31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2299 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

77. mál, virkjun Sogsins

Halldór Stefánsson:

Ég hefi borið fram nokkrar brtt. við frv. á þskj. 848, sem ég tel, að betur færi, að samþ. yrðu, ef frv. á að verða afgr. nú. Vil ég gera stuttlega grein fyrir þeim. 1. brtt. er við 3. gr., að gr. falli niður. Efni þessarar gr. er tvennskonar: Í 1. lagi það, að ríkisstj. skuli láta gera nokkrar vegaframkvæmdir, kosta veg vegna virkjunarinnar. Í 2. lagi, að ef orkuverið verður reist við Efra-Sogið, þá megi telja með kostnaði kaupverð vatnsréttinda þeirra í Efra-Sogi, sem Reykjavíkurbær hefir keypt af eigendum Úlfljótsvatns. Þessi ákvæði eru bæði óþörf til þess að frv. nái tilgangi sínum. Ákvæðið um það, að ríkisstj. skuli hefjast handa um þetta verk, er algerlega óþarft, — bærinn getur sjálfur látið gera það, — og eins hitt, að verið sé að styrkja þetta fyrirtæki með fjárframlagi úr ríkissjóði. Hefir því lengi verið haldið fram, að þetta fyrirtæki sé byggt á fjárhagslega traustum grundvelli, og ef svo er, þá er óeðlilegt og algerlega óréttmætt, að ríkissjóður sé að styrkja það. Við verðum stundum hér á þingi að fallast á að styrkja fyrirtæki með fjárframlögum úr ríkissjóði, en þá verður í fyrsta lagi að færa rök að því, að fyrirtækið sé þarflegt, og í öðru lagi, að það hafi ekki nægilegt bolmagn til þess að hefjast af eigin rammleik, ekki nægilega traustan fjárhagslegan grundvöll til þess að það geti borið sig án þess að fá stuðning. Nú verður með sanni sagt um Sogsvirkjunina, að hún er þarflegt fyrirtæki, en það hefir alltaf verið talið fyrirtæki, sem mundi bera sig vel fjárhagslega, og þá væri skapað slæmt fordæmi með því að styrkja það með fjárframlögum úr ríkissjóði. Það er nógu erfitt fyrir ríkissjóð að styrkja þau fyrirtæki, sem berjast í bökkum, þó ekki væri farið líka að styðja þau, sem hægt er að byggja á traustum grundvelli. Síðara atriðið, að leita lögleyfis fyrir Rvíkurbæ til vatnsréttinda, virðist óeðlilegt og óþarft, nema hér liggi fiskur undir steini, sem menn fá ekki að vita um, svo sem vatnsréttindi væru svo óheyrilega dýr, að ekki næði nokkurri átt, en jafnvel þó að svo væri, þá væri þetta samt óþarfi, þar sem Rvíkurbær hlýtur að mega telja þessa sína eigin eign með í stofnkostnaði síns eigin fyrirtækis.

2. brtt. mín er við 6. gr., að orðin „að viðbættum 10%“ falli niður. Hér er um það að ræða, ef einhverjar orkuveitur yrðu gerðar út frá þessu fyrirtæki, þá er skv. frv. Rvík heimilt að leggja á stofnkostnaðinn allt að 10%. Mér virðist, úr því leitað er styrks úr ríkissjóði til þess að koma þessu fyrirtæki í framkvæmd, að þá sé óeðlilegt, ef einhverjir aðrir vilja kaupa orku, þá sé bænum heimilt að leggja álag eða skatt á verð þeirrar orku. Mér sýnist ekki mætti minna vera en að orkan yrði látin af hendi með kostnaðarverði. Annarsstaðar í frv. stendur, að bændum sé skylt að láta í té orku til almennra nota við kostnaðarverði, og það ætti að vera nóg, enda eðlilegast.

Ég gat þess við 2. umr., að ég hefði borið fram till. um aðra lausn á þessu máli, sem felur í sér allt aðra hugsun. Ég hefi borið fram þá hugsun, að þær orkuveitur, sem fyrst eru gerðar, væru látnar styðja þær, sem síðar kæmu og hefðu fjárhagslega veikari grundvöll. Fyrirmyndina fyrir þessari hugsun má finna í veðdeildunum. Ég vona, hvernig sem fer um aðrar brtt. mínar, þá verði þó litið á þessa tillögu. Ég vona, að menn fallist ekki á þá hugsun, sem frv. felur í sér, að því fyrirtæki, sem fjárhagslega er traustast, verði leyft að leggja á hin, sem síðar koma og veikari eru.

3. brtt. mín er við 7. gr. 3. málsgr., sem orðuð er um. Þar segir svo: „Nú hefir virkjuninni safnazt varasjóður þegar ríkissjóður verður meðeigandi hennar samkv. þessari grein, og verður hann þá óskipt eign fyrirtækisins“.

Það er sem sé gert ráð fyrir því, að aðrir en Rvík fái orku úr veitunum og ríkið gerist meðeigandi fyrirtækisins. Þá er ekki í samræmi við rétta hugsun, að sá hluti varasjóðs, sem safnazt hefir af Rvík, skuli haldast í eigu Rvíkur, en ríkissjóður slá eign sinni á þann hluta sjóðsins, sem hefir safnazt utan Rvíkur. Annað tveggja væri rétt, að Rvík héldi sínum hluta varasjóðs eftir sem áður, og þátttakendur utan Rvíkur sínum, eða þá, eins og ég vil, að varasjóður haldi áfram að vera sameign. Það væri slæmt, ef hægt væri að benda á, að löggjöfin væri hlutdræg, ef hægt væri að benda á, að Rvík væri ætlaður annar og meiri réttur en öðrum þátttakendum í fyrirtækinu.

Ég læt svo þessa gagnrýni á frv. nægja og vænti, að hv. þdm. hafi skilizt, að þetta eru allt saman mjög nauðsynlegar leiðréttingar og lagfæringar, og ef þessar brtt. verða samþ., þá tel ég ekki mjög varhugavert, þó frv. verði samþ. En ef þær verða ekki samþ., þá teldi ég ófært, að frv. yrði að lögum, enda held ég því fram, að ekki sé brýn nauðsyn til þess, að það gangi fram á þessu ári.