20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég tala að þessu sinni ekki sem frsm., heldur sem flm. till á þskj. 746, V, sem ég flyt ásamt 3 öðrum hv. dm. Undanfarin ár hafa verið veittir nokkrir styrkir til atvinnubóta fyrir verkamenn í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Er það óhjákvæmilegt eins og árað hefir, og hefir fjvn. ekki séð sér annað fært en að leggja einnig nú til nokkurt fé í þessu skyni. Hv. 2. landsk. talaði hjartnæmlega um þetta og sýndi fram á vandræði þau, er nú steðjuðu að verkamönnum. Sagði hann m. a., að þeir væru illa settir um kaupgjald, því að ríki og sveitarfélög hefðu sett það svo mjög niður, að verkamenn hefðu sumstaðar ekki nema 50 aur. á klst. Ég er ekki úr því að draga, að þeir eigi við skort að búa og að þörf sé að styðja verkamenn á slíkum krepputímum, ekki af því, að þeir hafi aðeins 50 aur. um tímann, heldur af því að þeir hafa margir ekkert að gera. En það er önnur stétt í landinu, sem hefir ekki einu sinni þessa 50 aur., sem sé bændur. Af skjölum þeim, sem rannsóknarn. hefir safnað til, sést, að skuldir bænda eru nú óheyrilega miklar. Að meðaltali skulda þeir 5000 kr. hver. Þessar skuldir hafa aðallega myndazt á síðastliðnum áratug og stafa að minnstu leyti af orsökum, sem bændum voru sjálfráðar. Byrjun þessara skuldamyndana mun hafa orðið á árinu 1920. Það ár voru mikil harðindi, og varð þá og næst á eftir mikið verðfall á vörum bænda. Síðan hafa gengið nokkurskonar fjárplágur yfir landið. Varð sérstaklega eitt árið, 1927, stórtjón á sauðfénaði, ekki af fóðurskorti, heldur af sjúkdómum og e. t. v. af því, að fóðrið hefir ekki verið blandað sem skyldi. Í 3. lagi er sú ástæða, að bændur sáu ekki annað ráð til að bæta búskapinn, þar sem kaupgjald fór hækkandi, en að auka ræktunina og bæta býlin. Hefir á þessum árum verið miklu meira ræktað en nokkurn tíma áður síðan land byggðist. Svo kom þetta stórkostlega verðfall á landbúnaðarafurðum upp á síðkastið, sem olli því, að aðalframleiðsla bænda var ekki nema í helmingi þess verðs, sem verið hafði skömmu áður. Þar að auki hefir t. d. hrossasalan alveg orðið að engu. Er því ekki undarlegt, þótt erfiðlega blási. Hefir af öllu þessu orðið mikill rekstrarhalli á búum manna. Ef það væri ekki, gætu bændur e. t. v. baslað út úr skuldunum. Ég vil hér með dæmi benda á það, hvert muni vera kaupgjald bænda. Það er talið meðalbú, sem hefir 70 ær. Eru það einu tekjur bónda til þess að greiða vexti, afgjöld og nauðsynjar, að selja afurðir þeirra. Sumir bændur hafa auk þess nokkra mjólkurframleiðslu, en hún gefur víðast ekki meira af sér en það, sem rennur í búið sjálft, nema þá helzt á Suðurlandi og sumstaðar kringum Akureyri. Annarsstaðar hafa bændur ekkert sér til lífsviðurværis nema afurðirnar af þessum 70 ám, og gefur það ekki meira en 500 kr. tekjur. Þetta á nú að bera afgjald og vexti af 5000 kr. skuld, opinber gjöld, landskuld o. fl., og sjá þá allir, að bóndinn hefir ekki einu sinni 50 aura um tímann og líklega varla 1/5 hluta þess, enda þótt bændur og konur þeirra vinni baki brotnu árið um kring. Menn segja og vona, að bráðum fari nú að rakna úr, og þingið hefir gert stórfelldar ráðstafanir til að bæta úr vandræðum bænda, með stofnun kreppulánasjóðs, en þetta kemur þó ekki til framkvæmda á þessu ári. Menn halda, að nú sé t. d. eitthvað að rakna úr um markað í Englandi. Þó er það allt í óvissu enn. En reynslan síðasta ár var sú, að bændur höfðu ekki meiri tekjur en helming af því, sem var 1929. Hér er því hætt við, að bændur missi kjarkinn til áframhaldandi búskapar og flýi í hópum til kaupstaðanna, svo háskalegt sem það er þjóðinni. Veit ég, að margir hv. dm. skoða bændur sem kjarna þjóðarinnar, er skapi festu í hana og leggi oft til þroskamestu mennina. Þá ætti mönnum líka að vera ljós nauðsynin á því, að bændur geti haldið áfram búskap sínum fjárhagslega sjálfstæðir. Er það sízt heppilegt, að bændur fari nú að flykkjast í kaupstaðina, þar sem menn eru atvinnulausir í hópatali og flykkjast í öfgaflokkana, sem vilja bylta um þjóðfélaginu. En ef ekki er bætt úr, þá má við því búast, að þetta verði. Sumum kann nú að þykja það frekt af okkur bændum þessarar d. að fara fram á það, sem við gerum, fyrir okkar stétt. En ég held þó ekki, að það sé rétt álitið. Ég tel það skyldu okkar, ekki einungis við bændur, heldur líka við þjóðina. Flestar stéttir leita í vandræðum sínum til þjóðfélagsins sem heildar, og það telur sér vanalega skylt að hjálpa. Það, sem við förum fram á, er nokkuð mikið, 400 þús. kr., en till. þarf ekki að koma öll til framkvæmda, nema óvenjulega illa ári og vörur seljist ekki. Er gert ráð fyrir, að farið verði gætilega í málin og að atvmrh. setji reglur um veitingu fjárins í sambandi við nefndir bænda. Held ég, að þá sé nógu tryggilega um búið. Læt ég svo útrætt um málið, en vona, að hv. d. verði við þessari nauðsyn.