03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (3509)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég vil láta í ljós óánægju mína yfir því tiltæki hv. meiri hl. fjhn. að fara að lýsa afstöðu minni í nál. sínu. Ég hefi engan þátt átt í samningu þessa nál. hv. meiri hl., sem ekki er til orðið fyrr en eftir klofning n. Ég held, að þetta sé algerlega á móti þingvenjum. Enda er það, sem sagt er í þessu nál. um afstöðu mína, alls ekki nógu nákvæmt til þess, að þeir, er það sjá, fái rétta hugmynd um afstöðu mína til þessa máls. Ég vil benda á það, að það er alls ekki rétt að gera öðrum nefndarhlutum upp skoðanir, þar sem gera má ráð fyrir, að hver nefndarhluti setji fram sitt eigið nál.

Ég legg til, að frv. þetta verði samþ. með þeim breyt., sem hv. 2. landsk. hefir borið fram á þskj. 242, sem n. hafði til athugunar áður en hún lauk störfum sínum. Þær brtt. fela það eitt í sér, að látið sé óbundið í frv., hvert af fallvötnunum í Soginu skuli miða ábyrgðarheimildina við.

Ég vil þá leyfa mér að rifja upp í helztu dráttunum undirbúning þessa máls. Byrjun þess undirbúnings mun vera sú, að árið 1928 lét rafmagnsveita Rvíkur gera bráðabirgðayfirlit yfir virkjun allra fallvatna í Soginu og samanburð milli hinna einstöku fallvatna. Samanburður þessi tók yfir 12—15 virkjunartilhaganir, bæði hvað snerti byrjun virkjunar og framhald. Þar á meðal var auðvitað tekin til athugunar virkjun þess fallvatns, sem brtt. meiri hl. miðast við. Niðurstaðan af þessum athugunum var sú, að hvort sem litið væri á byrjun eða framhald virkjunarinnar, væri hagkvæmast að taka það fallvatn, sem nefnt er Efra-Sogið. Samkv. þeirri niðurstöðu var þetta frv. flutt á þinginu, og enn sem komið er hefir það verið einskorðað við þetta fallvatn.

Síðan hefir undirbúningnum verið haldið áfram. Rafmagnsveitan lét fullgera þessa uppástungu um virkjun Sogsins. Framkvæmd þessa verks var boðin út 1930, og þá þannig, að óskað var eftir tilboði í verkið, en jafnframt tilboði um fjárútvegun til verksins. En þetta reyndist ekki góð leið. Aðeins tvö tilboð komu, og hvorugt þeirra var svo fullkomið, sem ætlazt hafði verið til. Kostnaðurinn var meiri en rafmagnsveitan hafði búizt við, hvort sem það stafaði af tilhögun virkjunarinnar eða sambandi tilboðsins um verkið og fjárútvegunarkvaðarinnar. En við athugun á tilhögun verksins sýndist mér möguleiki á því, að fá hagkvæmari tilhögun á virkjun þessa sama fallvatns. Ég átti hlutdeild í því, að rafmagnsveitunni var send lausleg uppástunga að annari tilhögun virkjunarinnár ásamt kostnaðaráætlun, sem sýndi, að ef ekki þætti að öðru leyti annmarkar á þeirri tilhögun, yrði hún mun ódýrari. Síðar kom fram enn ein uppástunga um að taka annan hluta fallvatnsins, einn af þeim hlutum, sem rafmagnsveitan lét gera bráðabirgðaáætlun um 1928. Ásamt þessari uppástungu var till. um að byrja virkjun í smáum stíl, of smáum til þess að fullnægja þörfum rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ennfremur virtist þessi síðasta uppástunga allmikið tengd einkahagsmunum. Hér hafði verið stofnað félag, með innlendu og erlendu fjármagni, sem ætlaði að reyna að fá sérleyfi á þessari virkjun og selja síðan rafmagnsveitu Rvíkur og öðrum í nágrenninu rafmagn.

