03.05.1933
Neðri deild: 64. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Eins og frv. þetta ber með sér, er það flutt af allshn. eftir tilmælum Verzlunarráðs Íslands. Í grg. er sagt, hverjar orsakir eru til þess, að frv. er fram borið. Verzlunarráðið hefir séð um samningu þess. Hefir það síðan verið borið undir ýms sérfélög innan verzlunarstéttarinnar og hlotið einróma samþykki þeirra.

Ég hefi reynt að kynna mér álit þeirra manna innan verzlunarstéttarinnar hér á þessu frv., sem ég veit, að bera heill og heiður verzlunarstéttarinnar íslenzku mjög fyrir brjósti. Og þeir hafa tjáð mér, að þeir teldu nauðsyn bera til að samþykkja löggjöf í þessa átt. Hefi ég ekki orðið annars var en verzlunarmenn yfirleitt hafi áhuga á því að færa löggjöf okkar að þessu leyti í svipað horf og hjá nágrannaþjóðum okkar. Það er vitanlegt, að frv. er samið að miklu leyti með tilliti til hliðstæðra laga í Danmörku. En dönsku lögin um þetta efni voru á sínum tíma mjög sniðin eftir þýzkri verzlunarlöggjöf, og í Þýzkalandi er talið, að löggjöfin, sem verzlunarmálefni snertir og siðgæði í verzlunarháttum yfir höfuð, sé á mjög háu stigi.

Hér á landi hefir vöxtur verzlunarstéttarinnar síðan verzlunarfrelsi var lögleitt verið allmikill. Og vitaskuld eru mörg dæmi þess í hinni hörðu samkeppni milli verzlunarfyrirtækja, að gengið hefir verið feti framar heldur en fyllilega er hægt að telja rétt, til þess að afla sér viðskipta, þ. e. a. s. að stundum hafa verið notaðar ýmsar aðferðir, sem ekki eru hollar viðskiptalífinu. T. d. hefir nokkuð borið á því, að reynt hefir verið að lokka menn til að kaupa vörur með því að gefa einhverskonar kaupbæti, e. t. v. alveg óskyldan þeirri vörutegund, sem verið er að reyna að koma út. Einnig hefir borið á því, að útsölur hafa verið notaðar óhæfilega mikið til þess að vekja athygli á sérstökum verzlunum. Hefir stundum verið gengið svo langt, að fullyrt hefir verið, að þessa eða hina verzlun ætti að leggja niður, og þess vegna ætti allt að seljast. Fólk hefir verið lokkað til að kaupa á þeim grundvelli, og svo hefir verzlunin haldið áfram eftir sem áður — aldrei ætlað að hætta.

Í þessu sambandi má nefna firma eitt hér í bænum, sem lagt hefir fyrir sig að framleiða og verzla með kaffibæti. Hefir það lagt fram stórfé í kaupbætisgjöfum, til þess að reyna að vinna bug á öðrum fyrirtækjum í sömu grein. Hinn heilbrigði hugsunarháttur í viðskiptalífinu virðist hinsvegar eiga að vera sá, að hver vörutegund skuli standa og falla með sínum eigin verðleikum, að ekki megi nota neinar uppbætur eða mútugjafir, sem auka söluna á öðrum grundvelli en þeim, að varan sé betri heldur en hliðstæður varningur hjá öðrum. Það er nauðsynlegt fyrir hina íslenzku verzlunarstétt að taka upp háttu þeirra þjóða í þessum efnum, sem standa okkur feti framar í verzlunarþekkingu og verzlunarþroska, og því er þetta frv. fram komið.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að þó allshn. í heild tæki að sér að flytja þetta mál, þá hafa einstakir menn innan hennar áskilið sér rétt til þess að koma með brtt. við frv.

Um einstakar gr. frv. þarf ég ekki að fjölyrða; þær eru skýrðar hver fyrir sig í grg. frv. Bannaðar eru allar óréttmætar auðkenningar á vörum og óhæfilegar auglýsingaaðferðir, sem fela í sér tilraunir til að blekkja almenning. Í 5. og 6. gr. eru til dæmis ákvæði um það, ef fólk er blekkt til að koma í verzlanir með auglýsingum um útsölur, sem í raun og veru eiga sér ekki stað. Þá er hér líka farið inn á svið uppboða. Í 7. gr. eru ákvæði, sem eiga að tryggja það, að rétt sé skýrt frá um það, hvaðan þeir munir eru, sem boðnir eru upp. Ef t. d. selja á bækur eftir merkan bókamann, dregur það að sér ýmsa þá, sem áhuga hafa fyrir góðum bókum. En ef ætti að nota sér það til að koma út einhverju ómerkilegu rusli um leið, undir því yfirskini, að það væri allt frá þessum þekkta bókamanni, þá kæmi það í bága við þessi ákvæði, ef frv. verður að lögum.

Í 10. gr. er gerð tilraun til að koma í veg fyrir með skýrum lagaákvæðum, að menn geti með illu umtali um keppinauta sína spillt fyrir þeim og haft af þeim viðskipti bótalaust og án þess hegning nái til. Í 11. gr. eru sett ákvæði til varnar því, að starfsmenn atvinnufyrirtækja misnoti aðstöðu sína með því að spilla fyrir því fyrirtæki, sem þeir áður hafa unnið við, þegar þeir hafa látið af starfi sínu og e. t. v. eru farnir að keppa við fyrrv. húsbændur sína. Það leiðir af sjálfu sér, að það er ekki heilbrigt, ef maður, sem starfað hefir við fyrirtæki og af þeim ástæðum komizt að ýmsum trúnaðarmálum þess, notar þá þekkingu síðar sjálfum sér til framdráttar, en fyrrv. húsbændum til skaða.

13. gr. er um það, hvað gefa má sem kaupbæti. Með ákvæðum hennar á að koma í veg fyrir, að óskyldum atriðum og óskyldum hlutum sé blandað saman í verzlun og með því reynt að afla vörutegund vinsælda með öðru heldur en verðleikum hennar sjálfrar.

Í 14. gr. er sett bann við því, að smásalar setji útsöluverð vörutegunda niður fyrir það lágmark, sem framleiðandi vörunnar ákveður, þegar svo ber undir, að framleiðandi vöru, sem seld er á mörgum útsölustöðum, setur á hana lágmarksútsöluverð, til þess að tryggja, að framleiðsla hennar og verzlun með hana verði lífvænlegur atvinnuvegur.

Ég mun svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég vona, að hv. þdm. skilji, að hér er nauðsynjamál á ferðinni, bæði fyrir verzlunarstéttina og almenning, sem við hana skiptir, og þar með þjóðina í heild. Íslenzka verzlunarstéttin er á ýmsum sviðum mjög dugleg og framtakssöm. En hana vantar, e. t. v. af eðlilegum ástæðum, að sumu leyti þann þroska, sem æskilegur er í heilbrigðu og öflugu viðskiptalífi, sem verða má landi og þjóð til þrifa.

Þar sem frv. er komið frá n., vænti ég, að hv. d. fallist á að vísa því til 2. umr. án þess að vísa því til n. aftur. Þeir, sem áhuga hafa á málinu, geta kynnt sér það og komið fram með brtt. við 2. umr., ef þeim finnst ástæða til, jafnt fyrir því.