22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Þorláksson:

Ég hefði viljað nota tækifærið til að gera að umtalsefni nokkur atriði, sem standa í nánu sambandi við fjárl. og fjárhag ríkisins.

Aðfinnslur geta komið fram í tvennskonar tilgangi: til þess að deila á og rífa niður, og til þess að vanda um, svo að um verði bætt og uppbyggt. Mín aðferð verður af síðara tæginu. Stafar það auðvitað af afstöðu minni til stj., og auk þess liggur það í skapferli mínu, að mér er geðfelldara að reyna að fá umbætur en að greiða högg fyrir það, sem ekki verður úr hætt.

Við 2. umr., er nál. fjvn. lá fyrir, sagði frsm., að höfuðatriðið væri að afgreiða fjárl. tekjuhallalaust. Þetta ætti og svo að vera, en það getur því aðeins orðið, að þingið gæti þeirrar skyldu að taka öll sjáanleg útgjöld ríkissjóðs upp í frv. Hitt er að villa mönnum sýn, ef stofnað er til ýmissa útgjalda í sérstökum lögum eða heimildum í síðustu greinum fjárlfrv. Um þetta álít ég, að þingið hafi ekki verið nægilega skyldurækið á síðari árum, og fjárl. því ekki sýnt nægilega skýra mynd af útgjöldum ríkisins. Fjárhagur ríkisins er flestum áhyggjuefni, og mér ekki síður en öðrum. Auknar skuldir ríkissjóðs og versnandi afkoma atvinnuveganna kom svo ljóst fram á síðasta þingi, að auðsætt var, að hverfa varð af þeirri eyðslubraut, sem farin hafði verið árin 1928-1932. Var því reynt af Sjálfstæðisflokknum að koma því til leiðar, að athugað væri, hvar mætti spara, annaðhvort með beinum niðurfærslum eða þá skipulagsbreytingum. En gegn þessu kom fram mótstaða, sem mér var alveg óskiljanleg. Þó var skipuð 3ja manna n. til að athuga þessi mál. Frá nefndinni kom svo þáltill. á þskj. 562 á þinginu 1932, þar sem skorað var á stj. að láta jafnan fylgja fjárl.frv. annað frv. um tölu starfsmanna, er hafa þyrfti við hverja grein ríkisstarfrækslunnar. Ég beitti mér fyrir því, að þetta yrði gert í sambandi við núgildandi fjárl. þótt það fengist ekki. En umr. fólu í sér loforð um að þetta yrði gert nú og hér eftir. Ég sakna þess, að stj. hefir látið undir höfuð leggjast að bera nokkurt slíkt frv. fram. Ég veit að slík lagasetning knýr fram athugun á því, hvaða starfsmanna er þörf og hverra ekki. Það, að þetta hefir fyrirfarizt, knýr fram ótta um, að þessi athugun hafi ekki farið fram, og tel ég það illa farið, og skora því fastlega á stj. að láta þetta mál ekki niður falla, heldur taka það þegar til athugunar.

Þá vil ég víkja nokkuð að strandferðunum. Mér er að vísu kunnugt um, að hið síðasta ár hefir verið reynt að gæta þar ýtrasta sparnaðar með því að draga úr ferðunum og láta annað skipið liggja oftast nær. En mér var ljóst, að hér þyrfti skipulagsbreyt. á þann hátt að ná samningum við Eimskipafélagið um að taka að sér strandferðirnar fyrir eiginn reikning. Ég sakna þess, að ekkert í þessa átt hefir komið fram frá hæstv. stj.

