22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég skal fyrst geta þess, að það skal verða tekið til athugunar, að Landsbankinn sjái fyrir skráningu á þeim handhafaverðbréfum, sem í umferð eru. Um skeið hefir bankinn ekki gefið upp neitt fast verð á slíkum bréfum, og veldur það baga á ýmsan hátt.

Að öðru leyti vil ég víkja að því, sem hv. 1. landsk. talaði um sparnaðarviðleitni, bæði með niðurfærslu útgjalda og skipulagsbreytingum. Ég skal fúslega játa, að stj. kann að hafa látið ónotuð einhver tækifæri til sparnaðar. Fyrir síðasta þing voru þó lögð fjárlög með allverulegri niðurfærslu útgjalda, þó þar væru einnig nokkrar hækkanir á áætlunarupphæðum. Og sá sparnaður, sem ákveðinn var á síðasta þingi eftir till. stj., virðist hafa reynzt það mikill, að hvorki stj. né fjvn. þingsins hafa nú séð stóra möguleika til frekari lækkunar. Hitt er annað mál, að það kann að vera, að með samfærslu ýmissa stofnana væri hægt að spara eitthvað af starfskröftum frá því, sem nú er. Þetta mun verða betur athugað en enn hefir verið gert, en ég vil geta þess, að forstöðumönnum ríkisstofnananna hefir verið lagt það ríkt á hjarta að hafa ekki meira mannahald við stofnanirnar en brýn nauðsyn bæri til, og við stofnanirnar eru nú ekki meiri starfskraftar en minnst verður komizt af með, eftir því sem forstöðumennirnir fullyrða. Nú kann vitanlega að vera, að með samfærslu ýmissa ríkisstofnana mætti spara eitthvað af vinnuafli. Þó get ég ekki tekið undir við hv. þm. um að fella niður tóbakseinkasöluna, viðtækjaverzlunina og landssmiðjuna. Tóbakseinkasalan gefur sennilega á þessu ári 400 til 450 þús. kr. í ríkissjóð. Þetta er heildsöluhagnaðurinn af einkasölunni, og með niðurfellingu hennar mundi ekkert sparað, en þessar tekjur hverfa. Um viðtækjaverzlunina er það að segja, að hún gefur tekjur, sem standa undir kostnaði við útvarpið, sem annars mundi lenda á ríkissjóðnum að greiða.

Það er satt, að landssmiðjan hefir litlar tekjur gefið hin síðustu ár, en þetta stafar í og með af því, að smiðjan hefir verið að bæta við sig vélum og verkfærum og efni til þess að geta leyst af hendi sem fjölbreyttasta vinnu og með því skapað atvinnu fyrir smiðina, einnig á þeim tímum árs, sem minnsta vinnu mundu veita að öðrum kosti. Hv. þm. má ekki ætla, að því minna sem er af ríkisrekstri, því meira sé sparað. Ríkisstofnanirnar ýmist auka eða rýra tekjur ríkissjóðs. Reikningar hins opinbera hækka bæði tekjur og gjöld, milljónunum fjölgar, en þessi aukning er ekki öll áhyggjuefni. Síður en svo. Sumar ríkisstofnanirnar hafa orðið til hagræðis fyrir ríkissjóð, svo verulegu munar, eins og ég hefi nú bent á, og ég vil minna á það í þessu sambandi, að sá tekjuliður í fjárl., sem mestu skiptir almenning í landinu, skattar og tollar, hafa ekki verið auknir með lagabreyt. að neinum mun síðan 1924, og má það heita sérstakt fyrir okkar land. Þá var gerð síðast stórbreyting á tollalöggjöfinni, og þó nú sé alllangt liðið síðan kreppan hófst hér, hefir ekki verið gerð önnur breyt. á tekju- og eignarskatti en 25% hækkunin frá síðasta þingi. Að öðru leyti hefir verið reynt að spara gjöld ríkissjóðs með niðurfærslu á fjárlögum, sem fyrst gætir verulega á yfirstandandi ári, svo væntanlegt er, að betri útkoma fáist en áður. — Það er rétt hjá hv. 1. landsk., að á síðasta þingi var samþ. þál. um það, að fylgja skyldi fjárl. skrá, þar sem taldir væru allir starfsmenn ríkis og ríkisstofnana. Þessi skrá fylgdi ekki fjárl. nú og hefir ekki heldur verið lögð fram sem sérstakt frv. En hún var undirbúin af tollstjóra og tilbúin um það leyti, sem fjárl. fóru frá Nd. Skráin var svo lögð fyrir fjvn. Nd. til athugunar, og hefir n. hugsað sér að bera fram annaðhvort frv. eða þál. um staðfestingu á skránni. Nú mun það sýnt, að n. ber ekki fram frv. um þetta hér eftir, en hinsvegar mun mega vænta þál. í þessu tilefni. Út af því, sem hv. 1. landsk. talaði um hættu á fjölgun starfsmanna ríkisins í sambandi við skrásetningu starfsmannanna, þá vil ég geta þess, að núverandi stj. hefir ekki á þeim tíma, sem hún hefir verið við völd, fjölgað starfsmönnum, hvorki í stjórnarráðinu né við ríkisstofnanir. Ég þori þó ekki að fullyrða, að ekki hafi í einu eða tveimur tilfellum verið bætt manni við í þágu ríkisins, þar sem tilefni hafa verið gefin til þess í lögum frá Alþingi. Hitt hefir komið fyrir, að starfsmönnum hefir verið fækkað, sem ég hirði þó ekki að telja hér. Ég skal þó geta um það, að fækkað hefir verið um einn mann í því ráðuneyti, sem ég veiti forstöðu, fjármálaráðuneytinu. Ég tel því, að ekki sé að óttast tilhneigingu núverandi stj. til þess að fjölga starfsmönnum, sízt að óþörfu. Hitt er vitanlega rétt, að þingið ætti að hafa aðstöðu til þess í sambandi við fjárl. að dæma um fjölda starfsmanna á hverjum tíma, og ég skal ekki bera á móti því, að hentugra muni vera að gera sérstök lög um fjölda starfsmanna, heldur en að samþ. tölu þeirra á hverju þingi frá ári til árs.

