09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2215 í B-deild Alþingistíðinda. (3443)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég vil geta þess, að um afgreiðslu þessa frv. hefir hv. þm. Seyðf. sérstöðu innan n. Ennfremur vil ég taka það fram, að n. hefir í hyggju að bera fram frekari brtt. við 3. umr. og setja þar inn í liði, sem teknir voru út úr frv. um kreppulánasjóð við fyrri umr. Við 2. umr. var það tekið fram, að vaxtalækkun sú, sem hér er heimiluð til 2 ára, myndi kosta ríkissjóð 120 þús. kr., en það leiðir þó af sjálfu sér, að þessi heimild verður aldrei notuð til fulls, og yrði því kostnaður vafalaust undir 100 þús. kr. En heimildin til frestunar á afborgunum á þó ekki að kosta ríkissjóð neitt, þegar til lengdar lætur.

Kreppun. hefir borið fram brtt. við 5. gr. frv. um það, að stjórn kreppulánasjóðs sé heimilað að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að bönkunum verði fært að veita afborgunarfresti þá, sem um ræðir í 1. og 2. gr., og lána til þess fé úr kreppulánasjóði. Brtt. n. á þskj. 585 leggur það á vald stj. kreppulánasjóðs að gera þessar ráðstafanir, án þess að taka fram, hverjar þær skuli vera. Þetta er fyrirkomulagsatriði, en n. telur óþarft að kveða nánar á um þessar ráðstafanir, sem ættu að vera ákveðnar af stj. kreppulánasjóðs og stj. bankanna. N. leggur til, að brtt. verði samþ.

Hv. þm. Seyðf. hefir ásamt flokksbræðrum sínum borið fram brtt. á þskj. 600. Hv. þm. var með þessa till. í n. N. gat ekki fallizt á hana, þar eð ekki er um það vitað, hve mikil sú upphæð er, sem um væri að ræða, ef þeir menn væru teknir með, sem brtt. fjallar um. En það kostar mikla vinnu að athuga þetta. Innan kreppun. er ríkjandi vilji á því að stuðla til þess, að þessi athugun fari fram, en að svo stöddu getur n. ekki mælt með till.