09.03.1933
Efri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (3498)

77. mál, virkjun Sogsins

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er gamall kunningi hér í d., því að það hefir legið fyrir 3 síðastl. þingum, og er nú flutt að mestu leyti í sömu mynd og það var í upphaflega. Tilgangur frv. er sá, að greiða fyrir því, að komist í kring virkjun á fallvatni við Sogið til afnota fyrir Reykjavíkurkaupstað og nærsveitirnar. Reykjavíkurbær á þarna hálf vatnsréttindi, og landið hinn helminginn.

Frv. gerir ráð fyrir því, að Reykjavíkurbær beri einn þá erfiðleika, sem eru við framkvæmd á fyrsta stigi virkjunarinnar. Það er föst regla, ef skynsamlega er stofnað til slíkrar virkjunar, að fyrsta stig hennar sé erfiðast fjárhagslega, og hvert hestafl dýrast í byrjuninni. Þetta kemur til af því, að á þessu stigi er enn ekki til sú notkun á afurðum virkjunarinnar, rafmagninu, sem þarf til að rísa undir hinum mikla byrjunarkostnaði. Sú notkun skapast smátt og smátt.

Nú stendur svo vel á, að Reykjavíkurbær hefir í nokkur ár haft rafmagnsstöð. Hér hefir því myndazt mikil og vaxandi þörf eftir raforku. Þetta bæjarfyrirtæki, rafveitan, ber sig ágætlega og er nú svo stæð, að hún getur, hvenær sem bæjarstjórn telur það hentugt, staðið undir vöxtum og afborgunum af lánsfé til fyrstu virkjunarinnar við Sogið. Þar með er sköpuð óvenjulega góð fjárhagsleg aðstaða til þess að koma slíku fyrirtæki af stað. Frv. er byggt á því, að fleiri en Reykjavíkurbúar geti haft not af þessu fyrirtæki og aðrir hlutar suðvesturlandsins geti komið inn í það sem meðeigendur, þegar þeir vilja. En þangað til þeir gerast meðeigendur, er þeim tryggð raforka úr veitunni og má verðið ekki fara fram úr því, sem rafmagnsveita Rvíkur borgar fyrir hana. Með þessu fyrirkomulagi er íbúum héraðanna sköpuð miklu auðveldari aðstaða til þess að nota sér þessi náttúrugæði en ef þau yrðu að standa undir öllum byggingarörðugleikum virkjunarinnar.

Eins og grg. ber með sér, er frv. upphaflega samið af mþn. í raforkumálum, og tilgangurinn var sá, að reynt væri að leysa úr rafmagnsþörf þessara landshluta, sem Sogsvirkjunina geta notað. Í athugunum sínum komst n. að þeirri niðurstöðu, að auk Rvíkur væru nokkur fjölbyggð pláss í suðvesturhluta landsins, sem gætu lagt til sín orkutaugar frá Soginu og notið rafmagnsins þaðan, ef þau í upphafi þyrftu ekki að greiða annað en vexti og afborganir af stofnfé til þess að leggja þessar taugar, auk verðsins á raforkunni sjálfri.

Í þetta frv. eru ekki tekin ákvæði um það, að útvega fé til þessara háspennutauga samtímis fé til virkjunarinnar. Ástæðan var sú, að n. taldi líklegt, að virkjunin sjálf mundi ekki taka minna en 4 ár, og þótti því ekki rétt að festa fé í byggingu þessara háspennutauga á fyrstu árum virkjunarinnar. Eðlilegast er, að þessar taugar séu lagðar þegar virkjuninni er lokið og rafmagnið fyrir hendi.

Ég hefi orðið var við það, að hér í þinginu hefir það komið fram sem mótbára gegn frv., að ekki væri um leið séð fyrir því, að þessi þéttbýlu svæði á suðvesturlandinu, sem nefnd eru í grg., gætu notfært sér orkuna frá Soginu. Við flm. höfum þó lagt frv. óbreytt fram hvað þetta snertir, en tökum fram í grg., að við erum fúsir til samkomulags um það atriði, að ákvæði verði bætt inn í frv., sem tryggi það, að unnt verði samtímis virkjuninni að koma upp háspennulínum til þeirra staða á Suðvesturlandi, sem hafa aðstöðu til þess að nota raforkuna án beinna framlaga úr ríkissjóði.

Næsta stig þessa máls verður svo eflaust það, að athuga, á hvern hátt má færa út taugakerfi þessarar orkustöðvar, svo að öll þau svæði, sem hún getur náð til og ekki geta staðið undir kostnaði af eigin orkustöðvum, geti notfært sér orku Sogsins.

