22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Baldvinsson:

Það hefir nokkuð dregizt, að umr. færu fram við stj. hér í d., eins og venja hefir verið til nokkur undanfarin ár við 1. umr. fjárl., en nú var því frestað til þessarar 3. umr. Auðvitað er Alþýðuflokkurinn andstöðuflokkur ríkisstj., og sem eini andstöðuflokkurinn hefir hann sitt af hverju að segja til aðfinningar, þegar talað er um þau verkefni, sem inna átti af hendi.

Í Nd. urðu alllangar umr. við 1. umr. fjárl., og var rækilega bent á þær vanrækslur, sem orðið hafa á framkvæmdastjórninni, og má vera, að ég drepi á það að einhverju leyti; en fyrst vil ég víkja nokkrum orðum að valdatöku stjórnarinnar og þeim verkefnum, sem hún hugðist leysa af hendi.

Þegar núverandi ríkisstj. tók við völdum í fyrra, bárum við þm. Alþýðuflokksins fram vantraust á ríkisstj., þegar stj. taldi ekki þörf á því að leita trausts Alþingis.

Við vildum í fyrsta lagi sýna við slíka atkvgr, að við værum í fullri andstöðu við ríkisstj., og í öðru lagi til þess að láta það koma skýrt fram, hvaða stuðning hún hefði hjá alþm. Framsóknar og Sjálfstæðis. Reyndist það svo, að þeir flokkar stóðu svo að segja óskiptir að stj. og veittu henni traust.

Aðdragandi samsteypustjórnarinnar og fall framsóknarráðuneytisins var öngþveiti það um framgang mála á Alþingi, er stafaði af tregðu Framsóknar til þess að leysa kjördæmamálið, en um það hafði staðið hörð barátta allt frá þingrofinu 14. apríl 1931. Enda lýsti forsrh. því yfir í „program“-ræðu sinni á þinginu í fyrra, að hann teldi sér skylt sem stjórnarforseta að leggja fyrir næsta þing frv. til l. um breyt. á stjórnarskipunarlögum ríkisins, sem fæli í sér sanngjarna lausn þessa máls. Það er vitanlegt, að í fyrra var hægt að knýja fram viðunandi stjórnarskrárbreyt., ef flokkar þeir, Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, sem staðið hafa fyrir kröfunni um breytta kjördæmaskipun síðustu misserin, hefðu látið hart mæta hörðu um afgreiðslu mála í Ed. En Sjálfstæðisflokkurinn kaus heldur að taka tilboðinu um sameiginlega stjórnarmyndun Framsóknar og Sjálfstæðis, og felldi þar með niður kröfuna um framgang stjórnarskrárbreytinga á því þingi. En í stað þess fékk íhaldið í landinu Magnús Guðmundsson í dómsmálaráðherrasætið, og má segja, að hann hafi þar átt ærið verkefni að vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn, til þess að bjarga ýmsum helztu mönnum íhaldsins undan þeim refsivendi, sem fyrrv. dómsmrh. hafði reitt að þeim, sem hann og trúlega gerði.

En þótt sjálfstæðismenn hafi síðan 1931 látið hátt um áhuga sinn fyrir breyttri kjördæmaskipun, þá hafa þeir þó í tvö skipti á afgerandi augnablikum fellt niður baráttu sína fyrir því máli, í fyrra sinn á þinginu 1931, þegar kjördæmanefndin var kosin — og má afsaka það —, og hið síðara sinni, þegar þeir kusu heldur ráðherradóm handa flokksmanni sínum en lausn kjördæmamálsins.

Að því er sumir sjálfstæðismenn sögðu vorið 1932, þá átti þátttaka M. G. í ríkisstj. að vera trygging fyrir því, að leyst yrði kjördæmamálið á yfirstandandi Alþingi. En þótt Alþingi hafi nú setið lengur en þrjá mán. á rökstólum, þá er sú lausn ekki komin ennþá.

En hverju var það nú, sem ríkisstj. lofaði, þegar hún settist að völdum? Mér finnst rétt að rifja það upp í stórum dráttum, þegar nú er verið að ræða um það, hvernig stjórn landsins hafi farið úr hendi.

Ég hefi áður nefnt eitt atriði úr „prógram“ræðu forsrh.: að hann teldi sér skylt að bera fram stjórnarskrárfrv. er fæli í sér sanngjarna lausn þess máls. Í öðru lagi taldi forsrh. hinni nýju stjórn skylt að gæta alls þess sparnaðar, sem við verður komið, án vansæmdar.

