20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

1. mál, fjárlög 1934

Guðrún Lárusdóttir:

Það er út af nokkrum ummælum hv. 2. landsk. að ég kveð mér hljóðs. Hann virtist búa yfir ugg og ótta um, að styrkur sá, sem með brtt. minni er ætlaður námsmönnum frá ríki, sveitum eða kaupstöðum, verði talinn sveitastyrkur til þeirra, og mundi svipta þá mannréttindum. Ég get sagt hv. þm. það, að ég mundi aldrei bera fram slíka till., að menn létu af hendi jafndýrmætan rétt og kosningaréttinn fyrir fáeinar krónur. Í þessu sambandi vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að ekki hefir það heyrzt, að styrkur sá, sem úthlutað er til atvinnubóta, sé talinn sveitarstyrkur. Hinsvegar hefi ég alltaf skilið hann svo, að hann sé ætlaður einmitt til þess að bjarga mönnum frá að þurfa að þiggja sveitarstyrk. Þar að auki get ég frætt hv. þm. á því, að bæjarstjórnir gætu áætlað á fjárhagsáætlun sinni vissa upphæð í þessu skyni. Það eru margir styrkir, sem þar er úthlutað, án þess að það komi nærri sveitarstyrk. Þetta vona ég að nægi til þess að sýna hv. 2. landsk., að honum er öldungis óhætt að samþ. brtt. mínar. Ég held, að það gæti orðið talsverður stuðningur fyrir bændur landsins og tryggt þeim vinnukraft í framtíðinni, ef ungir menn úr kaupstöðum færu að fá áhuga fyrir sveitavinnu og sveitalífi, en það tel ég líkindi til, að nám við búnaðarskóla mundi gera að verkum fremur öðru. Ég vona, að hv. 2. landsk. gefi brtt. minni atkv. sitt og veiti ungum efnismönnum þar með þann stuðning, sem ef til vill verður til þess að leggja grundvöll að gæfu þeirra, og a. m. k. til þess að firra þá sárasta böli atvinnuleysisins.

Ég get ekki annað hugsað, en að hv. 2. landsk. hafi sagt þetta af löngun til að hafa á móti þessari till. minni, fremur en að hann hafi meint þetta, sem hann sagði. Ef til vill voru orð hans sprottin af einhverjum misskilningi hjá hv. þm. eða einskonar hjartveiki, en ekki af löngun til að snúa út úr fyrir mér. Ég vænti þess engu að síður, að hv. 2. landsk. snúi sér frá villu síns vegar og greiði till. minni atkv., þegar þar að kemur, enda væri það í fullu samræmi við þá stefnu, sem hv. þm. telur sig fylgja, og fyrst og fremst á að koma fram í því að láta sér annt um að fylgja fram til sigurs málefni lítilmagnans.