18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (3479)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Halldór Steinsson:

Hv. 3. landsk. sagði, að það hefði allt í einu komið fram þessi mikla mannúð hjá mér, þar sem ég hefði ekki flutt frv. í þessa átt á öllum þessum árum, sem ég hefi setið á þingi.

Hv. þm. má muna það, að á síðasta þingi kom fram þessi mannúð hjá mér viðvíkjandi þessu frv. Ég vakti athygli á því, að frv. væri einskis virði, ef það næði ekki til allra húsdýra, og síðan frv. kom fram hefi ég haldið sömu stefnu.

Hv. þm. hélt, að við, sem andmæltum þessu, vissum ekki, hvernig þetta gengi til. Ég hefi oft séð gerðar þessar aðgerðir á lömbum og allskonar skepnum, og einnig gert það sjálfur, svo ég hygg, að ég hafi eins góð skilyrði og hv. þm. til að vita, hve mikill sársauki þessum aðgerðum er samfara. Ég held því hiklaust fram, að þó það megi segja, að sársauki hjá ungviði sé nokkru minni en hjá eldri skepnum, þá sé hann þó alltaf allmikill, og ef á annað borð á að fást við deyfingar í þessu tilfelli, þá á það sannarlega að ná til dýra yfirleitt, en ekki að taka undan sérstakt aldursstig.

Það, sem skín út úr, ræðu hv. þm., er það, að þetta frv. er ekki flutt í mannúðarskyni og þess vegna megi haga þessu eins og hann fer fram á. En ég hefi alltaf litið svo á, að þetta hafi verið gert til þess að taka sársauka frá dýrunum undir þessum aðgerðum, og það markmið næst því aðeins, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.