Þegar þetta mál kom fyrir bæjarstj. Rvíkur, þá vísaði hún eindregið frá sér þeirri hugmynd, að kaupa þyrfti raforkuna úr Soginu af einkafyrirtæki. En að öðru leyti sýndist bæjarstj., úr því sem nú var komið, að fyrir lágu mismunandi áætlanir um virkjun Efra-Sogsins, og einnig lausleg uppástunga um virkjun Neðra-Sogsins, að ástæða væri til þess að taka málið til algerlega nýrrar yfirvegunar, bæði hvað snerti stærð virkjunarinnar og tilhögun. Bæjarstj. ákvað að ráða til sín erlenda sérfræðinga, sem nytu slíks álits, að tryggt væri, að till. þeirra yrðu teknar gildar af hverjum þeim banka eða annari stofnun, sem leitað yrði til með fjáröflun handa fyrirtækinu. Til þessa starfa hafa verið ráðnir tveir norskir verkfræðingar, sem standa hvor um sig mjög framarlega á sínu sviði. Annar er sérfræðingur í rafmagnsverkfræði, en hinn er sérfræðingur í vatnavirkjuninni. Þessir menn koma hingað innan hálfs mánaðar hér frá til að byrja starf sitt. Það má auðvitað mæla gegn þessu frv. á þeim grundvelli, að enn vanti lokaákvörðun um tilhögun mannvirkisins og þar af leiðandi kostnað, og menn viti því ekki, hvað þurfi að fara fram á ábyrgðarheimild fyrir háu láni. En ég sé ekki, að þetta ætti að gera það nokkuð varhugaverðara að veita stj. þessa ábyrgðarheimild, sem farið er fram á í frv., og miðuð er við þá upphæð, sem alltaf hefir verið talað um, nefnil. 7 millj. kr. Ég vænti þess, að sú raunverulega upphæð verði minni, þegar til á að taka, og skaðar þá ekkert, þó ábyrgðarheimildin miði við nokkru hærri upphæð en þörf er á. Og þó að tilteknar séu 7 millj. kr., þá er rafmagnsveita Rvíkur ábyggilega fær um að standa undir því láni. Þar sem hin endanlega rannsókn stendur nú fyrir dyrum, tel ég rétta þá hugsun, sem felst í brtt. hv. 2. landsk., að einskorða ekki ábyrgðarheimildina við neitt einstakt fallvatn í Soginu, eða ákveða nánar tilhögun mannvirkisins. Og ég vil leiða athygli manna að því, að eins og þetta frv. liggur nú fyrir, með brtt. á þskj. 242, felur það í sér fyrirgreiðslu á fyrirtæki, sem snertir ekki aðeins Rvík, heldur allan suðvesturhluta landsins, allt frá Vestmannaeyjum til Snæfellsness. Í frv. eru ákvæði, sem heimila héruðunum á þessu svæði að koma inn sem meðeigendur í fyrirtækinu, hvenær sem þau telja sér hentugast. Þetta eru svo mikil hlunnindi fyrir þennan landshluta, að mér er óskiljanleg sú afstaða meiri hl. að vilja kasta öllum þessum hlunnindum burt úr frv. og einskorða aðgerðir löggjafarvaldsins í þessu máli við Rvík eina. Ég gæti skilið, að slík uppástunga gæti komið frá mönnum, sem hugsuðu mjög einhliða um hag Rvíkur einnar. Ég verð að fara nokkru nánar út í þetta atriði, því að einmitt þess vegna finnst mér brtt. meiri hl. á þskj. 445 algerlega óaðgengilegar. Þetta mál var fyrst undirbúið af mþn. í raforkumálum, sem stj. skipaði á sínum tíma, og vann sú n. aðallega að því á árunum 1929—'30. Sú n. var engan veginn skipuð með hagsmuni Rvíkur fyrir augum, heldur átti hún að gera uppástungur um það, hvernig hægt væri að koma fyrir raforkuveitum til almenningsþarfa utan kaupstaða. Um sama leyti var rafmagnsveita Rvíkur að undirbúa virkjun Sogsins fyrir Reykjavík eina. Mþn. komst að þeirri niðurstöðu, að bezta úrlausnin á raforkumálum suðvesturhluta landsins væri sú, ef hægt væri að komast í samlag við Rvík um orkuframleiðslu úr Soginu. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangurinn af samstarfi mþn. og fulltrúa frá rafmagnsveitu Rvíkur. Mþn.mennirnir komu þar fram sem forsvarsmenn héraðanna, en fulltrúarnir frá rafmagnsveitunni komu fram sem forsvarsmenn reykvískra hagsmuna. Þarna varð samkomulag um það, að heppilegast væri að veita raforku út til þessa stóra landshluta frá Soginu, hafa þar svo stóra stöð, að hún nægði bæði Rvík og þessum víðlendu héruðum. Og samkv. útreikningum verkfræðinga þarf framleiðsluspenna raforkunnar við Sogið að vera ekki minna en 60000 volt til þess að ná til Vestmannaeyja og álíka langt vestur.