Í sambandi við þetta vil ég minnast á þá stofnun ríkisins, þar sem öllum landsmönnum til undrunar hefir haldið áfram sama lélega stjórnin og hóflausa eyðslan og áður. Ég veit, að allir skilja, að ég á við útvarpið. Ég vil ekki eyða orðum að þeirri sorgarsögu, þegar það vitnaðist fyrir harðfengi blaðs hér í bænum, að stjórn þessarar stofnunar hefði ekki sýnt þá ráðvendni í meðferð opinbers fjár, sem verður að krefjast. Ég segi þetta ekki til að ýfa upp sár þess ógæfumanns, sem þetta komst upp um, heldur af því, að hætta er á, að tilfinning almennings fyrir slíkum afbrotum sljóvgist, ef þau eru látin liggja í þagnargildi. Ég get bent á eitt átakanlegt dæmi um þetta. Það, sem varð til að koma þessu útvarpshneyksli upp, var það, að bifreiðarstjóri léði blaði hér í bænum aðgang að bókum sínum, er sýndu, hvernig viðskiptin höfðu farið fram. Skömmu síðar kom yfirlýsing frá stöðinni, er maður þessi keyrði frá, um að stöðin hefði engan þátt átt í því, að þetta kom fram. Þetta kom óþægilega við mig, að velsæmistilfinning almennings skuli vera farin að sljóvgast svo, að menn afsaki það, að misfellur sem þessar komist upp. En fyrir utan þetta, sem ég álít, að hæstv. stj., og þá auðvitað sá ráðh., sem það heyrir undir, hæstv. atvmrh., hefði átt að taka fastari tökum á, þá er það á allra vitorði, að við þessa stofnun er eytt meiru fé en vera ber, vegna þess að því er virðist, að forstjórinn er ekki þeim hæfileikum gæddur, sem þarf til þess að stjórna nokkuð umfangsmiklu fyrirtæki, svo að í lagi sé. Þess er heldur ekki að vænta, því við val framkvæmdarstjórans var ekki farið eftir neinum þeim grundvallarreglum, sem auðvitað verður að gæta undir slíkum kringumstæðum, ef vel á að fara. Það var tekinn maður, sem að sjálfsögðu má segja ýmislegt gott um, ritfær vel á íslenzkt mál og hafði verið blaðamaður um langt skeið eftir smekk og óskum töluverðs hluta þjóðarinnar, þó öllum líkaði ekki starf hans á því sviði. En hann hafði aldrei komið nálægt neinu, sem líktist því að stjórna stóru fyrirtæki, sem margt fólk vinnur við, og þar sem sjá þarf um, að ekki sé eytt meiru heldur en nauðsyn krefur. Ég álít, að sérhver stj. verði að gæta þess vandlega að velja aldrei aðra menn til þess að veita fyrirtækjum forstöðu en þá, sem sýnt hafa á einhvern hátt, að þeir séu til þess hæfir. Það má ekki búast við, að stjórn fyrirtækja fari vel úr hendi, ef þessa er ekki gætt.

Ég gæti náttúrlega nefnt ýms fleiri dæmi og fleiri svið, þar sem nauðsyn yfirstandandi tíma krefst, að tekið sé fastari tökum á niðurfærslu útgjalda heldur en hæstv. stj. virðist hafa gert ennþá, en ég læt þetta nægja hvað snertir það efni sérstaklega. Þó get ég ekki leitt hjá mér að gera ofurlitla grein fyrir því, máli mínu til frekari stuðnings, að ég álít, að fjárhagur landsins sé orðið verulegt áhyggjuefni. Í landsreikningi þeim fyrir árið 1931, sem lagður hefir verið fyrir þetta þing, er gerð grein fyrir því, að skuldir ríkisins voru í lok þess árs um 39½ millj. kr. Þar af voru um 24½ millj. kr., sem gera verður ráð fyrir, að gjaldþegnar landsins verði með sköttum og öðrum gjöldum að standa straum af að mestu eða nær öllu leyti. Eftir því sem ráða má af skýrslu þeirri, sem hæstv. fjmrh. gaf í byrjun þessa þings, ætti að hafa bætzt allt að 1½ millj. kr. þarna við á árinu 1932, og væri þessi skuldabyrði þá komin upp í 26 millj. kr. Ég skal geta þess til samanburðar, að í árslok 1927 mun tilsvarandi skuldabyrði ekki hafa numið hærri upphæð en milli 11 og 12 millj. kr. Ég þykist vita, að margir muni vera mér sammála um það, að þessi skuldabaggi sé nú orðinn það mikill, að það geti í raun og veru á engan hátt verið áhættulaust fyrir fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar að auka hann enn meir. En samt er það nú svo, að fyrir þessu þingi liggja lagafrv., sem fara fram á að auka ennþá skuldabyrðina með ráðstöfunum á þessu eina ári um e. t. v. allt að 10 millj. kr. Ég tel það skyldu mína að láta til mín heyra aðvörunarorð út af þessu. Ég er sannfærður um, að það tjáir ekki að líta svo á, að óhætt sé að halda áfram á þessari skuldasöfnunarbraut með þeim hraða, sem verið hefir og virðist ennþá vera, í því trausti, að ekki þurfi annað en leggja á nýja skatta og hækka skatta á landsmönnum. Ég er sannfærður um, að skattaálögur ríkis og sveitarfélaga eru þegar komnar á svo hátt stig, að það er mjög varhugavert að ætla sér að hækka þær meira, og efasamt, hvort stórfelld hækkun fram úr því, sem nú er, mundi verða til að hækka tekjur ríkissjóðs, hvort hún mundi ekki einungis verka í þá átt að lama þá tekjustofna, sem hækkunin lenti sérstaklega á.

