04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að víkja fáeinum orðum að byrjun ræðu hv. 1. landsk. frá í gær, þar sem honum þótti undarlegt, að tekið skyldi fram, hvaða skoðanir hefðu komið fram á undirbúningi málsins og taldi ekki rétt skýrt frá. Ég sé einmitt á nál. hans, að það er nákvæmlega rétt frá þessu sagt, og verður ekki um það deilt, að það geta verið sérstakar ástæður til þess að skýra alveg hlutdrægnislaust frá, á hverju n. hafi klofnað. Það er ekki hægt að segja frá klofningu n. nema tilgreina tilefnið. Annars vildi ég víkja fáeinum orðum að því, sem hér ber á milli. — Fyrir 2 árum hefir hv. 1. landsk. fært sannanir fyrir því hér í þinginu, að heppilegast væri að fá ríkisábyrgð eins og þessa til þess að virkja Sogið á þeim stað, sem hann nú ekki treystir sér til að láta virkja það. Og þá var hv. þm. svo sannfærður um, að þetta væri rétt, að hann mun hafa lofað sócíalistum í sambandi við þá samninga, sem þá voru milli þeirra tveggja flokka, að vinnan skyldi byrja þá um sumarið, því að Alþýðublaðið ámælti okkur framsóknarmönnum fyrir að hafa hindrað vinnu þá um sumarið, sem um 200 manns hefðu getað notið. Eftir að hv. 1. landsk. hafði gert þessa samninga og þessar ákvarðanir, eins og allt sé í lagi og öll vitneskja fengin um þetta mál, þá uppgötvar hann sjálfur aðra leið á sama stað, að grafa göng milli vatnanna, og gæti þá verið heppilegra að stífla Sogið og hafa einungis stutta leiðslu. Og þetta segir hann, að sé eitt af því allra bezta. (JónÞ: Anakronik — öfug röð viðburðanna). Hvað sem þetta er kallað, þá vildi hann byrja fyrir tveimur árum, en allt öðruvísi nú. Það, sem gerist eftir þetta, er hv. 1. landsk. að þakkarlausu og öllum þeim mönnum, sem að honum stóðu, að úrræði finnst til að bæta úr rafmagnsþörf Rvíkur og Hafnarfjarðar, og þetta hefir breytt málinu. Hv. þm. veit, að sá fræðimaður, sem gerði þessar athuganir þarna, hefir miklu meiri reynslu og stærra nafn en nokkur af þeim Íslendingum, sem hafa átt við þetta. Þess vegna er það, að hv. þm. og hans fyrirrennari í embættinu hafa töluvert hitann í haldinu, því að um þá rannsókn er ekki hægt að segja, að hún sé gerð af neinum óvita. Þeir vita, að það er stærra nafn en þeir hafa og geta haft. Þeir vita, að tiltrúin til þeirra hlýtur að minnka, þegar maður kemur, sem er virkilega hæfur um slíka hluti. Þá getur hann fundið leiðir, sem allir hefðu átt að sjá, sem eitthvert vit hefðu á þessum hlutum. Rannsókn þýzka verkfræðingsins er stórkostlegur áfellir fyrir hv. 1. landsk. sem verkfræðing, og þó öllu meir fyrir þá verkfræðinga af hans sauðahúsi, sem hafa fengizt við að rannsaka og gera þessa frámunalegu áætlun, sem reyndar er svo óábyggileg, að þeir sjálfir, sem hafa að þessu staðið, verða nú að hverfa frá því, einungis af því, að þeir voru hræddir við, að enginn fáist til að lána út á gamla „planið“. Það er dottinn grundvöllurinn undan því, sem þeir hafa gert áður, og nú sjá þeir ekki annað ráð en að draga málið á langinn. Hv. 1. landsk. hefir haldið því fram bæði í n. og öðruvísi, að það væri vissulega ekki gert ráð fyrir nægilegri spennu, t. d. í þessu áliti um