29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3545)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég álít, að því megi tæplega vera ómótmælt, sem hv. 5. landsk. sagði, þegar hann var að bera saman landbúnaðinn og sjávarútveginn, að landbúnaðurinn stæði undir 50 millj. kr. höfuðstól, þar sem sjávarútvegurinn stæði ekki undir neinu, eftir því sem hv. þm. helzt virtist halda fram. Hvort rétt er eða rangt skýrt frá um höfuðstól landbúnaðarins, skal ég láta ósagt, en hitt er víst, að höfuðstóll sjávarútvegsins er margfalt meiri. Þó það sé rétt, að fiskurinn fáist ókeypis úr djúpinu, þá vantar ákaflega mikið á það, að ókeypis sé sótt á miðin. Það kann nú að vera, að afkoma sjávarútvegsins sé að þessu sinni eitthvað skárri en landbúnaðarins, en ég er ekki viss um, að þar muni eins miklu og hv. flm. heldur fram, og það liggur a. m. k. í augum uppi, að þegar um framtíðarskipulag er að ræða, dugir ekki að miða við aðeins eitt ár, þegar öðrum atvinnuveginum gengur óvenjulega illa. Hin almenna sanngirniskrafa hlýtur því að verða sú, að útflutningsgjaldið falli niður jafnt í báðum tilfellum. Það er ómögulegt með neinum rökum að halda því fram, að útflutningsgjald á landbúnaðarafurðum sé ósanngjarnt, en útflutningsgjald á sjávarafurðum sanngjarnt.