Í þriðja lagi ætlaði ríkisstj. að hafa vakandi auga á aðstöðu atvinnuveganna um viðskipti við önnur ríki og gera í því efni allar þær ráðstafanir, sem í hennar valdi stæðu til að hlynna að atvinnuvegunum.

Þá er að líta yfir feril stjórnarinnar til þess að sjá, hversu henni hefir tekizt að framkvæma loforð sín. Ég kem þá fyrst að stjórnarskrármálinu.

Það er vert að taka eftir orðalaginu á yfirlýsingu hæstv. forsrh. í stjórnarskrármálinu í fyrra. Hann telur sér skylt sem stjórnarforseti að leggja fyrir næsta þing frv. til 1. um breyt. á stjórnarskipunarlögum ríkisins, sem feli í sér sanngjarna lausn.

Þessi ummæli mun ráðh. hafa látið falla til þess að friða sjálfstæðismenn. Og það voru ýmsir þá, sem voru svo illgjarnir að geta þess til, að hér væri ráðh. að leika á sjálfstæðismenn. Hann væri í raun og veru búinn að standa við loforð sitt, þegar hann væri búinn að bera fram á þingi frv. til breyt. á stjórnarskránni, sem telja mætti, að fæli í sér sanngjarna lausn þess máls. Og það var því fremur ástæða til grunsemdar, þar sem Framsóknarflokkurinn sendi út opinbera tilkynningu um málið og neitaði því, að um nokkra breyt. væri að ræða hjá flokknum í kjördæmamálinu. En hin „sanngjarna“ lausn málsins hlaut að byggjast á því, að eigi færri en þrír öruggir Framsóknarmenn veittu málinu stuðning í Nd. og a. m. k. einn í Ed. Að öðrum kosti var ekki hægt að koma málinu fram. Og þessu þóttust ýmsir sjálfstæðismenn trúa. En ráðh. hefir efnt loforð sitt og borið fram breyt. á stjórnskipunarlögum landsins. En ekki kalla ég það sanngjarna lausn kjördæmamálsins, sem í frv. fólst, og mjög var það gallað á ýmsa lund. En það er satt, að það var í áttina og betra en núverandi skipulag. Og rétt er líka að geta þess, að hæstv. forsrh. virðist áreiðanlega hafa viljað ganga lengra í réttlætisáttina heldur en flokksmenn hans á þingi. En það má víst kalla einsdæmi, að nokkur forsrh. sé svo fylgissnauður í flokki sínum eins og hæstv. forsrh. hefir reynzt í þessu máli, þar sem ekki einn einasti af fimmtán flokksmönnum hans í Nd. vildi líta við þeirri tölu uppbótarsæta, er hann bar fram í stjórnarskrárfrv. sínu. Og þetta er þó mál, sem ég efast ekki um, að ráðh. vilji af alhug reyna að leysa. En stj. hefir fram að þessu ekki reynzt máttug til þess að koma fram viðunandi lausn á kjördæmamálinu, sem hún þó taldi fyrst verkefna sinna, þegar hún tók við völdum fyrir tæpu ári.

Málið var í dag til umr. í hv. Nd. Fundur var settur kl. 1 til þess að fresta fundi til kl. 5. Nú er nýsettur fundur aftur, og mér er sagt, að búið sé að taka málið út af dagskrá.

Annað atriði í stjórnarskrárræðu hæstv. forsrh. var loforð um að gæta alls þess sparnaðar, sem við verður komið „án vansæmdar“.

Á þinginu í fyrra beitti fjmrh. sér fyrir sparnaði á ýmsum þeim framkvæmdum, er bundnar voru með sérstökum lögum og ætlaðar til þess sérstakar tekjur; á ég þar við bráðabirgðabreyt. nokkurra laga, sem samþ. var á þinginu í fyrra og mun vera samþykkt einnig á þessu þingi. Með þessu var kippt burtu fjárframlagi til verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs, og rofnir með þessu samningar, sem gerðir voru um þetta milli Alþýðuflokksins annarsvegar og Framsóknarflokksins hinsvegar á þinginu 1931, þar sem lögin um tóbakseinkasölu voru samþ. af þessum flokkum með það fyrir augum, að tekjurnar af henni rynnu til verkamannabústaðanna og byggingar- og landnámssjóðs. Þetta var einskonar sparnaður fyrir ríkissjóðinn, sem með lagabreyt. fékk og fær tekjur þær, er sjóðunum voru ætlaðar. En þetta kalla ég ekki sparnað „án vansæmdar“, þar sem í fyrsta lagi voru rofnir samningar, er gerðir voru um ráðstöfun þessa fjár, og í öðru lagi gekk þessi sparnaður út yfir verkamenn og bændur, er þannig voru sviptir því fé, er Alþingi hafði ætlað til þess að bæta húsakynni fátækasta fólksins til sjávar og sveita.

