27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (3619)

206. mál, sérákvæði um verðtoll

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Fjhn. flytur þetta frv. fyrir tilmæli hæstv. fjmrh. Það er eingöngu afleiðing af brezku samningunum og formsatriði eftir að gengið hefir verið að þeim.

Að því er tollákvæði hér á landi snertir, þá eru það 3 skilyrði í samningum við Breta, sem snerta þau. Fyrsta atriðið er, að við megum ekki hækka þungatoll af þeim vörum, sem taldar eru í 1. gr. frv.

Annað atriðið er, að við megum ekki hækka toll á þeim vörum, sem taldar eru í seinustu málsgr. gr.

Þriðja atriðið er að lækka toll á þeim vörum, sem taldar eru upp í 1. gr. frv. Á þeim vörum er nú 15% tollur, en hann á að lækka niður í 10%. Þetta er það eina atriði, sem breyta þarf í tollalöggjöfinni vegna brezka samningsins, og er frv. algerð afleiðing af því, sem þegar hefir verið gert.