Sogsfossana sé ekki nægilegt að gera ráð fyrir 35 þús. volta spennu, heldur yrði að gera hærra vegna langrar leiðslu. Nú er vitanlegt og kom í ljós í n. við athugun á þessu, og eins við vélasamstæðurnar, að þótt þær séu heldur minni til að byrja með, þá er ekkert því til fyrirstöðu, að næsta vélasamstæða geti verið stærri; það hefir hv. þm. sjálfur játað, enda kom það í ljós, að kostnaðurinn verður minni með þessu móti en hann sjálfur gerði ráð fyrir. Hvað hv. þm. heldur um, að þurfi að miða spennuna við leiðslu vestur á Snæfellsnes og til Vestmannaeyja, þá býst ég við, að hann verði fyrir dálítilli gagnrýni, því að þegar Rvík haustið 1931 hafði sent mann út til að fá lán, þá tókst honum ekki að fá nokkursstaðar nokkurn eyri nema með ríkisábyrgð, og þó er það vitanlegt, að þessi virkjun er nauðsynleg fyrir Rvík og Hafnarfjörð. En aftur á móti má nærri geta, hve vel gengur að afla fjár til að leiða rafmagn til Vestmannaeyja og Ólafsvíkur og Sands, þegar ekki er hægt nema með hörmungum og ríkisábyrgð að útvega Rvík lán til þess hluta fyrirtækisins, sem má telja víst, að myndi bera sig. Hv. 1. landsk. hefir líka reynt að sanna með einlægum bollaleggingum, að ómögulegt væri að leiða rafmagn um suðurláglendið frá þessum fossi eða öðrum. Allt þetta moldviðri er gert móti betri vitund af þeim mönnum, sem kalla sig kunnáttumenn. Þessir menn verða jafnvel að játa, að hér í Rvík og Hafnarfirði kemur ekki til mála að nota rafmagn til að hita hús, nema með því, sem afgangs er frá ljósi og suðu, því að jafnvel leiðslan öll í einu lagi, hingað og til Hafnarfjarðar, er of dýr til þess, að það sé á færi þeirra, sem byggja svona hús, að gera kleift fyrir Rvík að hita herbergi með rafmagni. Þá geta allir séð, hvílík fjarstæða það er, að það borgi sig að leiða rafmagn um sveitabæina á Suðurlandi með þeim löngu leiðslum, sem þarf. Þess vegna er það, að hv. 1. landsk. getur verið viss um, að menn á Snæfellsnesi og í Vestmannaeyjum taka alls ekki hátíðlega framtíðarloforðin um, að hita eigi sveitabæina út frá Soginu. Það er sennilegt, að yrði eitthvað hægt að nota Sogið fyrir Ölfusárbrú, Eyrarbakka og Stokkseyri, og eitthvað af Ölfusinu og Reykjavík. En allar bollaleggingarnar um stórar leiðslur um sveitirnar eru draumórar, gerðir á móti betri vitund. (JónÞ: Mikil er vantrú þessa aumingja). Sá er meiri aumingi, sem hefir sagt landsmönnum ósatt í því, sem hann í sinni eymd hefir reynt að láta fólkið halda, að hann hefði vit á. Það er auminginn, sem ætlaði að lokka þingið 1931 til þess að ganga inn á þessa ábyrgð, sem reyndist síðan að vera helmingi hærri en þurfti, þegar maður, sem ekki var aumingi, tók til að skoða hlutina. Til þess að koma svolítið nánar inn á það, hvernig ástandið er hjá þessum hv. þm., sem skaut hér inn í, þá er víst, að 1931 hyggst hann að blekkja sócíalista til fylgis við sig í öðru máli með loforðum um vinnu. En um haustið fær Rvík enga peninga og kom skríðandi til þeirrar þjóðar, sem Reykvíkingar, — það er að segja ekki allir, heldur þeir, sem standa næst hv. 1. landsk. — ætluðu að setja verzlunarbann á um sumarið. Þeir urðu að koma skríðandi