04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2257 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

77. mál, virkjun Sogsins

Jón Baldvinsson:

Ég vil víkja því að hv. 2. þm. S.-M., sem nú vill vísa þessu máli frá, að þó að samþ. verði frv., þá er ríkisstj. veitt margvísleg heimild í ákvæðum frv. til þess að hafa hönd í bagga með undirbúningi málsins áður en virkjunin kemur til framkvæmda. T. d. í 2. gr. frv. er sagt, að senda skuli atvmrn. frumdrætti að þessu fyrirhugaða mannvirki. Þá getur ráðh. krafizt breytinga eftir því, sem honum kann að þykja nauðsyn.

Í öðru lagi er svo fyrir mælt í 4. gr., að samþykki fjmrh. þurfi um lánskjörin, svo að þessi ábyrgð, þó að samþ. yrði, er að miklu leyti lögð í hendur stj. til ákvörðunar. Þeir, sem svo trúa og treysta stj., sem ég þykist vita, að hv. 2. þm. S.M. muni gera, ættu að geta samþ. þessa ábyrgðarheimild. Þó að þeir hafi ekki trú á samlyndinu í bæjarstj. Rvíkur, þá ættu þeir að trúa því, að ríkisstj. færi þannig með þá heimild, sem frv. veitir henni, að það verði ekki til skaða fyrir landið.

Í sambandi við það, að þetta sé fjárhagsleg áhætta fyrir ríkissjóð, vil ég benda á, að sennilega hefir aldrei verið hugsað til, að ríkissjóður tæki á sig ábyrgð fyrir nokkurt fyrirtæki eða hérað á landinu, sem er áhættuminna en að taka á sig ábyrgð á láni til Sogsvirkjunarinnar. Sala á raforku til kaupstaðanna og sjávarþorpanna við Faxaflóa er grundvöllurinn undir fjárhagslegri afkomu fyrirtækisins, en sú sala er tryggð hjá hinum mikla mannfjölda í kaupstöðum og kauptúnum á þessu svæði, vegna þess, að alstaðar vantar raforku.

Það var réttilega tekið fram hjá hv. 1. landsk., að á hverju þingi undanfarið hafa verið samþ. ábyrgðir í þessu skyni handa einstökum landshlutum, ábyrgðir, sem eru hlutfallslega hærri en sú, sem hér er farið fram á, og hv. þm. hefir verið ljóst, að væru stundum ekki alveg áhættulausar, þótt rétt hafi þótt að veita þær, til að lyfta undir afkomu einstakra héraða. Þetta er því í fyllsta máta öruggt rekstrarfyrirtæki.

Ég hefi ekki orðið þess var, að hæstv. fjmrh. eða atvmrh. hafi látið til sín heyra í þessu máli. Verður því að líta svo á, að þeir séu málinu samþykkir, því ef þeir teldu það skaðlegt, hefðu þeir án efa varað við að samþ. það. En ég hefði nú vænt þess, að þeir hefðu sjálfra sín vegna sýnt sig hér og heimtað af þinginu, að það samþykkti frv. til að koma í framkvæmd þeirri miklu atvinnuaukningu, sem af því leiðir, innan mjög skamms tíma.

Það leiðir af sjálfu sér, að ég get hvorki fylgt dagskrá hv. 2. þm. S.-M. né heldur brtt. hv. 5. landsk., þar sem ég fylgi frv. eins og það er með þeim litlu breyt., sem ég hefi drepið á. En ég vil beina því til hv. 2. þm. S.-M., að á því getur orðið löng bið, að allir innan bæjarstj. og þings komi sér saman um öll atriði slíks máls. Málið getur verið jafngott og þinginu jafnskylt að samþ. það, þótt 2—3 menn í bæjarstj. kynnu að vera á móti því.

