29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3542)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að bera brigður á það, að landbúnaðurinn þurfi nú aðstoðar með; ég veit, að sjá atvinnuvegur er nú í mikilli þröng staddur, enda geri ég ekki ráð fyrir því, að þetta þing líði svo, að eitthvað talsvert verði ekki gert í þá átt að hjálpa bændum. Hitt verð ég að segja, að þó þetta frv. sé fram borið í góðum tilgangi, þá sé það nú í raun og veru meira til að sýnast en vera. Það, sem hér ræðir um, er svo mikið smælki, svo óverulegt atriði, að ekki er hægt að hugsa sér, að það sé nokkur hjálp fyrir bændur. Það er kunnugt, að meiri hl. af öllu kjöti, sem út er flutt, er flutt fryst til Englands. Það mun láta nærri, að á síðasta ári hafi kjötverðið verið 50 aurar pr. kg. Meðalþyngd á hverju lambi er nálægt 12 kg., eða 6 kr. virði lambskroppurinn. Ef nú útflutningsgjaldið yrði fellt niður, þá mundi það nema verðuppbót 9 eða í hæsta lagi 10 au. á hvern skrokk. Sá bóndi, sem hefði 100 dilka til innleggs, fengi þá 9-10 kr. meira fyrir innlegg sitt, ef útflutningsgjaldið yrði fellt niður. Ég segi það eitt, að það stendur nokkuð í járnum fyrir þeim bónda, sem þetta getur orðið til björgunar. Á hitt er aftur að líta, þó þetta muni hvern bónda lítið, þá er þetta talsverð tekjurýrnun fyrir ríkissjóðinn, og ef sú tekjurýrnun á að ganga út yfir ræktunarsjóð, sem gert er ráð fyrir í 1. frá 29. maí 1925, að fái samtals 1 millj. kr. af útflutningsgjaldinu, þá verð ég að telja það vafasama ráðstöfun. Eins og kunnugt er, þá hafa verið gefin út jarðræktarbréf af sjóðnum, og trygging fyrir þessum bréfum er einmitt þessi eina milljón, sem sjóðurinn á að fá af útflutningsgjaldinu, og þó ég telji það að vísu fullljóst, að jarðræktarbréfin eru vel tryggð og ef til vill betur tryggð en önnur verðbréf hér á landi, jafnvel þó ekki kæmi til sjóðsins nema þær 800 þús. kr., er hann hefir þegar fengið af útflutningsgjaldinu, þá tel ég það alveg vafamál, að ríkissjóður geti verið að hringla með það, sem treyst hefir verið á í þessu efni, að ræktunarsjóður fengi samtals 1 millj. kr. Mætti ætla, að eigendur jarðræktarbréfanna teldu sig gabbaða og að það gæti haft áhrif á sölu þeirra. Ef þær yrðu afleiðingarnar, er sýnt, að ókostir frv. yrðu meiri en kostirnir.

Hitt verð ég og að segja, ef frv. verður samþ. óbreytt og ræktunarsjóður heldur sínum tekjum, þá er það ekki sanngjarnt að láta sjávarútveginn einan gefa þessar tekjur ræktunarsjóðs, sem ómótmælanlega aðeins koma þeim til hagsbóta, sem landbúnað stunda.

Þegar gætt er að öllu þessu, er það auðséð, að vinningur af þessu frv. er mjög lítill og ekki líklegur til að koma þeim að gagni, sem til er ætlazt, en hinsvegar nokkurnveginn séð, að eitthvert tjón gæti hlotizt af samþykkt þess. Þykir mér réttast að greiða atkv. móti frv. þegar við þessa umr.