Ég vil ekki neita mér um að nota þetta tækifæri til þess að endurtaka, með leyfi hæstv. forseta, þær samþykktir, sem nýlega afstaðinn landsfundur sjálfstæðismanna gerði um þessi mál. Þær hafa að vísu birzt áður opinberlega, en af því ég tel, að þær feli í sér þau grundvallaratriði, sem landsmenn verða nú að hafa fyrir augum við val þingmanna við hverjar kosningar, sem fram fara í náinni framtíð, þá vil ég endurtaka þær hér. Þær eru svo hljóðandi:

„Landsfundur sjálfstæðismanna telur óhjákvæmilegt, að stöðvaður verði tekjuhalli sá, sem verið hefir á ríkisbúskapnum undanfarin ár, og skorar á þingmenn flokksins að beita sér fyrir því máli þannig:

1. Með niðurfærslu á gjöldum ríkissjóðs, einkanlega með burtfellingu óþarfra starfsmanna, samræmingu launakjara og skipulagsbreytingu til sparnaðar, þar sem við verður komið.

2. Með því að leggja niður ónauðsynlegar ríkisstofnanir, eða selja þær og losa þannig fjármagn það, sem nú er bundið í þeim. Vill fundurinn, þar með telja tóbakseinkasöluna, viðtækjaverzlunina, landssmiðjuna og ríkisprentsmiðjuna. Þar með leggur fundurinn einnig áherzlu á það, að sem fyrst verði samið við Eimskipafélag Ísl. um, að það taki að sér strandferðirnar fyrir eigin reikning.

3. Með því að afnema innflutningshöftin að öðru en því, sem innflutningurinn takmarkast af óhjákvæmilegum gjaldeyristakmörkunum, en hækka í þess stað, til bráðabirgða, verðtollinn á hinum óþörfustu vörutegundum.

4. Ef óhjákvæmilegt þætti að afla ríkissjóði frekari tekjuauka í bili, telur fundurinn tiltækilegast, að það væri gert með sem lægstum og sem jöfnustum viðauka, eigi yfir 10%, á alla eða flesta núverandi tekjustofna ríkissjóðs.

Ennfremur leggur fundurinn áherzlu á það, að eigi verði með nýrri löggjöf bætt útgjöldum á ríkissjóð, umfram allra brýnustu nauðsyn“.

Ég vil nú sérstaklega taka undir þetta síðasta atriði eins og nú stendur á, því það liggja fyrir þinginu æði mörg frv., sem fara fram á aukin útgjöld í ýmsum myndum. Mörg þeirra bíða enn eftir afgreiðslu, og ég álít, að fjárhagur ríkisins heimti það, að við sýnum sem mesta sjálfsafneitun við afgreiðslu þeirra, að við neitum okkur um sem mest um uppfyllingu þeirra óska, sem fjárhagur ríkisins er í raun og veru ekki fær um að uppfylla.

Þá er eitt mál annað, sem ekki snertir beinlínis fjárhag ríkissjóðs, en hefir þó mjög mikla þýðingu fyrir fjármálalíf landsins, sem ég vil minnast á, og það er verðbréfaverzlunin í landinu og öll sú fjárhagslega starfsemi, sem stendur í sambandi við fasteignalánastarfsemina í landinu. Aðalstofnun landsmanna á þessu sviði er eins og kunnugt er veðdeild Landsbankans. Hún hefir veitt fasteignalán gegn 1. veðrétti í fasteignum, sem nema nú sem stendur milli 25 og 27 millj. kr. Starfsemi hennar heldur stöðugt áfram, en nú hafa bætzt við hliðstæðar stofnanir til þess að annast fasteignalánastarfsemi á takmörkuðum sviðum, sem er ræktunarsjóðurinn, með útgáfu jarðræktarbréfanna, og svo veðdeild Búnaðarbankans, sem veitir alveg hliðstæð lán í sveitum eins og veðdeild Landsbankans veitir hvar sem er á landinu.

