04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2248 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

77. mál, virkjun Sogsins

Ingvar Pálmason:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara og tel rétt að gera grein fyrir honum. Það er nú svo ástatt, að leikmenn eiga erfitt með að átta sig á málinu, vegna þess að gögn þau, sem fyrir liggja, eru ekki sem skýrust. Fram að síðasta ári má segja, að ekki hafi legið fyrir hendi nema drög til áætlana, því að þau tilboð, sem fengizt hafa í ráðgerð mannvirki, hafa verið með fyrirvara; þeir, sem gerðu tilboðin, treystu sér ekki, til þess að byggja föst tilboð á þeim grundvelli, sem hinar fyrirliggjandi áætlanir og rannsóknir sköpuðu. Fyrir skemmstu var enn stofnað til rannsóknar að tilhlutun félags í Reykjavík. En víst er það, að þessi rannsókn kemst að allt annari niðurstöðu en þeirri, er áður hafði yfirhöndina. Þar er bent á, að kostnaðaðaráætlunin geti verið miklu lægri, svo munar næstum helmingi. Það er örðugt fyrir leikmenn að dæma um þessi gögn, sem nú liggja fyrir. En frá mínu leikmannssjónarmiði er þessi rannsókn og niðurstöður hennar miklu aðgengilegri en hinar fyrri. Auðvitað geta verið tekniskir gallar á henni; þó fer því fjarri, að ég haldi því fram, enda er ég ekki fær um að dæma um slíkt. En ég segi fyrir mitt leyti, að þessi síðasta rannsókn er miklu aðgengilegri til þess að skapa sér skoðun um málið. Hv. 1. landsk. lýsti gangi málsins frá byrjun við umr. hér í gær. En ég gat ekki skilið annað á ræðu hans en að málið væri ekki enn að fullu rannsakað. En þegar nú þeir, sem fylgja málinu af kappi, og eins þeir, sem andmæla því, eru sammála um, að málið sé ekki nógu vel undirbúið, þá er ekki sjáanleg ástæða fyrir ríki og þing að taka endanlega afstöðu til þessarar ábyrgðarheimildar, sem fram á er farið, sérstaklega þegar litið er á, að þessi ábyrgð er miklu hærri en hún þarf að vera. Reyndar hefir verið sagt, að vel mætti treysta hæstv. stjórn til þess að gæta hagsmuna ríkissjóðs og veita ekki hærri ábyrgð en nauðsyn krefur. En fyrst og fremst er það athugavert, að Alþingi það, er nú situr, telur að gæta þurfi allrar varúðar í fjármálum, og því varhugavert að veita ábyrgðarheimild þessa, þegar samtímis liggja fyrir þinginu ýms nauðsynjamál annara héraða á landinu, og erfitt virðist að fá þeim framgengt. Þess vegna er það ósamrímanlegt að veita heimild fyrir miklu hærri upphæð en nota þarf. Það verður máske sagt, að óhætt sé að treysta stj. til þess að gæta hagsmuna ríkissjóðs. En eins og ástatt er nú, er ég ekki viss um, að þessi stjórn sitji svo lengi, að það verði hún, sem tekst á hendur þessa ábyrgð. Ég ber sjálfur fullt traust til hæstv. stj., en hinsvegar hefi ég enga löngun til þess að leiða hana í freistni. Mér sýnist nú, að ekki muni verða unnið að málinu í ár, eftir öllu útliti að dæma. Það upplýstist og í gær, að bæjarráðið hefir fengið 2 erlenda verkfræðinga til þess að samræma og vinna úr athugunum þeim, sem gerðar hafa verið, og framkvæma sjálfir nýjar. Það virðist því vera nægur tími til þess að athuga málið í heild og fyrir næsta Alþingi að taka fulla ákvörðun. Ég vil nú nota tækifærið og minnast á það, að hv. 1. landsk. sveigir að því í nál. sínu og ræðu sinni í gær, að meiri hl. fjhn. hafi sýnt málinu megna andúð. Ég býst við, að hann meini þetta til Framsfl. í heild. Mér þykir tilhlýðilegt að minnast á það atriði, sem talið hefir verið til ávirðingar, og það er þegar málið var stöðvað á þingi 1931. Þetta þótti ganga landráðum næst. Ég ætla samt ekki að fjölyrða um það, því að það var óspart notað í kosningunum þá um sumarið, og ég býst frekast við, að nú sé farið að dofna yfir því, og í þær kulnuðu glæður vil ég ekki skara. Það var minnzt á, að þessi síðustu 2 ár hefði Framsfl. ekkert gert fyrir málið. En hvað hafa hinir flokkarnir gert? (JónÞ: Flutt málið á hverju þingi). Já, það er alveg rétt, en það hefir nálgazt að berja höfðinu við stein. Mér hefir verið tjáð, að bæjarstj. Rvíkur hafi ekki gert nema að jagast um málið á fundum. Þó er, eftir blöðunum í bænum í vetur að dæma, útlit fyrir, að heldur dragi saman. En að öðru leyti fæ ég ekki séð, að bæjarstj. hafi gert neitt sérstakt til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Hefði verið samkomulag um málið hjá bæjarstj., þá væri það nú betur undirbúið. En hvers vegna hafa þeir fengið 2 erlenda verkfræðinga? Er það ekki vegna þess, að í einhverju er ábótavant? Hvers vegna er ekki lokið undirbúningi málsins á þeim tveimur árum, síðan málið varð kappsmál á þingi? Hv. 2. landsk. nefndi, að ósamkomulag mundi valda því. Það finnst mér mjög sennilegt. Þegar nú bæjarstj. Rvíkur er ekki enn búin að koma sér saman um málið, þá er ekkert glapræði, þó þm. utan af landi, sem enga sérþekkingu hafa í þessu máli, vilji ekki stuðla að því, að þessi ábyrgðarheimild sé veitt. Þeir, sem mest þykjast hafa barizt fyrir málinu, hafa í engu unnið því meira gagn en við hinir. Ég vil minna á það, að þó rétt kunni að vera, að þetta snerti fleiri héruð en Rvík og þá, sem þar búa, þá hlýtur málið alltaf fyrst og fremst að vera mál Rvíkur. (JBald: Það er eðlilegt, íbúar Rvíkur eru 30 þús.). Einmitt vegna þess. Þó þörfin þar sé rík og þó að Rvík sé sá þáttur, sem einna mest ber fyrirtækið uppi, þá tel ég rétt að stofnsetja það þannig, að fleiri geti komið til að njóta góðs af því í framtíðinni. Út af þessu, sem fyrirætlanirnar og rannsóknirnar greinir á um, nefnil. að hve miklu leyti eigi að virkja og hvað mikið það eigi að kosta, og af því að allt til þessa hafa verið skiptar skoðanir um málið innan bæjarstj. Rvíkur, hvernig framkvæma eigi virkjunina, svo hún komi að sem fullkomnustum notum fyrir alla þá, sem til greina geta komið, þá sé ég ekki betur en að réttmætt og réttast sé fyrir Alþingi að taka ekki fullnaðarákvörðun, heldur vænta þess, að rannsóknum verði lokið á þessu ári og að bæjarstj. komi sér saman um þau atriði, sem enn kunna að vera óútkljáð. En ég tel það fremur óheillavænlegt fyrir fyrirtækið, ef bæjarstj. er klofin um það strax frá byrjun. Ég leyfi mér því að afhenda hæstv. forseta svo hljóðandi rökst. dagskrá:

