24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2200 í B-deild Alþingistíðinda. (3418)

167. mál, kreppulánasjóð

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég finn mér skylt að þakka þeim tveim mönnum, sem um frv. hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir till. n., því að mér skilst þeir verða þeim sammála í öllum aðalatriðum, og hv. 1. landsk. lýsti yfir því, að hann mundi greiða atkv. með öllum till. n. Ég skal geta þess, út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að það má vel vera, sérstaklega um 10. brtt. n., að komast mætti að heppilegri niðurstöðu, og n. er fús að ræða um það við hann við 3. umr. Sama er og að segja um hinar till., þótt ég sjái ekki, að þar sé um verulega efnisbreyt. að ræða. N. er líka fús á að tala um þær breyt., en óskar fyrir sitt leyti eftir því, að ráðh. gæti fallizt á, að þessar till. yrðu samþ. nú, en að svo verði síðasta till. endurskoðuð fyrir 3. umr., og sé gleggra að fá þetta allt saman í frv. Annars skal ég geta þess, að mér mun hafa láðst áðan að minnast á eina brtt., sem hæstv. atvmrh. mun hafa minnzt á, og það er við síðari málsgr. 1. gr., um að lánveitingar nái til smábýla kringum kaupstaði og kauptún. Nú er þannig ástatt um þessi smábýli, að ekki hefir farið fram nein hliðstæð rannsókn á þeim og hliðstæðum smábýlum bænda, og það bendir til þess, að ríkisstj. og kreppunefndin hafa litið þannig á, að þetta væri ekki algerlega hliðstætt, enda er þarna ólíku saman að jafna. Mikið af þessum smábýlabúskap er ekki nema aukastörf, og smábýlamennirnir eru allt öðruvísi settir en bændur almennt, þar sem þeir sitja að þeim markaði, sem beztur er, og er það ólík aðstaða, því að erfiðleikar bænda stafa fyrst og fremst af því, hve léleg afurðasalan er. En fyrir menn, sem framleiða fyrir kaupstaðina hefir þetta ekki breytt eins miklu, og markaðsskilyrðin eru betri til móts við hina. Verð ég því að leggja til, að þetta sé því ekki tekið upp í frv. að þessu sinni. Vel mætti vera, að væri rannsókn látin fara fram á þessu til næsta árs, leiddi hún nauðsyn þessa í ljós, en ég held, að þetta sé ekki svo aðkallandi, að þörf sé á framkvæmdum nú, og er það ekki fyrir n. af neinum illvilja í garð þessara manna. Það er aðeins þetta, að þeirra atvinna er ekki hliðstæð bænda yfirleitt og skilyrðin öll önnur.

Þar sem engin mótmæli hafa komið fram gegn till. n. sé ég ekki ástæðu til að fara frekari orðum um málið að sinni.