27.05.1933
Efri deild: 82. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2212 í B-deild Alþingistíðinda. (3431)

167. mál, kreppulánasjóð

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég hjó eftir því hjá hv. frsm., að hann sagði, að bankarnir kynnu að geta notað skuldabréf kreppulánasjóðs sem greiðslur upp í eigin skuldir. En þá vit ég spyrja hv. frsm., hvort það sé meiningin, að bankarnir geti greitt með þeim innstæðufé, svo að bréfin yrðu sem næst því almennur gjaldeyrir. (JónJ: Það er alls ekki meiningin). Ég vildi aðeins, að þetta kæmi skýrt fram, og vænti ég þess, að það verði haldið.

Hvað viðvíkur þeim aths., sem hv. frsm. gerði við brtt., þá virtist mér ekki sem allra bezt samræmi hjá honum. Fyrst benti hann á, hversu mikið hagræði lánardrottnum væri gert með þessum ráðstöfunum, en hinsvegar taldi hann þeim óbærilegt að bera nokkurn halla af skuldabréfunum. En þar sem tryggt er, að þeir fái þann hluta skuldanna, sem nokkurs virði er, þá er ekki nema eðlilegt, að þeir gengju fúslega að því að gefa eitthvað meira eftir. Það er ætlazt til, að kreppulánasjóður geri bændur upp, og er það út af fyrir sig stórkostlegt hagræði fyrir lánardrottnana, jafnvel þó þeir yrðu að taka skuldabréfin með nafnverði. Gætu þeir síðan losnað við bréfin með sanngjörnu gengi, t. d. til bankanna, sem þurfa að sjá sínum viðskiptavinum farborða. Ég get því ekki fallizt á, að of nærri sé gengið lánardrottnunum, þó þeir tækju bréfin affallalaust, þar sem svo er í haginn búið, að þeir fá greiddar skuldir sínar eftir eignamati. Ég tel lánardrottnum svo vel borgið, að þeir hafi ekki upp á neitt að klaga. Ég býst heldur ekki við að óttast þurfi um, að hag kaupfélaganna sé hætta búin, því að vitanlega dettur engum annað í hug en að vægilega verði farið með lánardrottnana og tekið verði fullkomið tillit til þess halla, sem þeir kunna að bíða. Virðist mér þetta óþarfa ótti hjá hv. frsm. og vitanlega því fremur hjá hv. 5. landsk. Sé ég, að hv. frsm. hefir komið vel að fá till. mína til samanburðar við till. hv. 5. landsk., og get ég vel unnað honum þess.