Eins og svo margar aðrar þjóðir stynjum við Íslendingar undir atvinnuleysinu. Til þess að bæta úr því, keppast flestallar þjóðir við að halda uppi opinberum framkvæmdum til þess að hlaupa í skarðið þar, sem atvinnuvegirnir bresta með atvinnu. Verja þjóðirnar til þess offjár og miklu meira en annars er gert á hagstæðari atvinnutímum. En hér er stefnan önnur. Hér hefir verið dregið stórkostlega úr opinberum framkvæmdum, svo sem vega- og brúargerðum. Séu tekin árin 1929 og 1930 og borið saman við árið 1932, þá mun það skipta hundruðum þús. króna, sem minna er lagt til þessara framkvæmda árið 1932 heldur en árin, sem ég nefndi áðan. Þó voru góð atvinnuár 1929 og 1930, en aftur á móti stórfellt atvinnuleysi 1932. Ég segi ekki, að núverandi ríkisstj. sé ein sek um þetta, bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa verið sammála um að draga úr opinberum framkvæmdum árið 1932 og yfirstandandi ár. En stj. lætur sér þetta vel líka og hefir m. a. s. forgöngu um slíkan sparnað. Skyldu þessir stjórnmálaflokkar vera það vitrari en stjórnmálaflokkar með öðrum þjóðum, að þeir hafi réttara fyrir sér um að spara opinberar framkvæmdir og auka á atvinnuleysið í landinu þvert ofan í það, sem aðrar þjóðir gera? — Ég held ekki. Og ég vil ekki kalla þetta sparnað „án vansæmdar“. En þótt stj. sé aðeins meðsek um samdráttinn í framkvæmdum hins opinbera þessi ár, þá er hún þó sek um annað, sem ekki er betra. Hún hefir á hendi yfirstj. framkvæmda á verkum ríkissjóðs og ræður því, hvaða kaupgjald er greitt í vegavinnu og við aðrar framkvæmdir ríkissjóðs.

Þótt undarlegt sé, þá hefir ríkissjóður ávallt verið tregur til þess að greiða það tímakaup eða dagkaup, sem atvinnurekendur í landinu hafa greitt, og að því leyti verið verra að vinna hjá ríkissjóði fyrir verkafólk. Dálítið hefir þetta verið bætt upp með stöðugari vinnu. En þó ekki nándar nærri til fullnustu. Árin 1930 og 1931 gat stj. Alþýðusambands Ísl. haft nokkur áhrif á það við ríkisstj., að kaupgjald í vegavinnu var hækkað frá því, sem í upphafi var ætlunin. En árið 1932 stórlækkaði kaupið við ríkissjóðsvinnuna, um 20% og sumstaðar meira. Kreppunni var kennt um og getuleysi ríkissjóðs. Harkalega er að farið að gera hvorttveggja í senn, að lækka kaupgjald að fimmtungi og minnka jafnframt framkvæmdirnar, og það eru „landsfeðurnir“, stjórn ríkisins, sem að þessu stendur.

Undanfarið hafa bifreiðarstjórar átt kost á því að komast í landsjóðsvinnu austur í sýslum. Kauptaxti þeirra með bifreið er 5 kr. um klukkustund, en kaup það, er þeim er boðið, er aðeins 3,25 kr. um klukkustund og er það miklu lægra en ríkissjóður greiddi í fyrra, og þó náðu bifreiðastjórar þá aðeins mjög óverulegu dagkaupi, þegar kostnaður við bifreið hafði verið dreginn frá. Rétt er að geta þess, að í námunda við helztu kaupstaði og kauptún, þar sem öflug verklýðsfélög eru, hefir ríkissjóður greitt hærra kaup. Ekki af dyggð, heldur af því, að verklýðsfélögin hafa þar getað haft hönd í bagga um hæð kaupgjalds. En þegar dregur frá þessum stöðum, hefir ríkissjóður getað náð sér niðri.

Þetta er náttúrlega sparnaður, en ég kalla það ekki sparnað „án vansæmdar“. Þessu má líkja við það — þótt ekki sé það bókstaflega eins —, þegar bófar lokka einfalda meðbræður sína á afvikinn stað til þess að ræna þá fjármunum þeirra. Mér finnst hún hafa verið heldur stjúpmóðurleg, umhyggjan, sem ríkisstj. hefir borið fyrir verkalýð landsins, bæði til sjávar og sveita. Kauplækkun og minnkuð atvinna hefir það verið, sem ríkisstj. hefir haft að bjóða þessari fjölmennu stétt þjóðfélagsins.

