29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (3538)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Í n. hefir ekki orðið mikill meiningarmunur um þetta mál. Hv. 1. landsk. vill samþ. það með vissum skilyrðum, en meiri hl. vill samþ. það óbreytt. Útflutningsgjaldið nemur nú 40-50 þús. kr. á ári, eða álíka upphæð og greidd er til ræktunarsjóðs. Ræktunarsjóður mun nú vera um 800 þús. kr., og vantar því um 200 þús. upp í tillög ríkissjóðs til að hann nái milljón. Nú er ekki aðskilinn fjárhagur milli landbúnaðar og sjávarútvegs, og sé ég því ekki ástæðu til að breyta ákvæðum laga frá 1925 um framlag til sjóðsins, þegar þess er gætt, að næstum allur markaður fyrir sjávarafurðir er erlendis, en meira en helmingur af landbúnaðarafurðum hefir sinn markað innanlands, og að sá markaður er bæði betri og ábyggilegri en erlendi markaðurinn. Því hlýtur öll sanngirni og skynsemi að mæla á móti að nota þá vöru landsmanna sem skattstofn, sem langverst er sett um markað, og er jafnvel ástæða til að ætla, að hættulegt geti verið að hafa þennan skatt, að það geti orðið til að spilla fyrir samningum við aðrar þjóðir að nota þessar vörur sem grundvöll undir skatti. Það liggur því í augum uppi, að þessi skattur getur ekki staðizt lengur. Hitt er annað mál, hvort menn vilja fallast á brtt. hv. 1. landsk.