31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

77. mál, virkjun Sogsins

Frsm. (Ólafur Thors):

Eins og gefur að skilja, hefir n. ekki haft tækifæri til að taka afstöðu til þessara brtt. hv. 1. þm. N.-M., þar sem þær eru svo nýlega fram komnar.

Ég persónulega er á móti því, að 3. gr. verði felld niður, vegna þess, að ríkið kemur til með að hafa sérstakar tekjur af þessari vegalagningu, og það er því ekki nema eðlilegt, að það taki þátt í henni. Með þessari vegalagningu yrði ferðamönnum gert léttara fyrir um skemmtiferðalög, og mundi það því auka ferðamannastrauminn.

Um 2. brtt., að álagningin falli niður, er ég ekki heldur sammála hv. flm. Mér finnst réttara, að það fyrirtæki, sem tekur á sig áhættuna af stofnuninni, jafnvel þó að allar líkur séu til, að það verði arðvænt, að það taki sanngjarnt álag af þeim, sem síðar koma inn í fyrirtækið, með því að það gefur þeim þá aðstöðu til þess að verða aðnjótandi góðs og ódýrs rafmagns. Auk þess er vafamál, þegar rafmagn er selt við kostnaðarverði, hvort þar í beri að telja afborgun á fyrirtækinu.

3. brtt. get ég ekki heldur aðhyllzt; ég álít, að varasjóður verði að vera eign hvers aðila fyrir sig.

Um allar brtt. er það að segja, að þær skipta engu höfuðmáli, en ég get samt ekki verið þeim samþykkur, þó ég feginn vildi til samkomulags við hv. form. nefndarinnar.