20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

1. mál, fjárlög 1934

Guðrún Lárusdóttir:

Það gleður mig, að það ætlar að fara vel á þessu með okkur hv. 2. landsk. að lokum. Að því er það snertir, að þetta fé sé tekið af atvinnubótastyrknum, þá er á það að líta, að ungu mennirnir hafa líka heimtingu á að fá eitthvað að gera, og við hv. 2. landsk. virðumst vera sammála um, að skynsamlegt sé að nota þessa dauðu punkta í lífi þeirra, til þess að láta þá nema eitthvað, sem þeim mætti verða að gagni síðar í lífinu, svo að ég treysti því, að hv. þm. greiði till. minni atkv., og ég býst enda við, að hv. þm. þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir því, að þetta verði til að skerða atvinnubótaféð mikið, því að ég óttast satt að segja, að ungu mennirnir verði ekki ginkeyptir fyrir þessu, þótt ég hinsvegar voni, að þeir verði svo skynsamir.