Þar sem niðurstöðum þeirra rannsókna og kostnaðaráætlana, sem fyrir liggja um virkjun Sogsins, ber svo mjög á milli, að munar fleiri milljónum króna, og þar sem enn virðist nokkur ágreiningur innan bæjarstjórnar Reykjavíkur um lausn þessa nauðsynjamáls bæjarins, þá telur deildin ekki tímabært, að Alþingi taki endanlega ákvörðun um mál þetta, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég skal játa það, að þegar málið var til meðferðar í n., þá var ég í nokkrum efa um það, hvort ég mundi leggja þessa afgreiðslu til. Þó hygg ég, að nefndarmönnum hafi ekki verið ókunnugt um það, að ég hneigðist mjög að þessari stefnu. En það, sem gerði það að verkum, að ég var þá í nokkrum efa um að taka þessa niðurstöðu, var það, hvort það væri væntanlegt, að eitthvað yrði byrjað á verkinu á þessu ári. Ég taldi, að ef málið væri þannig undirbúið, að hafizt skyldi handa á þessu ári, þá væri varhugavert að afgr. málið á þann hátt, sem hér er lagt til. En eftir að bæjarráð Rvíkur hafði tekið þá ákvörðun að fá 2 útlenda verkfræðinga til að rannsaka málið og sennilega gera endanlegar till. um lausn þess, þá þóttist ég sannfærður um það, að á þessu ári yrði ekki að neinu leyti hafizt handa. Þá sé ég ekki betur en að þessi afgreiðsla sé að öllu leyti sú hagkvæmasta fyrir málið, því að ég tel mjög mikilsvert, að þegar málið er afgreitt frá Alþingi, þá verði það afgreitt þannig, að sem flestir aðilar verði ásáttir um það. Ég tel mjög varhugavert að afgr. jafnstórt mál og þetta á þann hátt, að það valdi mjög miklum ágreiningi bæði innan Alþ. og ekki síður innan Reykjavíkurbæjar. Hvernig sem hv. 1. landsk. og aðstandendur þessa máls líta á aðstöðu mína í þessu máli, þá er það sannfæring mín, að ég með þessari till. vinni málinu það eina gagn, sem hægt er að vinna því á þessu stigi.

Ég býst ekki við, að ég hafi ástæðu til að segja meira um þetta mál. Það má vel vera, að dagskrártill., mín valdi einhverjum umr., en ég geri ekki ráð fyrir, að langar umr. um málið skýri það mikið. Ég mun því afhenda hæstv. forseta þessa dagskrártill. mína. En verði hún felld, geri ég ráð fyrir, að ég fylgi till. meðnm. míns, hv. 5. landsk., þó ég í raun og veru sé alls ekki ánægður með þá lausn málsins.