Starfsemi veðdeildar Landsbankans var hagað þannig á árunum 1926 til 1930, að veðdeildin veitti lán gegn 1. veðrétti í fasteignum, að vísu að forminu til í veðdeildarbréfum, en þannig, að aðrar deildir bankans keyptu bréfin af þeim lántakendum, sem þess óskuðu, og var gengi þeirra meðan bezt lét kringum 90 af hundraði, en síðari hlutann af þessu tímabili 87,50 kr. fyrir hverjar 100 kr. nafnverðs. Þetta mátti eftir landshögum öllum teljast viðunandi afgreiðsla á þessu sviði. En seint á árinu 1930 var orðið svo kreppt að öðrum deildum bankans, seðlabankanum og sparisjóðsdeildinni, að þær sáu sér ekki lengur fært að kaupa veðdeildarbréfin af lántakendum eins og áður. Var búizt við, að það ástand yrði aðeins um stundarsakir, og beið því fjöldi manna í nokkra mánuði með að selja veðdeildarbréf sín, í þeirri von, að úr rættist fyrir bankanum, svo hann hæfi bréfakaupin aftur. Þetta brást, og það er skemmst af því að segja, að síðan Landsbankinn hætti að kaupa veðdeildarbréfin hefir hann ekki byrjað á því aftur. Eigi að síður hefir starfsemi veðdeildarinnar orðið að halda áfram, og hafa lántakendur þá ekki átt annars kost en að selja bréfin sjálfir fyrir bezta verð, sem þeir gátu fengið. Hefir því myndazt á þeim nokkurskonar gangverð manna á milli, og hefir það verið allmikið lægra en kaupverð Landsbankans áður. Það hefir jafnvel komizt nokkuð niður fyrir 70 af hundraði það ég veit, og leikur svo þaðan og upp í 75 af hundraði, sem telja má gangverð bréfanna nú.

Það er mjög óheppilegt fyrir atvinnulífið í landinu, og þá sérstaklega fyrir atvinnu þess verkafólks, sem vinnur að byggingum hér í bænum, að það skuli vera eins lítið jag á þessum hlutum og raun ber vitni um. En því geri ég þetta að umtalsefni hér, að til er eitt ákvæði í lögum, sem til þess er sett að gera á þessu þá umbót, sem unnt væri að gera án sérstakra fjárframlaga. Á ég þar við 63. gr. 1. um Landsbanka Íslands. Þar er svo mælt fyrir, að þangað til sett verði lög um opinbera verðbréfaverzlun og kaupþingsskráningu verðbréfa, skuli bankanum skylt að kaupa af almenningi og selja almenningi trygg innlend verðbréf, sem ræðir um í 29. gr. sömu 1., við gangverði, sem ákveðið sé af bankaráði að fengnum tillögum framkvæmdarstjórnar eigi sjaldnar en einu sinni á viku, og birt almenningi með auglýsingu á áberandi stað í aðalafgreiðslustofu bankans og útibúum hans. Þó er bankinn undanþeginn skyldum þeim, er ræðir um í þessari grein, annaðhvort um kaup eða sölu, ef eign bankans í slíkum verðbréfum fer fram úr því eða niður fyrir það, sem framkvæmdarstjórn bankans telur hæfilegt. Ákvæði þessi þýða það, að Landsbankanum er skylt að birta jafnan í afgreiðslustofu sinni annaðhvort það verð, sem hann vill kaupa umrædd verðbréf fyrir, eða sem hann vill selja þau fyrir. Hann er ekki skyldur til að kaupa bréfin þegar hann telur sig hafa nóg af þeim, en hann er þá skyldur til að auglýsa söluverð þeirra.

Það eru nú tilmæli mín til hæstv. stj., að vegna þeirra margvíslegu hagsmuna, sem við það eru bundnir, að öll verðbréfaviðskipti manna á milli fari fram á heilbrigðum grundvelli, sjái hún um, að Landsbankinn vanræki ekki lengur þá skyldu, sem honum er hér lögð á herðar og ekki þarf að kosta hann nein fjárútlát eða óþægindi, svo ég viti til. Ákvæði 63. gr. Landsbankalaganna á að tryggja það, að til sé á hverjum tíma opinberlega skráð verð á þessum verðbréfum, og það skráða verð er þá til leiðbeiningar öllum þeim, sem kaupa bréfin eða selja.

