20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

1. mál, fjárlög 1934

Jakob Möller:

Ég þarf að gera grein fyrir hinni skrifl. brtt. frá mér, sem verið var að leita afbrigða um. Á þessari till. stendur svo, að mér var á síðustu stundu afhent bréf til iðnn. d. viðvíkjandi máli, sem legið hefir fyrir fjvn., en frsm. n. mun ekki hafa gefizt tilefni til að geta um, og vil ég nú ljá mína aðstoð til þess, að þetta geti orðið og málið geti komið hér til umr. og atkvgr. Þetta bréf er svo hljóðandi :

Reykjavík, 20. maí 1933.

Hinn 21. apríl og 11. maí þ. á. hefi ég bréflega snúið mér til efri deildar með beiðni um 4000 kr. styrk á fjárlögum 1934 til þess að auka vélarstofn prjónaverksmiðju minnar, svo að hún geti framleitt prjónles, sem samkeppnisfært sé bæði á erlendum og innlendum markaði. Hefir það þá sérstaklega vakað fyrir mér að breyta íslenzkri ull, sem í heild sinni reynist torseljanleg, og þá sérstaklega hinar lakari tegundir, í hæfa markaðsvöru. Er sá styrkur, sem ég fer fram á, ekki nema hluti andvirði véla, sem þarf til þess að gera megi íslenzkt prjónles jafnblæfallegt og samskonar erlenda vöru, en það er öllum ljóst, að útlit vörunnar skiptir miklu máli um söluhæfi hennar. Ég get þess, að ég hefi bæði innlendan og erlendan markað fyrir slíka vöru, sé hún fallega tilhöfð og að blæ svipuð sömu erlendu vöru, og er sennilega von um, að sala á henni myndi geta aukizt bæði hér og þar.

Fjárveitinganefnd efri deildar hefir ekki sinnt þessari beiðni minni, og sný ég mér því nú á elleftu stundu til háttvirtrar iðnaðarnefndar með beiðni um, að hún taki að sér málið, enda þótt í eindaga sé komið. Vegna naumleika tímans verð ég að láta mér nægja að vísa til ofangreindra bréfa minna til fjárveitinganefndar.

Ég treysti mér vegna áhættunnar ekki til þess að kaupa þessi verkfæri af eigin rammleik, og neyðist ég því, ef mér ekki verður veittur þessi styrkur, til þess að taka upp samskonar vinnuhætti eins og aðrar samskonar verksmiðjur hér á landi gera, þótt mér sé það mjög um geð. Verksmiðja mín hefir hingað til verið eina prjónlesverksmiðja landsins, sem eingöngu hefir unnið úr íslenzku efni, en aðrar hafa unnið úr erlendu efni. Það efni er hvergi nærri eins blæfegrunarþurfi sem íslenzka efnið, og má, ef unnið er úr því, komast af án ofangreindra véla. Ég hefi haft fullan vilja á því, að reyna að gera óhentugt íslenzkt efni að vel seljanlegri vöru. En ef mér bregzt sú von, að hinu opinbera þyki þessi viðleitni mín nokkru skipta, verð ég auðvitað að snúa mér að erlendu efni til þess að vera samkeppnisfær.

Ég treysti háttvirtri nefnd til þess að gera hið bezta í málinu.

Virðingarfyllst.

Bogi A. J. Þórðarson.

Eins og sjá má af þessu bréfi, er hér um að ræða tilraun til að fá markað fyrir framleiðsluvöru íslenzkra bænda, sem erfitt er að fá með öðrum hætti, en bréfritarinn telur víst, að meiri markaður fáist fyrir, ef svo er unnið úr ullinni eins og í bréfinu segir. Ég hefi leyft mér að bera þessa till. fram sem nm. í iðnn., þótt mér hafi að vísu ekki gefizt tækifæri til að bera mig saman við meðnm. mína, en ég tel víst, að þeir muni vera mér sammála um það, að rétt sé, að þetta mál geti komið til afskipta d. við atkvgr., enda vænti ég þess, að hv. frsm. geri grein fyrir því, hvernig fjvn. lítur á málið, því að hún mun hafa athugað það nokkuð.