05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (3662)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Vilmundur Jónsson:

Ég flyt brtt. við þetta frv. á þskj. 545, og er hún í 3 liðum. Fyrsti liðurinn er um að láta bannið um villandi upplýsingar um vörutegundir ná til hverskonar auglýsinga, sem tíðast munu vera misnotaðar að þessu leyti, en verzlunarráðið hefir af undarlegu ógáti fellt hér undan. Ákvæði annars liðsins eru um að banna verzlunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum að kenna sig við nafn landsins eða sveitarfélaga, nema leyfi hlutaðeigenda komi til. Hefi ég fyrir löngu séð þörf á þessu og hafði dottið í hug að flytja um það sérstakt frv. Hið opinbera rekur nú ýms fyrirtæki, og geta þá slíkar nafngiftir einkafyrirtækja verið stórum villandi, auk þess sem þær samrýmast illa heiðarlegri samkeppni. Þriðji liður till. er að færa nafn frv. til réttara máls. Ég vildi raunar skjóta því til hv. n., hvort ekki væri tiltækilegt að fá þessari umr. frestað og líta betur yfir form og mál frv., því að það er víða mjög bágborið. Ég nefni t. d. í 1. gr., þar sem ýmist eintala eða fleirtala vísar til hins sama. Einnig er notað „eða sem“ og önnur slík málblóm. Þá er nafnið á frv. auðvitað allt annað en það ætti að vera: Frv. til varnar óréttmætum verzlunarháttum! Í samræmi við þessa fyrirsögn hefði frv., sem var á ferðinni hér á dögunum, átt að heita frv. til varnar okri. Ég hefði átt að flytja frv. til varnar næmum sjúkdómum. Og einhver guðrækinn hv. þm. gæti samkv. því fundið upp á að flytja frv. til varnar guðleysi. — Ég skýt því aftur til n., hvort hún vill ekki taka þetta allt til frekari aðgæzlu, áður en frv. er borið fram til samþykktar.