Nú er það svo, að ýmsir opinberir sjóðir leggja fé sitt í kaup á slíkum verðbréfum, og það er hollt og eðlilegt. En það vantar mælikvarða á, hvað stjórnir slíkra sjóða eiga að gefa fyrir verðbréfin. meðan engin opinber skráning fer fram. Og ég er hræddur um, að nokkur brögð hafi verið að því, að forráðamenn opinberra sjóða hafi gert það fyrir kunningja sína að kaupa af þeim t. d. veðdeildarbréf fyrir talsvert hærra verð heldur en gengi þeirra hefir yfirleitt verið manna á milli á frjálsum markaði. Þeir geta haft það sér til afsökunar, að ekkert skráð verð sé fyrir hendi. Hinsvegar ættu verðbréfakaup opinberra sjóða að verka í þá átt, að halda uppi verði bréfanna almennt, og þar með gera mönnum kost á ódýrari og hagkvæmari fasteignaveðslánum, ef kaupverðið fylgir eftir opinberlega skráðu verði. Ég veit, að það getur staðið svo á um einstaka sjóði í einstaka tilfelli, að réttmætt sé, að þeir kaupi þessi verðbréf hærra verði heldur en skráð er. Svoleiðis var t. d. þegar stjórn lífeyrissjóðs barnakennara tók ákvörðun um að styrkja barnakennara til húsabygginga með því að kaupa af þeim veðdeildarbréf; undir slíkum kringumstæðum tel ég stjórnir sjóða sjálfráðar um, hvaða verð þær kaupa bréfin fyrir. En þegar ekkert slíkt kemur til greina, er ekki hægt að segja, að forráðamenn sjóða fari að eins og vera ber, ef þeir kaupa verðbréf hærra verði heldur en vitanlegt er, að þau eru fáanleg fyrir í viðskiptum manna á milli.

Að lokum ætla ég svo í þessu sambandi aðeins að minnast á löggjöf, sem sett var á síðasta þingi og ég var nokkuð við riðinn, af því ég átti sæti í þeirri n., sem um málið fjallaði, fjhn. þessarar hv. d. Á ég við 1. um Brunabótafélag Íslands. Sjóður þeirrar stofnunar er nú orðinn einn af stærstu opinberu sjóðum landsins; fer hann vaxandi og þarf því að koma fé sínu fyrir til ávöxtunar. Í 1. þau, sem ég gat um, var sett ákvæði um fjárvarðveizlu þessa sjóðs. Er svo fyrir mælt, að sjóðir félagsins skuli ávaxtaðir í fyrsta lagi sem handbært fé á vöxtum í peningastofnunum, sem fjmrh. samþykkir, og í öðru lagi í tryggum handhafaverðbréfum, sem fjmrh. samþykkir. Ég minnist á þetta í sambandi við það, sem ég sagði um nauðsyn gengisskráningar veðdeildarbréfa og annara slíkra verðbréfa, vegna þess að það þarf að vera svo, þegar stofnanir eins og Brunabótafélag Íslands kaupa slík verðbréf, að verð þeirra geti farið eftir einhverri opinberri skráningu, svo enginn grunur geti komizt að um, að annað verð sé gefið fyrir þau heldur en rétt er. Ég vil ennfremur, út af tilefni, sem nokkurt umtal hefir orðið um í bænum, taka það fram, að ég hefi skilið ákvæði þessarar lagagr. þannig, að með „tryggum handhafaverðbréfum“ sé eingöngu átt við þau handhafaverðbréf, sem tryggð eru með samskonar víðtækri tryggingu eins og veðdeildarbréf Landsbankans og Búnaðarbankans og jarðræktarbréfin, en ekki t. d. handhafaskuldabréf með veði í einstökum fasteignum. Ég vil beina því til hæstv. stj., að hún hafi athugun á því, að þessum ákvæðum sé framfylgt eins og þau eru meint, þannig að sjóðir þessa fyrirtækis og aðrir opinberir sjóðir leggi fé sitt í handhafaverðbréf, sem a. m. k. eru skráningarhæf, þó menn geti enn ekki gert þá kröfu hér, sem alstaðar annarsstaðar er gerð um kaup hins opinbera á slíkum verðbréfum, að þau séu skráð á kauphöllum.

Allt það, sem ég hefi hér sagt, hefi ég eins og ég tók fram í upphafi máls míns, aðeins borið fram af einlægum vilja til þess að beita mínum áhrifum í þá átt, að fjárhagur og fjármál landsins verði leidd og rekin eftir þeim grundvallarreglum, sem ég álít, að þjóðinni sé óhjákvæmileg nauðsyn, að ekki sé vikið frá, ef hún vill leggja trausta undirstöðu að sinni framtíðar velferð. Hitt, að mig hafi langað að veitast að einum eða neinum manni, í ráðherrastöðu eða annarsstaðar, hefir engu ráðið um orð mín.