Mþn. var búin að ljúka við uppástungur um orkuveitu frá Soginu um Árnes- og Rangárvallasýslur, Vestmannaeyjar, Reykjanes, Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu að nokkru leyti. Hvað snertir raforkuveitu lengra vestur var n. ekki búin að gera neinar uppástungur um þær, þegar hún lognaðist út af sökum áhugaleysis þáv. stj.

Ég tek þetta fram til þess að gera mönnum ljóst, að þegar meiri hl. n. vill einskorða sig við síðustu uppástunguna, sem fram hefir komið um virkjun Sogsins, þá er þar með strikað yfir allan þann undirbúning, sem gerður hefir verið í þessu máli, nema hvað Rvík snertir. Þó að gerð væri þessi bráðabirgðavirkjun hjá Efri-Brú, með 3 vélasamstæðum með 3000 hestöflum, yrði það aðeins nóg fyrir Rvík í nokkur ár. Og sé spennan ekki höfð meiri en 35000 volt, þá er útilokað, að aðrir geti haft gagn af þessari virkjun en Rvík. Hvað snertir tekniska hlið málsins, fela till. meiri hl. þannig í sér, að hætt sé alveg við þá hugsun, að veita raforku frá Sogsstöðinni yfir þann mikla landshluta, sem áður var tilætlunin. Og það má segja, að með till. meiri hl. séu strikuð út úr frv. öll þau ákvæði, sem tryggðu héruðunum rétt til þess að koma inn í fyrirtækið sem meðeigendur. Af hálfu meiri hl. er gengið að því með fyllsta samræmi að gera frv. þetta að engu öðru en aðstoð — og ef til vill óhentugri aðstoð — til rafmagnsveitu Rvíkur til þess að auka raforku Rvíkur einnar. Ég skil ekki í því, að hv. d. láti sér svo lítið annt um þetta stórmál, að hún fallist á till. hv. meiri hl. n.

Ég get þess vegna ekki annað en mælt á móti því, að brtt. meiri hl. n. á þskj. 445 verði samþ. Það eina rétta er að halda málinu á þeirri braut, sem það hefir verið á, því að það er eitthvert það stærsta framfara- og framtíðarmál fyrir þá stóru landshluta, sem hér um ræðir, sem sé allan suðvesturhluta landsins. Og það er gert með því að játa gr. frv. standa eins og þær eru með brtt. á þskj. 242. Auðvitað mætti svo ræða um breyt. á einstökum gr. frv. eða viðauka við það, sem miðaði þá til þess að tryggja hinum héruðunum aðstöðu til að geta notað sér þetta. Ég er við því búinn, hvenær sem fulltrúar þessara héraða kunna eftir því að óska, að styðja skynsamlegar till. því til tryggingar, að raftaugarnar geti teygt sig frá Sogsstöðinni og út um þessi héruð.