04.05.1933
Efri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2273 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég ætla aðeins að svara örfáum atriðum úr ræðu hv. frsm. meiri hl. n. Um flest atriðin í ræðu hans er það að segja, að þau komu málinu lítið við, eins og vant er að vera um ræður þessa hv. þm., þegar tilfinningarnar hlaupa með hann í gönur. Ég vík aðeins að því, er hann sagði um, að hin fyrirhugaða tilhögun á framkvæmd virkjunarinnar samkv. till. hans bæri langt af öðrum uppástungum og áætlunum, sem fram hefðu komið, eins og ráða mætti af því, að sá þýzki verkfræðingur, sem fyrir því stóð, væri heimsfrægur maður í sinni grein, en hinir fávitar. (JónasJ: Ég sagði labbakútar). Já, labbakútar, ef hv. þm. vill heldur nota það orð. Nú veit ég engu síður en hv. 5. landsk. um hæfileika og aðstöðu hins þýzka verkfræðings; hann var í þjónustu hjá stóru firma í Þýzkalandi, sem hafði það fyrir aukastarf að undirbúa vatnsvirkjanir, en aðalstarfsgrein þess hefir verið raftækjasmíði og framleiðsla og sala á efni og vélum til rafveitufyrirtækja. Mér er kunnugt um, að þegar þetta aukastarf félagsins var lagt niður, þá missti þessi maður atvinnu sína hjá félaginu, enda þótt það héldi áfram sinni aðalstarfsgrein, og þess vegna kom hann hingað til landsins. Þetta segi ég ekki honum til niðrunar á nokkurn hátt. Maðurinn getur verið ágætur í sinni starfsgrein, þar sem hann er kunnugur allri aðstöðu, þó að honum hafi sézt yfir við rannsóknir hér úti á Íslandi, því að hér er sannarlega um ólíkt veðráttufar að ræða og í Mið-Evrópu, þar sem hann hafði áður starfað að þessum rannsóknum. En þetta var þó ekki höfuðorsök þess, að áætlanir hans reyndust ófullkomnar, heldur þær fyrirsagnir, sem honum voru gefnar um það, hvers hann þyrfti að gæta við athuganir sínar og uppástungur. Þær fyrirsagnir bundu hendur hans þannig, að tillögur hans hlutu að verða ófullkomnar. Uppástungur hans voru að öllu leyti miðaðar við það eitt, að hægt væri að fá sem ódýrasta virkjun í byrjun. Þær voru miðaðar við áform einstakra manna, sem ætluðu sér að fá 25 ára sérleyfi til rekstrar raforkustöðvarinnar. Og þess vegna var mest um vert fyrir þá að fá sem mestar tekjur af fyrirtækinu á því tímabili, og að bygging þess og rekstur væri sem ódýrast í upphafi, enda þótt það mætti búast við endurnýjun á stöðinni og fyrirtækinu að 25 árum liðnum. Það þarf því ekki að telja hinum þýzka verkfræðingi það til niðrunar, þó að hann væri atvinnulaus þegar hann tók þetta starf að sér, né hitt, að uppástungur hans reyndust svo ófullnægjandi. Aðalorsök þess er sú, að verkefnið var honum afskammtað. —Þessu næst vil ég leiða athygli að þeirri sorglegu staðreynd, að í ræðu hv. 5. landsk. kom enn fram hin megna andúð gegn þessu fyrirtæki, sem alltaf hefir borið svo mikið á hjá honum og ýmsum flokksmönnum hans, gegn Sogsvirkjuninni og raforkumálum sveitanna yfirleitt í landinu. Það er hið sótsvartasta afturhald, sem ég hefi nokkurn tíma vitað bulla úr sál nokkurs manns, þegar þessi hv. þm. er með sterkum orðum að útmála, hversu mikil fjarstæða og vitleysa það sé að leiða raforku um byggðir landsins, jafnvel í nánasta umhverfi þeirra fossa, sem hér er ráðgert að virkja. Ég verð að segja það, að ég sárkenni í brjósti um þennan hv. þm., ef honum yrði það á síðar meir að líta upp úr gröf sinni og sjá, hversu einn af hinum svo kölluðu stjórnmálaforingjum var langt á eftir sinni samtíð í þessum efnum. Því að venjulegast verður að ætlast til þess, að þeir gangi á undan öðrum og haldi merki hugsjónanna á lofti. — Ég gat ekki annað en gripið fram í ræðu hv. þm.: „Mikil er vantrú þessa andlega aumingja“. Það er dómur minn um hann hér í dag, og það verður einnig áreiðanlega dómur framtíðarinnar um hann í þessu máli. Annars geri ég mér nokkra von um, að við munum báðir lifa það að sjá rafljósin útrýma myrkrinu úr ýmsum sveitum hér á landi, eins og ég hefi áður tekið fram. Og þá vona ég, að rafljósunum takist að eyða myrkri þeirrar vantrúar, sem nú ríkir glórulaust í sál hv. þm.

