20.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3468)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég er sammála hv. þm. Snæf. um það, að þetta frv. eigi að vera miskunnarmál gagnvart dýrunum, og ég get þess vegna verið honum sammála um það, að þeir dýraflokkar, sem ekki eru nefndir í frv., ættu af þeirri ástæðu að takast með. Hinsvegar er ég hræddur um, í sambandi við geldingu lamba, að þá yrði þetta þungt í vöfum, en það má á það líta, að það er ekki algengt nú að ala upp sauði, eins og áður var.

Ég sé, að það eru tveir læknar, sem flytja þessar brtt. Þess vegna hætti ég mér ekki út í að deila neitt við þá um það, hvaða lyf eigi að nota til þess að draga úr þeim sársauka, sem verður við uppskurðinn. Landbn. tók ekki ákvörðun um þessar brtt., svo að ég hefi ekkert umboð til þess að segja neitt fyrir hennar hönd. Ég get fyrir mitt leyti eftir atvikum fallizt á þær, og ég held, að ég megi segja, að a. m. k. annar samnm. minn sé ekki fjarri því heldur.

Í fyrra talaði n. við dýralækninn um þetta frv., m. a. hvort ekki væri heppilegra og hættuminna að deyfa, eins og hér er gert ráð fyrir. Leit hann svo á þá, að svo væri ekki. Hann taldi, að hætta gæti stafað af hvorritveggja aðferðinni. Ég get því engan mun á því gert, en get allt eins vel gengið inn á þessar brtt.