20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

1. mál, fjárlög 1934

Ingvar Pálmason:

Ég á fjórar litlar brtt. við þessa umr. Tvær af þeim voru fluttar við 2. umr., en þá tók ég þær aftur til 3. umr. eftir tilmælum hv. fjvn. Hinar tvær brtt. eru nýjar og ekki fluttar áður.

Fyrsta brtt. mín er undir XXXIV. lið og er þess efnis að styrkja Finn Guðmundsson til þess að ljúka námi í Þýzkalandi. Ég flutti samskonar brtt. við 2. umr., en þá undir þeirri gr., þar sem eru almennir námsstyrkir. En nú flyt ég þessa brtt. yfir á 16. gr., og gerði ég það með fyllilega ráðnum hug, og set hana í framhaldi af því fé, sem veitt er til fiskiræktar í landinu. Eins og ég gat um við 2. umr., þá stundar þessi maður vatnalíffræði eða sviffræði. Nú er öllum ljóst, að nauðsynlegt er að hafa sérfróðan mann á sviði fiskiræktarinnar. Má þar benda á hina margháttuðu reynslu, sem við höfum fengið af starfi þeirra fiskifræðinganna Bjarna Sæmundssonar og Árna Friðrikssonar, og tíminn mun leiða það betur og betur í ljós, hve mikils virði það er fyrir okkur að hafa fróða menn í þessari grein. En nú hefir á síðustu árum vaknað allmikill áhugi fyrir því að auka fiskiræktina í ám og vötnum landsins og hefir verið veittur styrkur í því augnamiði frá hinu opinbera. Ég vil benda á það, að í meðmælum, sem fyrir liggja með styrkbeiðni þessa manns, er sérstaklega af prófessor Bjarna Sæmundssyni bent á það, hve mikil nauðsyn sé á því að fá til landsins vel fróðan mann í þessum efnum. Ég geri því ráð fyrir, að það sé í fyllsta máta viðeigandi að setja þessa fjárveitingu inn á 16. gr. í framhaldi af því fé, sem veitt er til fiskiræktar í landinu. Ég hefi að vísu haft þessa fjárhæð nokkuð hærri en venjulegt er um námsstyrki, og það byggi ég á því, að nú er að byrja síðasta námsár þessa, manns, náminu verður lokið sumarið 1934, og með tilliti til þess, að þessi maður hefir ekki notið styrks fyrr af almannafé, þykir mér rétt að miða upphæðina sem næst við 2ja ára styrk. Ég geri ráð fyrir, að bæði vegna verðleika þessa manns sjálfs og þeirrar vísindagreinar, sem hann stundar, og kannske ekki síður vegna hins látna föður hans, þyki d. rétt að bregða út af venjunni og veita 2ja ára styrk í einu lagi. Ég geri mér fyllilega vonir um, að d. samþykki þessa tillögu og læt ég þessi ófullkomnu ummæli nægja fyrir henni í því trausti, að hún mæli betur fyrir sér sjálf.

Þá á ég næst brtt. á sama þskj. undir XXXV. lið. Það er nýr liður, til Péturs Sigurðssonar, til útbreiðslu bindindis og annara menningarmála gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá. Þegar fjárl. komu frá Nd., þá var styrkur sá, sem þar var ákveðinn til Stórstúku Íslands bundinn þeirri aths., að af þeirri upphæð beri að greiða Pétri Sigurðssyni 3500 kr. Við 2. umr. fjárl. í þessari d. var þessari aths. kippt burtu, og mun ástæðan til þess hafa verið sú, að framkvæmdamenn stórstúkunnar óskuðu eftir, að þessi aths. félli niður, ekki af því að þeir teldu þennan mann ekki hæfan til þess að vera útbreiðslumaður fyrir regluna, heldur af því, að þeir litu svo á, að það væri varasöm leið að fara inn á, að binda styrki til stúkunnar við nöfn vissra manna. Þó að þeir í sjálfu sér hefðu ekkert á móti þessum manni í þetta skipti, þá gæti farið svo, ef þingið í framtíðinni gengi inn á þessa braut að binda styrkveitingar til stórstúkunnar við nöfn vissra manna, þá mundi ekki æfinlega takast eins vel til og um þennan mann. Þar sem ég viðurkenni fyllilega, að þessi maður, Pétur Sigurðsson, sé þeirra manna líklegastur, sem ég þekki, til þess að útbreiða bindindisstarfsemi svo góðan árangur beri, þá hefi ég leyft mér að flytja þessa till. hér, að upp í fjárl. verði tekin 1000 kr. fjárveiting til bindindisútbreiðslu gegn því skilyrði, að hann fái tvöfalda þessa upphæð annarsstaðar frá, og þá dreg ég ekki neina dul á það, að ég ætlast til, að stórstúkan leggi það fram eða noti starfskrafta þessa manns sem svarar 2000 kr. Ég hefi minnzt á þetta við núverandi stórtemplar, og mér er óhætt að hafa það eftir honum, að svo framarlega sem hann hefir ástæður til að ráða nokkru um útbreiðslustarfsemi stúkunnar, þá leggi hann til, að hún noti starfskrafta þessa manns sem svarar fyrir þá upphæð, sem hér er farið fram á. Ég geri því ráð fyrir, að d. samþ. þessa brtt. vegna þess að mér hefir skilizt á hv. dm., að þeir telji þennan mann alls góðs maklegan fyrir sitt bindindisstarf og líti svo á, að ekki séu líkur til þess, að annar heppilegri maður yrði ráðinn til þess starfs.

