30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (3434)

167. mál, kreppulánasjóð

Ingólfur Bjarnarson:

Í lasleikaforföllum hv. frsm. kreppun. (TrÞ) vildi ég skýra frá því, að n. hefir athugað þær breyt., sem Ed. hefir gert á frv., og komizt að þeirri niðurstöðu, að þær væru að mestu leyti til bóta, og leggur hún því til í heild sinni, að frv. verði samþ. eins og það nú er. Þessar breyt. eru sumar allverulegar, og skal ég lauslega minnast á þær helztu. Í 1. gr. er framlag ríkissjóðs til kreppulánasjóðs aukið að töluverðum mun, allt að ½ millj. kr., þar sem lengdur er sá tími, sem vaxtagreiðslur frá búnaðarbankanum eru látnar renna í kreppulánasjóð.

Í 2. gr. er gerð töluverð skipulagsbreyt. á sjóðnum. M. a. er sjóðnum sjálfum ætlað að gefa út skuldabréfin, sem ríkissjóður átti að gera áður. Er kreppulánasjóður gerður nokkuð sjálfstæðari en áður var með breyt. þessarar gr.

Í þriðja lagi er í 3. gr. gerð sú breyt. á frv., að skuldabréfin eru ákveðin með nafnverði eins og var, þegar frv. var fyrst lagt fram, en eins og kunnugt er, var því breytt hér í Nd.

Þá er sú breyt. gerð á 19. gr., að vextir af lánum úr kreppulánasjóði eru ákveðnir 4%, en í frv., eins og það var, þegar það fór héðan úr d., voru vextir og afborganir ákveðnir 5% í 42 ár. En eftir þessari breyt., sem gerð var í Ed., þá eru afborganir ekki fastákveðnar, heldur er stjórn sjóðsins falið að ákveða þær eftir því sem henni þykir rétt vera, en þó skulu afborganirnar aldrei ná yfir lengri tíma en 42 ár.

Þá er í 22. gr. gerð sú breyt. á, að í staðinn fyrir það, sem áður var ákveðið, að lánveitingum úr þessum sjóð skyldi vera lokið fyrir 31. des. 1934, þá skuli þeim lokið fyrir 31. des. 1935. Ég get getið þess, að n. þótti þessi breyt. ekki nauðsynleg, en hinsvegar taldi hún ekki ástæðu til að leggjast á móti henni.

Þá vil ég geta þess, að af vangá hefir 20. gr. ekki verið breytt í samræmi við þetta, þar sem talað er um, að stjórn kreppulánasjóðs skuli skipuð 3 mönnum til 31. des. 1934, en á náttúrlega að vera 1935, samkv. fyrrnefndri breyt.

Ed. nefndin hefir líka kannazt við, að þetta stafaði af vangá. Ég vil því skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að láta leiðrétta þetta, án þess að nokkur brtt. verði borin fram þar að lútandi, þar sem sýnilegt er og viðurkennt er, að þetta stafar af vangá.

Ég hefi þá lauslega farið yfir þessar brtt., sem ég þykist vita, að hv. dm. hafi þegar gert, og eins og ég hefi áður tekið fram leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.