18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (3482)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. þm. Hafnf. var að óska eftir áliti n. um þessa brtt. Ég get sagt hv. þm. það, að n. hefir ekki fjallað neitt um þessa brtt., því hún er fyrst fram komin á þessum fundi. Það verður því hver nm. að segja fyrir sig, hvernig hann lítur á þetta, svo hv. þm. geti fengið að vita hug og vilja n. Sjálfur get ég sagt það, að ég álít, að ef það verður jafnalmennt að gelda lömb eins og einu sinni var, er ég hræddur um; að margir bændur verði heldur tregir til þess að hafa þessa aðferð, bæði vegna kostnaðarins og þeirra óþæginda og tafa, sem ég geri ráð fyrir, að þessu verði samferða. Það er oft mikið að gera á vorin og erfitt að hafa mann við hendina, sem kynni að fara með þessi meðul, hvenær sem lömb eru gelt. Ég hafði nú hinsvegar búizt við því, að geldingaöldin á lömbunum væri um garð gengin, því það hefir um langt skeið verið svo lítið gert að því. (JónJ: Hún er að rísa upp aftur). Já, ég veit, að það er farið að bóla á henni á ný, en þó er mér ekki vel ljóst, hvernig þetta verður í framkvæmdinni.

Þegar litið er á þessa hlið málsins frá bláköldu sjónarmiði þess tilgangs, sem þetta frv. fyrst og fremst hefir, sem sé að firra þessar skepnur sársauka, þá eiga yngri húsdýr auðvitað jafnmikinn rétt á sér og þau eldri og stærri. En ef á að framkvæma þetta í stórum stíl á sauðfé, þá er ég hræddur um, að margir gleymdu að framfylgja þessum fyrirmælum, þegar um lömbin væri að ræða.