20.02.1933
Efri deild: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3536)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Í grg. þessa frv. hefi ég tekið fram aðalrökin fyrir því, að rétt sé að afnema með öllu útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum. Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta efni. Það er öllum kunnugt, að verð á útflutningsvörum landbúnaðarins er orðið svo lágt, að til stórra vandræða horfir, og hafa af þessum ástæðum meira að segja komið fram kröfur um útflutningsverðlaun til handa þeim bændum, sem flytja vörur sínar á erlendan markað. Lítur enda út fyrir, að þessar vörur séu ekki heppilegur gjaldstofn á þennan hátt. - Ég skal ekki fara út í það, hvort komið geti til mála að afnema útflutningsgjald af öðrum vörum, en að því er sjávarafurðirnar snertir verður ekki sagt, að um þær gildi sú sama augnabliksnauðsyn sem um afurðir landbúnaðarins, því að þær eru nú í allháu verði.

Ef frv. þetta verður samþ., verður nauðsynlegt að gera ýmsar ráðstafanir til að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem af þessu leiðir, en ég sá þó ekki ástæðu til að gera neinar till. í þessa átt í sambandi við niðurfelling l.

Að lokum vil ég aðeins leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til fjhn. að lokinni umr.