Það er enginn efi á því, að þetta mál er nú komið að því að losna úr læðingi. Það er enginn efi á því, að þegar þessu verki — virkjun Sogsins — verður lokið að 2—3 árum liðnum, þá verður annað sporið stigið, að leiða rafmagnið um næstu héruðin við aflstöðina. Og þegar því er lokið, þá verður farið að leiða rafmagnið víðar um landið, eftir því sem vilji manna og geta leyfa. Það fer svo jafnan um slíkar framkvæmdir sem þessar, að þær koma smám saman, í fullu samræmi við óskir þeirra manna, sem áttu frumkvæði að þeim og hrundu þeim af stað. Og þá stendur hv. 5. landsk. einn eftir eins og nátttröll í heiðríkju. Ég læt þetta nægja að sinni. Við erum búin að sjá það í þessari hv. þd. í dag, að vantrú hv. 5. landsk. á þessum málum er alveg ólæknandi. Og rafmagnið mun koma; það mái verður leyst, alveg án hans aðstoðar og hvað sem hann kann að leggja til þeirra mála. Þess vegna skiptir það engu.

Ég þarf litlu að svara hv. 2. þm. S.-M. Hann sagði, að það myndi valda mér sársauka að verða að kannast við það, að rannsóknir þær, sem áður hefðu verið gerðar um virkjun Sogsins, reyndust óábyggilegar. Þetta er algerlega misskilningur hjá hv. þm. Ég hefi ekkert lagt til þeirra rannsókna, en aðeins gagnrýnt þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um virkjun Sogsins. Hinsvegar er það ekkert undarlegt, þó það þurfi að gera heildaryfirlit um þær rannsóknir og áætlanir, sem fyrir liggja, nú þegar komið er að því að hefja framkvæmdir á þessu fyrirtæki. Það má nokkuð ráða af því, hv ort ég sé viðkvæmur fyrir hinum eldri rannsóknum á Sogsvirkjuninni, þar sem það er nú ákveðið samkv. frumkvæði mínu að hefja lokarannsókn til undirbúnings Sogsvirkjuninni, eftir að bæjarstjórn Rvíkur hafði einróma ákveðið að auka rafveitu Rvíkur fyrir eiginn reikning.

Mér þykir kenna nokkurs misskilnings í ýmsu af því, sem sagt hefir verið um rafveitu Rvíkur í þessum umr. Ég hirði ekki um að eltast við að leiðrétta það allt. En það hefir verið sagt, að rafveitan seldi rafmagnið of dýru verði. Sannleikurinn er nú sá, að rafveitan getur ekki fullnægt eftirspurninni í bænum eftir rafmagni til annara nota en þeirra, sem selt er hæstu verði, og þá fyrst og fremst til ljósa, en það geta menn keypt hæstu verði og þar næst rafmagn til iðnaðar. En það má öllum vera ljóst, að verðið á rafmagninu getur lækkað í öllum flokkum, ef stofnað verður til ódýrari virkjunar í stærri stíl. Og þá er jafnframt hægt að fullnægja þeim þörfum fyrir rafmagn, sem ekki geta notað það afl, nema það fáist fyrir miklu lægra verð en nú er kostur á.

Að öllu samanlögðu hefir hún verið heilbrigt fyrirtæki og allir, sem hafa skipt við hana, hafa talið sig hafa haft hag af þeim viðskiptum. Þau ein viðskipti eru heilbrigð, sem báðir hafa hag af, en það hafa viðskipti rafmagnsveitunnar fullkomlega verið. Þörfin á aukinni orku er brýn. Það er rétt, sem hv. 2. landsk. tók fram, að rafmagnsveitan hefir beinlínis orðið að neita stórum skiptavinum um að láta þeim í té raforku, eins og t. d. sænska frystihúsinu. — Þá er það síðasta mótbáran hjá hv. 2. þm. S.-M., að það sé farið fram á hærri upphæð en talin sé þörf á; en þetta er ekki rétt. Það er engan veginn farið fram á það, að veitt sé ábyrgð fyrir hærri upphæð en þeirri, sem þörf er á, heldur er aðeins farið fram á, að einskorða heimild þingsins ekki svo þröngt, að nein hætta sé á, að stranda þurfi á því, að heimildin sé ekki nægilega rúm. Ég tel réttast að halda sér við allt að 7 millj. kr. upphæðina, jafnvel þó að talsverðar líkur séu fyrir því, að komizt verði af með nokkru lægri upphæð. Það er þess vegna ekki vissa fyrir því, nema það kunni að þykja hentugasta lausnin á þessu máli að nota allt að þessari byrjunarupphæð. Hvort sem það er fyrir Rvíkurbæ eða þá, sem síðar eiga að koma til með að verða eigendur og notendur þessa fyrirtækis, er það ekkert höfuðatriði, hvort heildarupphæðin í fyrstu er 2 millj. kr. hærri eða lægri; höfuðatriðið er hitt, hvað hvert framleitt hestafl í stöðinni kostar. Ef við getum fengið hvert árshestafl mun ódýrara með því að kosta til 7 millj. kr. í fyrstu en með því að kosta til 5 millj. kr., þá væri sjálfsagt að velja hærri upphæðina. Það verða menn að gera sér vel ljóst, að hér er verið að tala um að ráðast í kaup á vöru, og hagnaðurinn af kaupunum veltur ekki á því að gera innkaupin sem minnst í upphafi, heldur á hinu, að fá hverja einingu vörunnar sem ódýrasta. Ég verð að telja það réttast, að stj. fái það frjálsar hendur, að það megi fara allt upp að þeirri upphæð, sem tiltekin er í frv.