24.03.1933
Efri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í C-deild Alþingistíðinda. (3551)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég ætla að óska eftir, að málið verði tekið út af dagskrá, til að hv. þdm. geti fengið tíma til þess að athuga þskj. 220. N. hefir ekki komið fram með aths. og engin till. verið gerð í málinu. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að í rauninni tel ég mjög æskilegt, að létt verði útflutningsgjaldi af sjávarútveginum, ef hægt er, þó ekki væri farið fram á meira en að burt falli sérstök hækkun á útflutningsgjaldi (l. 1925 eru aðallega í sambandi við stofnun ræktunarsjóðs og ákveðið, að nokkur hluti af þessari gjaldhækkun rynni til rekstrar strandvarnarskipa). Frv. felur ekki aðeins í sér lækkun á útflutningsgjaldi, heldur að það verði með öllu fellt niður. Ég tek nú þá afstöðu til þessa, að ríkissjóður verði ekki fyrir halla af niðurfellingunni, og bar því fram brtt. þegar við 2. umr. En meiri hl. hv. d. leit svo á, að ekki væri þörf á að sýna ríkissjóði neina hlífð, heldur mætti hann við því að missa þessar tekjur; er þetta í samræmi við afstöðu hv. d. til ívilnunar á gjaldi sjávarútvegsins. Ég tel rétt, að frv. fari til Nd. í þeirri mynd, að báðum atvinnugreinum verði veitt ívilnun, þótt farið verði lengra að því er landbúnaðinn snertir, nefnil. að útflutningsgjaldið verði alveg fellt niður. Ég tek það fram, að ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 220, og vona, að hv. d. sýni báðum atvinnugreinum fulla sanngirni.