04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2268 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

77. mál, virkjun Sogsins

Ingvar Pálmason:

Ég hefi ekki mörgu að svara, en tel þó rétt að segja hér nokkur orð. Ég skil það ofurvel, að hv. 1. landsk. sé það ekki sársaukalaust að kannast við, að þær rannsóknir, sem farið hafa fram um málið, séu ófullnægjandi, og skil ýkjavel, að hann vill ekki viðurkenna, að sú rannsókn, sem seinast fór fram að tilhlutun h/f Sogsvirkjunar, hafi leitt nokkuð nýtt í ljós. En samt sem áður kannaðist hann við það, að það væri vegna þessarar rannsóknar, sem bæjarstj. Rvíkur hefði ákveðið að gera frekari rannsókn. Ég ætla ekki að deila um þetta — það er þýðingarlaust. Verkin sýna merkin. Hv. 1. landsk., sem er form. Sjálfstfl. og borgarstjóri í Rvík, hefir ákveðið þetta, og er þýðingarlaust að deila um ástæður fyrir því hér. En ég vil benda á annað, sem kemur greinilega fram í nál. hv. 1. landsk. og sýnir, að hann er á þeirri skoðun, að ekki þurfi fram úr 5 millj. kr. til þess að fá fullkomna virkjun á Soginu. Að vísu segir hann, að ennþá sé ekki fengin full vitneskja um það, hvaða upphæð þurfi, en hann telur ekki líklegt, að hún fari fram úr 5 millj. kr. Þetta bendir fyllilega í þá átt, sem við hv. 5. landsk. höfum haldið fram, að þetta mál væri svo illa undirbúið, að það væri of mikill ábyrgðarhluti fyrir ríkið að bindast þeirri fjárupphæð, sem í frv. felst, 7 millj. kr., eins og nú standa sakir. Ég kæri mig ekki um að gera sársauka hv. 1. landsk. meiri en komizt verður hjá, með því að lýsa þeim kostnaðaráætlunum, sem gerðar hafa verið um virkjun Sogsins, en aðeins halda mér við staðreyndir. Eftir að kostnaðaráætlun þýzka verkfræðingsins kom fram, horfið málið þannig við frá leikmannssjónarmiði, að hinar eldri áætlanir, sem hv. 1. landsk. hefir fyrr og síðar byggt á, voru a. m. k. mjög óábyggilegar, svo að ekki sé meira sagt.

Þeir hv. þm., 1. og 2. landsk., hafa báðir reynt að gera sem minnst úr þeim ágreiningi, sem verið hefir í þessu máli, og létu svo til að byrja með, að þeim bæri lítið á milli. En Adam var ekki lengi í Paradís. Því þegar hv. 2. landsk. fór að beina orðum sínum til hv. 1. landsk., kom það greinilega í ljós, að ágreiningurinn var býsna mikill. Og ég hygg, að hv. þdm. hafi af umr. sannfærzt um það, að allmikill ágreiningur hefir verið um þetta mál í bæjarstj. Rvíkur fyrr og síðar, þannig að ekki sé of djúpt tekið í árinni, þar sem víkið er að því í dagskrártill. minni. Hinsvegar má vera, að hann sé nú eitthvað að minnka, og það skyldi gleðja mig, ef svo er, en þrátt fyrir það álít ég nauðsynlegt, að hann minnki meira, áður en málinu er að fullu ráðið til lykta. Þá minntist hv. 1. landsk. á ábyrgð ríkissjóðs fyrir Ísafjarðarkaupstað og taldi, að ríkið hefði tekið á sig hlutfallslega miklu stærri ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað en hér væri farið fram á fyrir Rvík. Ég hefi ekkert á það minnzt í umr. eða borið þetta saman, en mér er ekki kunnugt um, að Ísfirðingar hafi farið fram á að fá 1/3 hluta hærri ábyrgðarheimild en þeir þurftu. En hér er það viðurkennt af hv. 1. landsk., að farið sé fram á a. m. k. 2 millj. kr. hærri ábyrgðarheimild til Sogsvirkjunarinnar en þörf er á, og ef til vill meira. Þessi samanburður hv. þm. við ábyrgð ríkissjóðs vegna Ísafjarðarkaupstaðar er því ákaflega villandi.

Ég þarf ekki mörgu að svara hv. 2. landsk.; hann var eitthvað að brýna mig á því, að ég hefði ekki mikið traust á stj. til þess að bera vit fyrir Rvíkingum í þessu máli. En ég fæ ekki séð, að hér geti verið um vantraust að ræða frá mér til núv. stj., því að mig vantar tryggingu fyrir því, að hún verði við völd áfram, þegar þessu máli verður hrundið í framkvæmd. Það er sem sé alveg óvíst, hverjir fara þá með völdin.

Hv. þm. talaði mikið um, að hér væri ekki um áhættufyrirtæki að ræða. Ég hefi aldrei haldið því fram, þó að ég hafi ekki viljað binda ábyrgð ríkissjóðs við þetta fyrirtæki, meðan málið væri ekki betur undirbúið. Hv. 2. landsk. tók það sérstaklega fram í ræðu sinni í gær, að þessi rafveitufyrirtæki bæru sig alstaðar vel, sem selja rafmagn til lífsnauðsynja almennings, ljósa, suðu og hitunar. Og það má vel vera, að svo sé, ef skynsamlega er til þeirra stofnað. En honum láðist að taka fram, hvað rafmagnið mætti kosta, til þess að almenningur þyrfti ekki að kaupa þessar lífsnauðsynjar of dýru verði. En það er einmitt þetta atriði, sem við í meiri hl. fjhn. leggjum mesta áherzlu á, að rafmagnið verði ekki selt dýrara verði en þörf er á til almenningsnota.

Hv. 2. landsk. benti á sjóðseignir rafmagnsveitu Rvíkur til sönnunar því, hvað þessi fyrirtæki bæru sig vel, en jafnframt benti hann greinilega á það, að rafveita Rvíkur seldi rafmagnið svo dýru verði, að ýms fyrirtæki, sem eru hér í bænum, gætu ekki notað það, en reistu sjálf sérstakar rafmagnsstöðvar til iðjurekstrar.

Þetta sýnir það og sannar, að fyrirtækið getur borið sig með því móti að skrúfa almenning til að greiða óhæfilega hátt verð fyrir rafmagnið. Og það sannar líka hitt, að slík fyrirtæki, sem hér er um að ræða, verður að stofna með þeirri varfærni og gætni, að hægt sé að selja rafmagnið með hæfilegu verði til almennings. Framleiðsla rafmagns má ekki vera dýrari en svo, að það borgi sig fyrir þau fyrirtæki, sem hv. 2. landsk. talaði um, að nota það.

Ég sé ekki ástæðu til að svara því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Hafnf., nema einu atriði, þar sem hann sagði, að ég hefði lýst því yfir, að till. mín í þessu máli væri í samræmi við stefnu Framsfl. í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi misskilið það, sem ég sagði, eða tekið skakkt eftir. Hann hefir villzt á því, sem ég sagði út af þeim ummælum hv. 1. landsk., að frá meiri hl. fjhn. gætti eins og áður andúðar gegn þessu máli. Ég sagði, að þessum orðum hv. 1. landsk. mundi vera stefnt til Framsfl. í heild. En hitt hefi ég aldrei sagt, að dagskrártill. mín í málinu væri flutt í nafni Framsfl. Ég vona, að hv. þm. taki þessa leiðréttingu gilda, því að ég hefi ekki ástæðu til að ætla, að hann hafi farið hér vísvitandi með hártoganir.