Ég þykist vita, að ríkisstj. muni benda á, að í núgildandi fjárlögum sé allstór fjárhæð ætluð til uppbótar vegna atvinnuleysis. Ójá, að vísu er fjárhæð ætluð til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, en það var ekki þrautalaust í fyrra að fá ríkisstj. til þess að fallast á þá tillögu, og ekki veit ég fyrir víst enn, hve mikið af því hefir verið notað, en eitthvað mun það vera.

Í fjárlagafrv. því, sem fyrir liggur, er ekkert ætlað til atvinnubóta sérstaklega. Fulltrúar Alþýðuflokksins í Nd. fluttu till. um að veita til atvinnubóta eina millj. kr., gegn jafnháu framlagi annarsstaðar að, og jafnframt heimild handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast lán í sama skyni, handa kaupstöðum og kauptúnum. Sömu till. flutti ég einnig við 2.umr. fjárl. hér í hv. Ed. En framsóknarmenn og íhaldið, nær undantekningarlaust, gengu á móti þessum till. og felldu þær með yfirgnæfandi meiri hl. atkv. gegn atkv. okkar Alþýðuflokksþm. og örfárra annara.

Nú hefi ég borið fram og talað fyrir till. um fjárveitingu til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum, að upphæð 750 þús. kr., gegn jafnháu tillagi annarsstaðar frá og með sama formála og áður segir.

Það hafa verið leidd að því sterk rök, að atvinnuástandið í landinu sé svo bágborið, að full þörf sé á svo mikilli eða enn meiri fjárhæð, til þess að allt slampist þó nokkurn veginn af, eftir því sem nú verður séð. En engin rök duga.

Hv. fjvn. þessarar d. hefir nú við síðustu umr. borið fram till. um 300 þús. kr. fjárveitingu til atvinnubóta, hefir sú till. nú verið samþ. Þykjast þeir þá víst gera vel. En ég vil óska og vona, að ástandið í landinu hjá okkur verði ekki verra en það á næsta ári, að þessi fjárhæð dugi til að bæta úr brýnustu þörfum hjá atvinnulausu verkafólki. En því miður býst ég ekki við því, eins og ástandið er nú, og byggi ég það álít mitt á þeim skýrslum um atvinnuleysi, sem fyrir hendi eru, að þessi fjárhæð sé nægilega há. Ýtarlegar skýrslur hafa verið gerðar um fjárhag allra bænda í landinu, og á slíkum skýrslum er svo byggt frv. það um kreppulánasjóð, sem nú liggur fyrir þessari hv. d., og ætlazt er til, að kosti liðlega 12 millj. kr. Auk þess hefir verið samþ. till. um að bæta bændum upp lágt kjötverð á komandi hausti með 400 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði.

Það er fullkomin skylda Alþingis að hlaupa undir bagga með bændastétt landsins, þegar hún er nauðulega stödd. Og fulltrúar Alþýðuflokksins á þingi hafa jafnan verið með um skynsamlegan stuðning við bændastéttina, og mun svo verða áfram. En það má aðeins ekki gera upp á milli þessara aðalstétta landsins. Verklýðsstéttin er engu síður nauðulega stödd en bændurnir vegna langvarandi atvinnuleysis, og því ber Alþ. jafnmikil skylda til þess að taka kröfur verklýðsstéttarinnar til greina, eins og kröfur bændanna. En mér þykir mikið tómlæti ríkja um það hjá hv. ríkisstj. og stuðningsmönnum hennar.

Þriðja atriðið í stefnuskrá ríkisstj. var það, að „hafa vakandi auga á aðstöðu atvinnuveganna um viðskipti við önnur ríki, og gera í því efni allar þær ráðstafanir, sem í hennar valdi eru, til að hlynna að atvinnuvegunum“.

