20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

1. mál, fjárlög 1934

Guðmundur Ólafsson:

Það eru nú svo mikil harðindi í hv. d., að ég verð að leysa hv. 6. landsk. af hólmi. En ég þarf ekki að viðhafa mörg orð frekar en vant er, það er alltaf svo lítið, sem ég bið um. Ein till. er þó á þskj. 733, sem ég er einn flm. að. Hún er við 22. gr. I. Nýr liður. Svo er nú ástatt á Blönduósi, að ríkissjóður á ekki hús yfir póst- og síma, en í 2 ár hefir verið leigt húsnæði fyrir þessar stofnanir í lítilfjörlegu steinhúsi. En núna 14. maí var samningurinn úti, en þó tókst að laga það þannig til bráðabirgða, að ekki þarf fyrst um sinn að flytja símann þaðan. Það liggur í augum uppi, að það er ekki gott að leigja húsnæði undir símann til 2 eða 3 ára, því að kostnaðurinn við tilfærsluna fer langt fram úr hófi. Það er miklu réttara, að ríkið eigi hús undir bæði póst og síma. Nú vill svo vel til, að tilboð hefir fengizt um hús vel fallið til þessa. Verðið er ekki geysihátt, og sá varnagli er þar að auki á ákvæðinu, að verðið skuli ákveðið eftir mati dómkvaddra manna. Núverandi eigandi hefir boðizt til að selja fyrir 28 þús. kr. og ef að kaupunum væri gengið, má búast við, að verðið komi endanlega til að vera heldur fyrir neðan en ofan þá upphæð, sem eigandi tilnefnir. Nú hafa símstjóri og póstafgreiðslumaður fengið úr ríkissjóði 1800 kr. á ári til greiðslu á húsaleigu, og þann beina kostnað hefir ríkissjóður auðvitað borið að öllu leyti. En ef heimilað yrði að kaupa húsið, þá mundi þessi kostnaður verða miklu minni, því að núverandi eigandi, sem hefir verzlun, hefir óskað eftir að fá sjálfur leigt húsnæði fyrir sölubúð og nokkur herbergi, sem síminn má vera án, fyrir 1000 kr. á ári. Af þessu á að vera auðséður hagnaður ríkissjóðs. 6% vextir af hinu framboðna verði, 28 þús. eru á ári rúmar 1600 kr., en 1000+1800 eru þó alltaf 2800. Þó að einhver kostnaður sé við brunabótagjald og slíkt, þá er samt ljóst, að ríkissjóður kemst ekki hjá því að hagnast á því. Auk þess vita allir, að ef flytja þarf til símann á fárra ára fresti, þá er ekki lengi að koma hvert hundraðið. Ég býst ekki við, að hv. dm. hafi neitt við þetta að athuga. Náttúrlega gerir hæstv. stj. ekkert í málinu fyrr en mat dómkvaddra manna á eigninni hefir farið fram. Það er heldur ekki víst, að stóra útborgun þurfi við kaupin, heldur verði hægt að semja um afborganir. Ég þarf þá ekki að fjölyrða frekar um þetta, því að hagurinn af því fyrir ríkið er hverjum manni auðsær. Ég er nú reyndar meðflm. að 2 öðrum brtt., en ég ætla að játa hv. meðflm. mínum það eftir að tala fyrir þeim.