09.03.1933
Efri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (3502)

77. mál, virkjun Sogsins

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Það eru aðeins fáein orð, sem ég vildi láta falla um frv. þetta nú við 1. umr., bæði frá minni og Hafnfirðinga hálfu. — Eins og ég drap á í umr., sem urðu hér í d. 1931 um þetta mál, og eins og hv. 2. landsk. gat um nú, þá er þessi virkjun miklu meira atriði fyrir okkur Hafnfirðinga og aðra hér í kringum Rvík heldur en nokkurntíma Reykvíkinga. Það gleður mig stórlega, að mér finnst meiri horfur á framgangi málsins nú en áður. Er það nú betur upplýst en fyrr, og er það ekki sízt vegna þeirra umr., sem fóru fram á bæjarstjórnarfundi hér fyrir skömmu. Auk þess leggjast nú sjálfstæðis- og jafnaðarmenn á eitt án þess að karpa um, hver eigi upptök málsins eða hverjir hafi hindrað framkvæmdirnar. Ég vona líka, að nægilega margir úr Framsfl. sýni þeim, sem hlunninda þessara eiga að njóta, þann velvilja að ljá málinu fylgi, bæði hér og í Nd., og láti nú ekkert verða til þess að spilla framkvæmd virkjunarinnar, svo að hún megi verða þinginu til sóma og til blessunar þeim, sem njóta eiga.