18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (3473)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Jón Jónsson:

Eins og menn muna, þá varð allmikil breyt. á þessu frv. við síðustu umr., því það var fært mikið út, þannig að ákvæði frv. áttu að ná til allra húsdýra og þar af leiðandi sauðfjár. Ég hefi síðan hugsað nokkuð um þetta og komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé varla gerlegt að hafa þessi ákvæði svona víðtæk, sérstaklega að láta þau ná til lambanna. Eins og kunnugt er, er mikil hreyfing í þá átt að gelda unglömbin, vegna þess að kjöt af þessháttar skepnum fellur betur fyrir brezka markaðinn, sem við erum nú að reyna að byggja vonir okkar á. En kostnaður við það yrði svo mikill, að ekki er fært að leggja það á fjáreigendur, því eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, myndi lyfið fyrir hvert lamb verða 20-30 aurar. Og eins og verð er á afurðum fjár nú, sjá allir, að þetta yrði of þungur skattur. Auk þess er miklu síður þörf á að láta þessi ákvæði ná til svo ungra skepna eins og lambanna, því það er kunnugt, að ungviði verður miklu minna um þetta heldur en eldri skepnum. Í flestum tilfellum verður lömbunum sama og ekkert meint við þetta; þau eru sprellfjörug á eftir. Einnig má benda á það, að nú á síðustu árum er farið að flytja inn til landsins tengur, sem eru miklu heppilegri við þetta starf en þær aðferðir, sem notaðar hafa verið. - Ég hefi því leyft mér í brtt. á þskj. 412 að fara fram á, að þetta nái aðeins til dýra, sem eru veturgömul, en dýr á fyrsta ári séu undanþegin þessum ákvæðum. Og ég vona, að jafnvel frá mannúðarsjónarmiði sé ekkert athugavert við þetta, og vegna þess að það skiptir svo miklu, vona ég, að d. geti samþ. þessa brtt.