19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (3661)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Sveinbjörn Högnason:

Í frv. um kreppulánasjóð, eins og það var upphaflega borið fram af hæstv. ríkisstj., er í 25. gr. ákvæði um fjárveitingarheimild fyrir stj., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „a) að veita bændum verðuppbót á kjöti, er þeir selja til útflutnings af framleiðslu ársins 1933, allt að þeirri upphæð, sem þarf til þess að þeir fái 60 aura fyrir hvert útflutt kg. af I. og II. flokks dilkakjöti að meðaltali“. M. ö. o.: stj. og öllum þm. er ljóst, að svo miklir erfiðleikar eru á því að flytja út kjöt og selja á erlendum markaði, að gera þarf sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja, að framleiðendur geti fengið viðunandi verð fyrir það. Ég viðurkenni, að þörf sé á þessu. En ef svo er, hvaða vit er þá í því að halda skatti á sölu þessarar framleiðslu. Þótt hér sé ekki um stóra upphæð að ræða, er það þó alveg sjálfsögð leið, að byrjað verði á því að létta þessari byrði af framleiðslunni, áður en þingið fer að veita beinan styrk henni til hjálpar. Mér virðist það koma úr hörðustu átt, er frá hv. þm. V.-Sk. koma þau ummæli, að þetta sé hégómi, sem í mörgum tilfellum muni ekki nema 10-20 kr. á hvern fjáreiganda. En því miður er ástandið þannig, að ég held, að margan bóndann muni um, þótt ekki sé nema 10 eða 20 kr. Og ég álít, að engum standi það nær en hv. þm. V.-Sk. að stuðla að því með oddi og eggi, að ekki aðeins verði létt af landbúnaðinum þessu útflutningsgjaldi, heldur einnig að tekið verði upp aftur það ákvæði, sem fellt var niður úr kreppulánasjóðsfrv., sem upphaflega var sett til að tryggja aðstöðu þeirra, sem erfiðast eiga um markað fyrir sína framleiðslu. Ég skal lofa því, að vera með um að styðja hvorttveggja.

Það er verið að gera víðtækar ráðstafanir og áreiðanlega réttmætar til þess að styrkja bændur í framleiðslustarfsemi sinni, sem nú eiga svo þungan róður að þreyta, að ekki er enn séð fyrir, hvernig lýkur. Það má segja það um hvert einstakt atriði í þessum ráðstöfunum, að út af fyrir sig sé það engin algerð bót á ástandinu. En þegar þær eru skoðaðar allar í heild, verður það ljóst, að þetta hv. þing hefir lagt sig fram til að reyna að ráða bót á meinum landbúnaðarins, sem nú þjá hann.

Við hv. 1. þm. Skagf. höfum borið fram brtt. við þetta frv., sem miðar í þá átt, að hér verði um bráðabirgðaráðstafanir að ræða. Er hún á þskj. 734 og fer fram á, að þetta útflutningsgjald verði fellt niður um 3 ára skeið fyrst um sinn. Þó að hér sé ekki um áhrifamikið bjargráð að ræða, er þetta þó spor í áttina til að létta undir með bændum, og ég ætla, að enginn, sem vill styðja þá viðleitni, geti verið því andvígur að fella þetta óréttláta gjald niður.