Það mun nú mörgum landsmanna finnast sem ríkisstj. hafi ekki ávallt haft „vakandi auga á aðstöðu atvinnuveganna um viðskipti við önnur ríki“. Þeir munu fleiri, sem því vilja trúa, að ríkisstj. hafi haft lokuð augu fyrir þörf síldarútgerðarinnar íslenzku, þegar hún beitti sér fyrir samþykkt norsku samninganna. En það mál er svo rætt hér á þingi, að ég mun ekki fara nánar inn á það, en aðeins benda á, að ríkisstj. hefir ekki heldur um þetta atriði stefnuskrár sinnar tekizt að uppfylla þau loforð, sem hún gaf við valdatöku sína.1)

Á svipuðum grundvelli eru margar af þessum kærum byggðar, og ástæðan fyrir því að gefa út umfangsmikinn lagabálk, svo að hægt sé að dæma menn í sektir eða fangelsi fyrir mótþróa gegn lögreglunni. Undarlegt þótti mér að heyra það, að í vetur, þegar þessi mál voru til meðferðar, þá gat ríkisstj. fullvissað þessa menn um það, að þeir mundu fá skilorðsbundinn dóm, og að stj. gat sagt þetta áður en búið var að rannsaka þessi mál. Atburðirnir 9. nóv. gáfu ríkisstj. kærkomin tækifæri til að koma upp ríkislögreglu. Framsóknarflokkurinn fellst á það einnig að hafa ríkislögreglu hér í Rvík. Þetta mál hefir legið fyrir þinginu all-lengi og er nú á dagskrá.

Ég vil nú minna hæstv. ríkisstj. á það, að hún hefir enga heimild í neinum lögum fyrir greiðslu á fé til þessarar ríkislögreglu. Það fé, sem hún hefir greitt nú til þessa, er mér sagt, að sé um 1100 kr. á dag. Mér er sagt, að það sé á þriðja hundrað þús. kr., sem ríkislögreglan er búin að kosta. En þetta hefir verið greitt til hennar í algerðu heimildarleysi, og því mjög í ósamræmi við þau fögru loforð, sem hæstv. forsrh. gaf við valdatöku sína, þegar hann taldi sér skylt að gæta alls sparnaðar „án vansæmda“. Þetta er jafnmikil eyðsla á hluta úr ári, eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn yfir árið ætla að veita til atvinnubóta fyrir verkalýðinn í landinu, á þessum erfiðu tímum. Það hefir verið samþ. í dag, að lagðar verði til atvinnubóta í kaupstöðum og kauptúnum 300 þús. kr., og í dag mun vera búið að eyða á þriðja hundrað þús. króna til lögreglunnar, svo að eftir árið verður kaup til þessara 100 lögreglumanna orðið meira en það, sem veitt er til atvinnubóta þeim

1) Hér vantar kafla í ræðuna, sem var flutt af blöðum og útvarpað. Var ræðukaflinn afhentur þingskrifara, en hefir glatazt. Heldur ræðan þar áfram, sem deilt er á ríkisstj. fyrir ríkislögregluna. — JBald.

mikla fjölda verkamanna, sem stynur undan böli atvinnuleysisins og fátæktarinnar.

Stjórnarskrármálið situr fast í Nd. og ekki er vitanlegt neinum hvernig eða hvenær það kemur til Ed., eða hvort það gengur fram. Vonandi verður það, en hæstv. stj. hefir ekki tekizt enn að leysa þetta fyrsta atriði á prógrammi sínu. Henni hefir tekizt að spara við fátækasta hluta þjóðarinnar, en það kalla ég ekki, að sé gert „án vansæmdar“. En aftur hefir hún eytt stórfé til ríkislögreglu í heimildarleysi og því ekki heldur „án vansæmdar“. Ekki hefir hún haft vakandi auga á þörfum atvinnuveganna í viðskiptunum við önnur ríki, heldur þvert á móti lokað augum sínum fyrir þörfum mikils hluta íslenzkra sjávarútvegsmanna, a. m. k. þeirra, sem síldveiði stunda. Þingið er nú búið að standa í 97 daga, og fyrsta stefnumál stj. er enn óútkljáð. Stj. hefir tekizt illa að leiða málin fram á þingi. Hún hefir skaðað með því lýðræðið, sem þjóðin hefir hingað til byggt á, með því að hafa ekki tök á því með flokkum sínum að leiða helztu málin fram á þingi með hæfilegum hraða. Mönnum hefir með réttu fundizt, að þingið hafi sýnt tómlæti við afgreiðslu mála. Alls ekki er hægt að afsaka það með því, að stj. hafi ekki nægilegt fylgi í þinginu. Bak við stj. standa 38 þm. í 2 flokkum, en aðeins 4 þm. eru í andstöðu við hana. Það hefir ekkert komið fram, sem bendi til annars en að stj. hafi þetta fylgi. Þetta seinlæti stj. hefir komið óorði á þingið, sem hefir gefið öfgaflokki í landinu byr undir báða vængi, sem getur orðið þjóðinni til skaða og þinginu til skammar.