09.03.1933
Efri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2235 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

77. mál, virkjun Sogsins

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá atriði í ræðu hv. 2. landsk., sem ég finn ástæðu til að koma að. Ég mun ekki fara að þessu sinni út í það, sem hann var að tala um ágreining, sem orðið hefði í bænum um það, hvort fullvirkja skyldi Sogið. Ég skoða það sem innanbæjarmál að öðru leyti en því, sem ég í framsöguræðu minni gerði grein fyrir, enda hefir það engin áhrif á afstöðu manna til virkjunar Sogsins.

Ég get í rauninni alveg tekið undir það, sem hv. 2. landsk. sagði um það, að eiginlega sé ekki rétt á þessu stigi málsins að staðbinda þessa lagaheimild við ákveðið fallvatn í Soginu. Ég skal til frekari upplýsingar þar um aðeins geta þess, að fyrir aukafund, sem bæjarstj. heldur í kvöld út af þessu máli, kemur till., sem ég hefi borið fram í bæjarráðinu og þar hefir hlotið samþykki, um það, að rafmagnsveitan útvegi nú fullnaðaráætlun um virkjun við Sog, sem mun eins og nú er komið verða byggð á óhlutdrægum samanburði á öllum virkjunarmöguleikum, sem þar eru fyrir hendi. Við flm. fundum samt ekki ástæðu til þess að breyta þessu atriði við flutning málsins, en við álitum, að þetta gæti komið til athugunar í n., að rýmka orðalag frv. þannig, að heimildin verði jafnt fyrir hendi, hvort sem taka á þetta fallvatn eða eitthvað af því neðra.

Þá vil ég leiðrétta það, sem hann hafði eftir mér, að ég hefði látið í ljós á bæjarstjórnarfundi, að ég byggist ekki við, að hægt væri að virkja Sogið fyrr en eftir 9—10 ár. Þetta er misskilningur, sem byggist sjálfsagt á því, að bæjarstj. gerði ráð fyrir því, að eftir 8 ár gæti Rvíkurbær einn virkjað Sogið, án þess að leita ábyrgðar ríkisins. Það er með því að halda ákveðinni stefnu í þessu máli, sem sé að fullvirkja Elliðaárnar, annaðhvort fyrir tekjuafgang smámsaman eða þegar í stað með því að taka dálítið lán, sem svo endurgreiddist á þessu tímabili. Þá yrði lokið að greiða þær veðskuldir, sem hvílt hafa á þessu fyrirtæki, rafmagnsveitu Rvíkur. Stendur þá eftir óveðbundin eign, sem kostaði upphaflega 9 millj. kr., en er nú náttúrlega búið að skrifa mikið niður bæði vegna verðfalls á upphaflega verkinu, sem unnið var fyrir 20 árum, og svo eðlilegrar fyrningar, en þegar reksturinn er í svo miklum blóma, þá yrði auðvelt fyrir það fyrirtæki að fá lán með 1. veðrétti í sér sjálfu, sem þarf til þess að virkja Sogið. Það var það, sem átt var við, þegar sagt var, að Rvík væri ekki í sjálfu sér svo nauðulega stödd, að hún þyrfti um allan aldur að vera komin upp á ríkið í þessu máli og gæti ekki framkvæmt þessa virkjun nema með aðstoð ríkisins.

Hv. 2. landsk. má ekki skilja þetta á þann veg, að ég eigi við með þessu, að virkjun Sogsins eigi ekki að framkvæma fyrr. Frv. það, sem hér liggur fyrir, ber það einmitt með sér, að við flm. ætlumst til, að byrjað verði á verklegum framkvæmdum virkjunarinnar þegar á þessu ári. Það stendur beinlínis í 3. gr. frv. Því er ekki til að dreifa, að við séum að hugsa um nokkurn drátt á málinu. Hinsvegar hefi ég álitið alveg rétt, að þetta kæmi fram og yrði gerð grein fyrir, hvers Rvík á kost í þessu máli, ef henni verður neitað um ábyrgð ríkisins, sem þó er áhættulaust að veita eins og nú er ástatt. En rafveitan er ekki þannig ennþá, að hún geti sett það veð, sem þyrfti til að fá slíkt lán án ríkisábyrgðar.

Ég held, að það sé ekki fleira úr ræðu hv. 2. landsk., sem ég þarf að svara. Fyrir mitt leyti finn ég eiginlega ekki neinn skoðanamun á milli okkar um þetta mál, nema ef væri í einhverjum smáatriðum eða algerðum aukaatriðum. Þetta, sem verið er að reyna að pústa upp hér í bænum um skoðanamun sjálfstæðis- og jafnaðarmanna í bæjarstj., er meira gert fyrir kjósendur en vegna ágreinings um málið.