25.03.1933
Neðri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (3452)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Frsm. (Lárus Helgason):

Þetta litla frv. hefir verið til meðferðar á undanförnum þingum, þó afgreiðsla þess hafi ekki gengið betur en raun hefir á orðið, þó það hafi haft mikið fylgi í þinginu. Að það náði ekki fram að ganga á síðasta þingi, stafaði af litlum ágreiningi milli deildanna, sem varð því að falli. Hv. Ed. vildi ekki, að frv. kæmi til framkvæmda fyrr en eftir 2 ár, en hv. Nd. leit svo á, að engin þörf væri á þeim drætti, enda er ekki sjáanleg nein ástæða til þess að fresta því, að frv. komi til framkvæmda. Það er vitanlega búið að ganga nógu lengi með þá ómannúðlegu meðferð á hestunum að rígbinda þá og reyra, þegar þeir eru geltir. Sú voðalega og illa aðferð má sannarlega leggjast niður. Og það er líka auðvelt, þar sem það er fengin örugg reynsla fyrir því, að hægt er að svæfa skepnurnar meðan þessi aðgerð fer fram. Ég býst við, að mönnum þætti það vont að láta fara með sig eins og farið hefir verið með hestana okkar, þegar þeir hafa verið geltir.

Annars lít ég svo á, að ekki sé þörf á því að hafa langa framsögu í svo einföldu máli sem þessu. Eins og ég sagði, hefir málið mætt velvilja hér í þinginu, svo ég sé ekki ástæðu til þess að fara um það fleiri orðum að svo komnu, nema tilefni verði til þess gefið í umr. Óska ég, að málinu verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.