Þá flyt ég ennfremur brtt. undir XLIII. lið, og er hún samhlj. till., sem ég flutti við 2. umr., en þá tók aftur eftir tilmælum fjvn. Ég gerði ráð fyrir, að n. mundi máske hafa í hyggju að taka upp þessa brtt. að einhverju leyti, en það hefir nú ekki orðið. En ég þykist þó mega ráða af þessum tilmælum n., að hún sé brtt. hlynnt. Brtt. er þess efnis að veita Jóni Þorleifssyni málara allt að 10 þús. kr. lán til að standast kostnað af byggingu vinnustofu. Það er gert ráð fyrir, að lánið endurgreiðist ríkissjóði í málverkum lántakanda á 4 árum. Í fjárl. eru nú þegar fordæmi fyrir slíkri hjálp til listamanna, og ég tel, að þessi maður sé þess fyllilega maklegur að verða svipaðra hlunninda aðnjótandi. Að öðru leyti get ég vísað til þeirra ummæla, sem ég viðhafði um þessa till. við 2. umr.

Þá á ég eina brtt. á þskj. 746, við brtt. fjvn. á þskj. 733 við XII. lið, um fjárveitingu til bryggjugerða. Þessi brtt. mín fer fram á að hækka liðinn um 1000 kr., og er það gert með tilliti til þess, að fjvn. hefir borizt umsókn um styrk til að endurbyggja bryggju í Breiðdalsvík í Suður-Múlasýslu. Að vísu er farið fram á hærra tillag en þetta, en ég gerði það með ráðnum hug að hafa upphæðina ekki hærri, vegna þess að ég vona, að ef þessi styrkur fengist, þá mætti úr bæta, svo við mætti una. Á þessum stað hefir verið bryggja til ársins 1931, en í miklu hafveðri fór nokkur hluti bryggjunnar, og síðan hefir þar verið bryggjulaust, því sá hluti, sem eftir stendur, er ekki nothæfur. Bryggjan var byggð þannig, að það var byggður öflugur bryggjuhaus nokkuð frá landi og síðan var byggður ódýrari og ekki eins sterkur landgangur frá hausnum og í land. En í þessu veðri haustið 1931 bilaði þessi landgangur, sem ég nefni svo. Að vísu var það bryggja, en byggð á nokkuð annan hátt en hausinn. Það gefur öllum að skilja, að það hefir mikla þýðingu, fyrst og fremst fyrir þá, sem þarna búa, að geta haft þarna bryggju, svo að afgreiðsla báta, sem flytja verða vörur út og í skip, gangi sæmilega greiðlega, og auk þess þarf ekki nema ofurlitla ókyrrð í sjónum til þess að nálega ófært sé að athafna sig á bátum við land. En þetta mál snertir fleiri en beinlínis íbúana í Breiðdalsvík. Mér er kunnugt um, að skipstjórar á strandferðaskipunum hafa kvartað undan því, að afgreiðsla á þessum stað gangi mun seinna síðastliðin ár vegna þess, að ekki hefir verið hægt að nota bryggjuna. Nú er það svo, að þessi höfn er fremur slæm og illræmd af skipum, sem þar þurfa að koma, og má geta nærri, að það bætir ekki úr með að fá þangað skip, þegar fyrir fram er víst, að afgreiðslan hlýtur að ganga mjög seinlega. Ég held því, að ekki verði á móti mælt, að það sé fyllsta þörf fyrir þessa fjárveitingu. Ég geri líka ráð fyrir, að nokkuð hafi valdið, að fjvn. ekki tók upp þennan styrk, að málið kom svo seint til hennar. Hinsvegar tel ég víst, að hún muni greiða atkv. með þessari brtt., því hér er um lítið fé að ræða, en þörfin fyrir umbótina er mikil.

Ég læt svo nægja þessi fáu orð fyrir brtt. mínum og vænti, að þær fái náð fyrir augum hv. fjvn.