20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

1. mál, fjárlög 1934

Halldór Steinsson:

Ég á hér litla brtt. á þskj. 733, XXXVI, við 17. gr. 19, þess efnis, að veittar verði 300 kr. til sjúkrasjóðs kvenfélagsins á Hellusandi. Undanfarin ár hefir þetta kvenfélag haldið uppi hjúkrunarstarfsemi á þessum stað með styrk úr ríkissjóði, og þarna hagar svo til, að nauðsynlegt er, að slíkri starfsemi sé haldið þar uppi. Er þetta stór kaupstaður, íbúarnir á fimmta hundrað, en læknislaust á staðnum, og þannig mikil þörf þar á hjúkrunarkonu, sem geti leiðbeint í sjúkdómstilfellum. Kvenfélagið er hinsvegar ekki svo statt, að það geti haldið þessari starfsemi uppi án styrks annarsstaðar frá, en styrks hefir það áður notið aðeins úr ríkissjóði, og ef hann leggst niður nú, er ekki annað sýnilegt en að starfsemin verði að hætta. Ég treysti því þess vegna, að hv. d. veiti þennan nauðsynlega styrk, til þess að halda uppi þessari nauðsynlegu starfsemi.