Hvað snertir afstöðu Rvíkurbæjar til þessa máls, þá vil ég taka það fram nú þegar, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að hér í bæ hefir verið talsverður ágreiningur um það, hvort ætti að fullvirkja Elliðaárnar eða ekki, en þar er hægt að bæta við 3000 hestafla stöð. En þó að skoðanir manna séu nokkuð skiptar hvað þetta snertir, þá hefir það engin áhrif á afstöðuna til Sogsvirkjunarinnar. Þessi fyrirhugaða stöð við Elliðaárnar hefir tvennskonar hlutverki að gegna, og það hvorttveggja í sambandi við Sogsvirkjunina. Í fyrsta lagi er þá hægt að taka upp nú þegar það fyrirkomulag á sölu rafmagns, sem fyrirhugað er, þegar Sogsvirkjunin verður komin upp, t. d. er þá hægt að láta í té ódýrt rafmagn til iðnaðar og annarar notkunar, en það mundi auka eftirspurnina að miklum mun. Sú stækkun, sem með þessu yrði á rafmagnsveitu Rvíkur, yrði nóg til þess, að ekki þyrfti að bíða í 4 ár, eða þangað til Sogsvirkjunin væri fullbúin, til þess að geta sett rafmagnsverðið í bænum niður og auka notkunina. Á næstu fjórum árum þarf ekki að gera ráð fyrir meiri aukningu á raforkunotkun en svo, að Elliðaárstöðvarnar gætu fullnægt henni, ef árnar yrðu fullvirkjaðar.

En eftir að virkjun Sogsins er komin fram, á stöðin við Elliðaárnar að verða varastöð Sogsstöðvarinnar, og spara jafnháa hestaflatölu í varavélum austur við Sog og hún hefir.

Ef Elliðaárnar verða fullvirkjaðar, verður þar 7500 hestafla stöð. Það verður svipað einni vélasamstæðu við Sogið, og má þá hafa þar aðeins eina vélasamstæðu í stað tveggja, sem annars hefðu orðið að vera þar. — Ég tek þetta svona nákvæmlega fram hér, til þess að fyrirbyggja þann misskilning, að með því að berjast fyrir fullvirkjun Elliðaánna sé Sogsvirkjuninni að einhverju leyti skotið á frest.

Eins og auðvelt er að sjá, er þetta frv. ekki samið með hagsmuni Rvíkur fyrir augum fyrst og fremst, heldur aðallega með hagsmuni hinna byggðanna, sem með þessu eru boðin þau kostakjör, sem ekki hefði verið hægt að fá með öðru móti en að komast undir handarjaðarinn á Rvíkurbæ.

Ég skal svo að síðustu minna á, að samkv. útreikningi mþn. í rafmagnsmálum, sem áður hefir verið frá skýrt hér á þingi, þá eru háspennutaugar þær, sem ætla má, að geti borið sig án beins framlags af opinberu fé, frá Soginu til Eyrarbakka og Stokkseyrar og austur til Vestmannaeyja, ennfremur frá Soginu til Rvíkur, til Akraness og til Hafnarfjarðar og til plássanna á Reykjanesskaganum. Það eru því háspennulínur til þessara staða, sem átt er við í grg., sem við bjóðum til samkomulags um að samtímis verði séð fyrir fjárútvegun til þeirra.

En þessar línur liggja þannig um byggðir þessara landshluta, að auk sjálfra hinna þéttbyggðu plássa er mikið af sveitabýlum, sem liggja þannig við, að þau koma af sjálfu sér í samband við þessar háspennutaugar, og loks liggja þessar háspennutaugar þannig um þetta landsvæði, að það eru ekki nema tiltölulega stuttar álmur, sem þarf að leggja út frá þeim og til þeirra, sem rafmagnið nota. Það yrðu ekki nema tiltölulega stuttir spottar móts við það, ef leggja þyrfti háspennutaugar beinlínis frá sjálfu orkuverinu við Sogið.

Með þessu máli er þannig lagður grundvöllur að því að geta leyst þetta spursmál um raforkuveitu til almenningsþarfa fyrir allan suðvesturhluta landsins. Ég vonast eftir, að nú fari að nálgast sá tími, að Alþingi telji tímabært að taka þannig föstum tökum á þessu máli, að það geti farið að leiða til framkvæmdar á þessu sviði.

Ég skal svo leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til n. Það getur verið álitamál, hvort það eigi að fara til fjhn. eða iðnn. Það hefir áður verið fyrir fjhn. og er náttúrlega talsvert mikið fjárhagsmál, og hv. meðflm. minn óskar heldur eftir, að frv. verði vísað til fjhn., og er það því okkar till.