til mannanna með „mosann í skegginu“ til þess að biðja þá að skrifa upp á víxilinn. (JakM: Er Reykjavík ekki partur af landinu?). Hún var bara ekki nóg fyrir sig, þótt hv. 1. þm. Reykv. hafi haldið því fram, að Rvík ætti að vera sérstakt ríki. Gullbringu- og Kjósarsýsla áttu að fá að vera sérstakt ríki og hluti af Borgarfjarðarsýslu. En svo fékk hv. þm. að reyna það í Svíþjóð um haustið, að það hefði ekki verið alveg nóg til þess að fá aurana þar. (JakM: Var það nú um haustið?). A. m. k. kom hv. þm. peningalaus heim. Og nú er verið að biðja um þennan víxil, og það er dirfska eftir að hafa ekkert samband viljað hafa á milli Rvíkur og sveitanna — dirfska eftir að hafa farið eftir fölskum áætlunum og biðja um helmingi meira en þarf. Það væri barnalegt, ef þingið færi að ganga í 3 millj. kr. ábyrgð fyrir Rvík eftir áætlunum tiltölulega ófróðs manns um þetta, og neita aftur því, að hjálpa Rvík til að virkja eftir áætlun færara manns, fyrir helmingi minna en þeir ófróðu hafa áætlað. Það hefir ekki ennþá komið fram nein skýring á því, hvers vegna hann, sem var svo viss um, að ætti að leggja út í fyrirtækið fyrir tveim árum, hikar nú. Hann getur ekki komið með neina ástæðu aðra en þá, að hann þori það ekki, því að þýzku rannsóknirnar standa í veginum. Það væri bjargráð fyrir Rvík að ganga í ábyrgð fyrir helmingi hærri upphæð en þyrfti, til þess eins að lokka þennan núv. borgarstjóra bæjarins til þess að gera cementsgarð, sem kostaði 2 millj. kr., til þess að geta sjálfur lagt til meginhluta efnisins, og taka „plan“, sem annars er dauðadæmt, bara af því, hve liðlega hefði verið skrifað upp á víxilinn. Annars þykjast menn vera vissir um, að ástæðan til þess, að hv. þm. vill ekki vinna að þessu máli nú, er, að hann sem stendur er í minni hl. í því í bæjarstj. Rvíkur, og hann mun vera að draga málið þetta ár í von um að fá öruggari meiri hl. við kosningarnar næsta vetur og geta þá byrjað aftur að nota svipaða verkfræðiþekkingu í þessu efni eins og svo oft hefir komið fram hjá honum áður. Hv. þm. veit t. d., hvernig hann leit á Elliðaárnar, þegar gasstöðin kom. Hann veit, hvaða lærðir verkfræðingar það voru, sem sögðu, að ómögulegt væri að nota Elliðaárnar. Hann veit, að það voru verkfræðingar, sem vildu gasstöð. Svo bíður til 1920, þegar dýrtíðin var sem mest. Þá kemur einn ágætur verkfræðingur, sem nú er hv. 1. landsk., og leggur út í virkjun fyrir Rvík á hinum dýrustu tímum. Og það undir þeim kringumstæðum, að áætlunin reyndist tóm vitleysa og loforðin um verðið á rafmagninu reyndust ósönn. Bærinn hefir síðan stunið undir verði rafmagnsins vegna þessara ósanninda, sem sögð voru hér. — Í framhaldi af þessu er það svo, að meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur er helzt að hugsa um að gera viðbótarvirkjun í Elliðaánum og svo byrja þeir vitanlega á því að sprengja gatið þarna upp frá, sem Gestur heitinn á Hæli eða aðrir orðheppnir menn myndu líklega hafa kallað þjóðgatið. Og svona verður sjálfsagt haldið áfram í virkjunarmálum Rvíkur, að taka alltaf hið dýrasta og vitlausasta, sem völ er á á hverjum tíma. Að þessu stefnir hv. 1. landsk.