08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2290 í B-deild Alþingistíðinda. (3595)

77. mál, virkjun Sogsins

Ingvar Pálmason:

Ég hafði ekki hugsað mér að tala fyrir brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf. Hún skýrir sig fyllilega sjálf, enda er hún beint framhald af því, sem ég sagði hér við 2. umr. málsins. En nú hefir hv. 1. landsk. talað á móti henni. Ég hefði nú í sjálfu sér ekki haft neitt við það að athuga, ef hann hefði gert það af því, að fyrir lægi eitthvað um það, að upphæðin, sem nefnd er í brtt., væri of lág. En nú er það ekki svo, enda sagði hann það ekki. Það mundi líka vera allerfitt að halda því fram, meðan engar ábyggilegar áætlanir liggja fyrir, er sýni, að þessi upphæð sé ekki nóg. En aðalröksemdir hv. þm. voru þær, að þar sem útlit væri fyrir, að frv. yrði að lögum, og þar sem gert er ráð fyrir því í frv., að ríkissjóði verði gert að skyldu að verða aðili í fyrirtækinu, þá taldi hann meiningarlaust að vera á nokkurn hátt að binda með tölum ábyrgð ríkissjóðs. En ef þetta er rétt, þá er líka meiningarlaust að hafa nokkra upphæð tiltekna, ekki heldur 7 millj. Nú er það viðurkennt af hv. 1. landsk., að líkur séu til, að 4 millj. kr. muni vera nær þeirri upphæð, sem þarf til fyrirtækisins, heldur en sú upphæð, sem nefnd er í frv. Hann hefir kannazt við það í nál., að 5 millj. muni sennilega duga. (JónÞ: En 4 millj. nægja ekki). Það má vera, en ég álít, að hvorugur okkar geti þó um það sagt, því að ekkert liggur fyrir í málinu, sem úr því skeri. Eins og ég gat um við 2. umr., þá álít ég, að áætlunin um Neðra-Sogið sé aðgengilegri en hin; frá mínu leikmannssjónarmiði lítur það þannig út. Þar er gert ráð fyrir, að virkjunin sjálf þurfi ekki að kosta nema 3 millj. kr. Nú hefir hv. 1. landsk. haldið því fram, að stöð samkv. þessari áætlun væri of smá, bæði væri spennan of lág, og sömuleiðis vélasamstæðurnar of litlar. Nú hefi ég það frá sérfróðum manni, sem setið hefir fundi með n. um þetta mál, að auðvelt sé að bæta úr þessu hvorutveggja. N. spurði hann, hvað það mundi kosta, og svaraði hann því ekki alveg ákveðið, en taldi, að það mundi ekki verða nema nokkrir tugir þúsunda. Það er því svo langt frá að vera rétt, að brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf. sé bending um að taka heldur Efra-Sogið. Ég álít, að það eigi að taka þann staðinn sem álitlegri er, en till. um 4 millj. kr. er alls ekki miðuð við Efra-Sogið fremur en hið neðra, og eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu, eru miklar líkur til, að einmitt sú upphæð muni nægja. Ég skal játa, að þar um eru náttúrlega getgátur á báðar hliðar, og úr því svo er ástatt, virðist skynsamlegra að hafa upphæðina ekki hærri en líkur eru til, að hún þurfi að vera.

Ég hefi yfirleitt ekki orðið var við þann hugsunarhátt hjá hv. þdm. á þessu þingi eins og hjá kerlingunni, sem sagði: „Sjóddu bara nóg“, nema hjá hv. 1. landsk. í síðustu ræðu hans, en eftir hans skoðun þar væri réttast að strika alveg út úr frv. 7 millj. kr. hámarkið. Annars má segja um þetta mál, að það sé alveg í lausu lofti enn, og því sé hyggilegast fyrir þá, sem lítið vita í málinu, að vera með því að taka lægri upphæðina.