leyti í bága við orðalag 18. gr. eins og það er nú, því að þar stendur, að heimilt sé að veita lán til allt að 42 ára, og þar með er sjóðstjórninni veitt heimild til þess að ákveða styttri og lengri lánstíma allt að 42 árum. En ég get þá verið samþykkur því, að þetta sé skýrara orðalag eins og það er hér í brtt. n. við 18. gr. Einnig verð ég að líta svo á, við nánari athugun, að það geti verið nauðsynlegt, að stjórn sjóðsins sé heimilaður lengri tími til lánveitinga úr kreppulánasjóði en til ársloka 1934. Það er heppilegt, ef hún gæti lokið því starfi fyrir þann tíma, en dálítið hæpið að lögbinda það, og verð ég því að telja þessa brtt. til bóta, en vænti þess, að stjórn sjóðsins reyni að ljúka þeirri uppgerð, sem hér um ræðir, svo fljótt sem unnt er, fyrir því.

Brtt. um að 22. gr. falli niður leiðir af sjálfu sér, ef 1. brtt. nær samþykki, en um brtt. á 23. gr. skal ég viðurkenna, að brtt. n. er skýrari en í frv. sjálfu. En samt sem áður vildi ég mælast til þess af n., að hún taki þessa brtt. sína til sérstakrar athugunar til 3. umr., vegna þess að ég hygg, að ekki sé rétt að ganga að fullu frá þessu ákvæði fyrr en þetta hefir verið athugað sérstaklega í sambandi við hitt frv., sem þessu fylgir, um ýmsar ráðstafanir vegna kreppunnar.