Þá vil ég snúa mér að hv. 1. landsk. Hann sagði, að okkur greindi ekki á í málinu, en vítti hinsvegar Alþfl. fyrir að hafa notað sér málið fyrir kosningar. Það er satt, að Alþfl. hefir vakið athygli á málinu og haldið því vakandi. Þetta mál hefir annars verið meira og minna á döfinni síðan Elliðaárstöðin var byggð, og allir vonað, að sem skemmst liði, þangað til Sogsvirkjunin kæmist í framkvæmd. En flokkur hv. 1. landsk. í bæjarstj. hefir tafið málið um mörg ár. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem áður hefir verið sagt hér um allar þær ófullnægjandi rannsóknir, er vafalaust hafa kostað hundruð þús., sem fram hafa farið án þess að niðurstaða hafi fengizt um, hvar ætti helzt að virkja Sogið, þótt þrjár eða fjórar áætlanir liggi fyrir. Nú, er bæjarstj. Rvíkur hefir komið sér saman um málið, þarf enn að láta erlenda sérfræðinga taka þetta til athugunar. Þetta sýnir vanrækslu meiri hl. bæjarstj. í málinu. Þegar send var nefnd til Stokkhólms til að útvega fé til fyrirtækisins, þóttu áætlanirnar svo athugunarverðar, að ekki fékkst ákveðið tilboð að öllu leyti. Það er alkunna, að fyrrv. borgarstjóri var virkjuninni andvígur, og bæði hv. 1. landsk. sjálfur og rafmagnsstjórinn í Rvík hafa sagt í ritum sínum, að bezt væri að virkja Elliðaárnar fyrst og geyma Sogsvirkjunina þangað til 1941. Þessi andi er ekki kveðinn niður enn, því að hv. 1. landsk. sagði áðan, að ágreiningur væri um það, hvort virkja skyldi 2000 hestöfl í Elliðaánum fyrir eða eftir Sogsvirkjunina. Þessi andi í málinu hefir tafið fyrir og gerir það enn, af því að hv. 1. landsk. getur ekki lýst yfir, að nú sé málinu svo komið, að hægt sé að hefjast handa þegar á næsta sumri. — Af þessu er það ljóst, að það er ekki að ófyrirsynju, að Alþýðufl. hefir haldið málinu vakandi í Rvík.

Hv. 1. landsk. hnýtti í menn, sem viljað hafa reyna aðrar leiðir í málinu, og þá einkum þann mann, er ötulast hefir barizt fyrir þessu máli, Sigurð Jónasson. En sú viðleitni ber aðeins vott um áhuga fyrir málinu og um óþolinmæðina hér í bænum og rökstudda vantrú á því, að Sjálfstfl. í bæjarstj. væri nokkur alvara með að hefja virkjun.

Hv. 1. landsk. kvaðst ekki geta fallizt á till. mínar, enda væri ég þar að fara inn á aðra braut í málinu. Þetta er misskilningur. Það hefir ávallt verið skoðun Alþfl., að ríkið eða bærinn eða ríkið og bærinn tækju þessa virkjun að sér. Ég vil, að Rvík sjálf standi fyrst og fremst fyrir virkjuninni, en ef bæjarstj. vill ekki leggja út í hana á næsta sumri, sé heimild fyrir stj. að hefjast handa. Hér er því ekki um það að ræða, að fella niður neina heimild handa Rvík. Ég vil krefjast þess, að rannsókn verði hraðað svo, að hægt sé að byrja á vegalagningu til undirbúnings þegar í sumar. Á þann hátt væri hægt að útvega nokkra aukna atvinnu, og það kæmi sér vel á þessum erfiðu tímum. Ég vil ekki gefa verkfræðingunum ótakmarkaðan tíma til þessara rannsókna. Þær gætu tekið 50 ár, ef þeir væru látnir sjálfráðir, eða jafnvel staðið endalaust.

Andstaða hv. 1. landsk. gegn brtt. mínum hlýtur því að vera á misskilningi byggð, eða þá á því, að hann er sér þess meðvitandi, að dráttur verði á málinu hjá bæjarstj., eða meiri hl. hennar. En þá er það ekki mér að kenna, þótt Rvík noti sér ekki heimildina. Ef hv. 1. landsk. getur ekki lýst yfir því, að bæjarstj. sé reiðubúin að hefjast handa þegar að lokinni rannsókn, sem verði hraðað sem unnt er, þá er það að gefa dagskrá hv. 2. þm. S.-M. vind í seglin og öðrum þeim mótbárum, sem færðar hafa verið gegn þessu sjálfsagða máli.