Ég get tekið undir það með hv. 1. landsk., að fjárhagur ríkisins er fullkomið áhyggjuefni, ekki sízt fyrir það, að skuldirnar eru þungbærari nú en áður vegna lækkandi verðlags. Skuldirnar eru nú ærið miklar, og ég skal viðurkenna það, að stjórnarskrármálið hefir staðið og stendur í vegi fyrir því, að hitt og annað sé framkvæmt í þinginu, er dregið gæti úr fjárhagsvandræðum ríkisins. Það er vafalaust, að viðureignin um stjórnarskrármálið hefir valdið því, að síður hefir tekizt en ella mundi og þurft hefði að vera að koma á breytingum á gildandi tolla- og skattalögum, en ef þetta þing ber gæfu til að leysa stjórnarskrármálið, þá mun ganga betur að fá lausn fleiri mála.

Hv. 2. landsk. gerði lítið úr því, hvernig stjórnin hefði fylgt eftir stjórnarskrármálinu. Það líður nú að því bráðum, að stjórnin eigi eins árs afmæli. Ég skal ekki segja um það, hvort henni tekst að halda upp á það afmæli, en hitt vil ég fullyrða, að samstarf stjórnarinnar við þingmenn sína í þessu máli er líklegt til að bera fullan árangur. Það má að vísu kannske segja, að það hafi ekki verið nema skylt að koma þessu máli áleiðis, þar sem stj. á nú svo marga stuðningsmenn í þinginu, en því verður þó að bæta við, að þeir hafa ekki allir verið jafntryggir í þessu máli fremur en öðrum. Þegar núverandi stj. var mynduð, tók hún sér fyrir hendur að ganga í milli þingflokkanna í þessu máli, og hver sem úrslit þess verða á þessu þingi, þá er nú lengra komið í áttina til samkomulags en hægt var að gera sér vonir um fyrir ári síðan. Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, þó hv. 2. landsk. haldi því fram, að ég sé fylgislaus í mínum eigin flokki í þessu máli. Ég kæri mig ekkert um að mótmæla hans fullyrðingum, en bíð rólegur úrslita í málinu, og ég get meira að segja tekið það fram, að hv. 2. landsk. sjálfur mun vera mjög nærri þeirri lausn, sem er nú að finnast í stjórnskrármálinu.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að stj. hefði brugðizt skyldu sinni með að vera árvök um hagsmuni atvinnuveganna út á við. Ég get þó talið stj. það til heiðurs, að hún hefir gert verzlunarsamninga við tvær af stærstu viðskiptaþjóðum okkar, Norðmenn og Englendinga. Viðskiptasamningurinn við Norðmenn er nú öllum kunnur, einkum fyrir það, að honum hefir verið misbeitt til agitationa gegn stj., en það mun sýna sig, að hann mun verða. bændum landsins til mikils gagns með þeim möguleikum, sem hann gefur þeim til að selja afurðir til Noregs. Enski samningurinn verður ekki birtur fyrr en næsta miðvikudag. Þess vegna ræði ég ekki um efni hans hér, en það er mér óhætt að fullyrða, að ekki hefir hér á Alþingi orðið öllu betra samkomulag um annað mál milli hv. þm. nú í seinni tíð en var um þetta mál í lokuðum fundi í Sþ. fyrir fáum dögum. Það er að vísu enn ekki útséð að fullu um þau kjör, sem við fáum hjá Englendingum, en stj. þykist hafa ástæðu til að ætla, að þau verði betri heldur en út hefir lítið fyrir síðan Ottavasamningarnir voru samþ.

Þá hefir stj. tekizt að fá miklar líkur fyrir því, að hægt verði að selja héðan frystan fisk til Þýzkalands, sem áður var lítil von um. Fleira hefir og farið fram af viðtölum við erlendar þjóðir um viðskipti við Íslendinga, sem hægt væri að minnast á í þessu sambandi, og ég get sagt hv. 2. landsk. það, að stj. fyrirverður sig ekki fyrir þessa grein starfsemi sinnar. Hv. 2. landsk. segir, að stj. hafi leikið almenning í landinu líkt og bófar, sem kalla menn með sér á afvikna staði, og rekur til þess þau rök, að stj. hafi dregið úr verklegum framkvæmdum. Það er vitanlega ekki ánægjuefni fyrir stj. að þurfa að draga úr verklegum framkvæmdum, en ég minnist þess að hafa heyrt það frá þessum hv. þm., að hann teldi, að framkvæmdir hefðu átt að vera minni hér á árunum en raun var á. En ef framkvæmdirnar hafa verið of miklar fyrir tveimur árum þegar margfalt rýmra var um fjárhag ríkissjóðs en nú er, þá þarf engan að undra, þó að nokkuð dragi úr þeim á þessum tímum. Hv. þm. átti þátt í því, að heimilaðar voru 330 þús. kr. til atvinnubóta á síðastl. ári, og á því sama ári notaði stj. til þeirra hluta 316 þús. kr., svo þar munaði ekki svo ýkja miklu frá því, sem hv. þm. vildi þá vera láta. Heimildina fyrir yfirstandandi ár mun stj. nota eftir því sem brýn nauðsyn krefur, en vitanlega er það ósk bæði stj. og sveitar- og bæjarfélaga, að sem minnst þurfi að taka til heimildarinnar, og það veit ég líka, að hv. 2. landsk. óskar eftir. Þó hann hafi líkt stj. við bófa, þá hefir hún samt gert sitt til þess að auka atvinnu í landinu og ekki hikað við að taka lán til brúargerða og fleiri framkvæmda. Og fyrir þessu þingi liggur frá stj. till. um heimild til þess að taka útlent lán til þess á yfirstandandi sumri að koma á vegarsambandi frá Rvík og alla leið austur á Síðu. Þetta vegarsamband er slitrótt frá Hvolhreppi og austur á Síðu, og á því svæði eru a. m. k. tvær brýr, sem þarf að byggja, fyrir utan langa og dýra vegakafla, sem þarf að leggja. Þessar framkvæmdir verða vitanlega ekki gerðar nema fyrir lánsfé. Auk þessa hefir stj. létt undir með minni háttar atvinnufyrirtækjum til þess að skapa aukna atvinnu fyrir landsmenn. Sem dæmi má nefna það, að stj. hefir stutt að því, að forráðamenn Landakotseignarinnar hafa fengið 300 þús. kr. lán í Danmörku til spítalabyggingar, sem mjög mun auka atvinnu fyrir verkamenn hér í Rvík. Fleira gæti ég talið af þessu tægi, þó ég hirði ekki um að þessu sinni. Það er ekki sök stj., þó Sogsmálinu sé ekki lengra komið áleiðis en raun er á. Mér skilst, að bæði hv. jafnaðarmenn og hv. sjálfstæðismenn í þinginu séu sammála um það, að málið þurfi að rannsaka betur en orðið er, og að þeirri rannsókn muni ekki lokið fyrr en síðla á þessu ári. Stj. hefir líka leitað fyrir um lán erlendis til virkjunarinnar, þó hún hafi engin áhrif haft á það, hvaða virkjunarmöguleiki verði notaður, þar sem það fyrst og fremst er mál meiri hl. bæjarstj. Rvíkur í samráði við sérfræðinga. Ég ætla ekki að telja fleira af þessu tægi, en ég get ekki tekið undir þá spá hv. 2. landsk., að stj. muni með afskiptum sínum af atvinnumálum hafa skaðað álit þingsins meðal þjóðarinnar. Það var hv. 2. landsk., sem bauðst til þess á laugardaginn var fyrir sitt leyti að tefja hitt og þetta af störfum þingsins., ef eitt og annað færi ekki sem honum líkaði. Ef þingið ber giftu til að leysa kjördæmamálið, þá mun ganga greiðar en hingað til um lausn annara stórmála, sem fyrir liggja. Fari svo, að stjórnarskrármálið, kreppumálin og ýms fleiri þýðingarmikil mál verði leyst á þessu þingi, þá mun stj. engan kinnroða bera út af því, að starf hennar á þessu eina ári hafi verið árangurslítið, hvort sem hún situr áfram eða fer frá, þá hefir hún góða samvizku út af því, sem hún hefir gert.