19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (3674)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Jón Auðunn Jónsson:

Mér datt í hug, þegar ég sá þetta frv., að ekki væri ennþá búið með það uppboð, sem hér hefir oft og tíðum farið fram. En þetta frv. er svo lítils virði, að það er eins og smáuppboð fyrir þá bændur, sem smátækastir eru og lítilssigldastir. Hér er ekki verið að taka neina stóra muni. Það er líkast uppboði, sem maður nokkur hélt til að selja ónýtt skran. Þegar svo uppboðshaldarinn tók hálfslitinn reiðing til að bjóða upp, tók hinn hann af honum og sagði, að á svona uppboðum seldu menn ekki svo góða hluti.

Það virðist kominn í menn sami blóðhitinn á þessu uppboði hér, eins og venjulegt er í einstaka mönnum á uppboðum. Þegar sumir menn koma á uppboð, missa þeir alla athugun og kaupa lélega muni fyrir hátt verð. Það eru t. d. mörg dæmi til þess, að fólk kaupir búðarvarning; fyrir 20% hærra verð heldur en hægt er að fá hann fyrir í verzlunum, og það þó það þurfi kannske að flytja hann helmingi lengri leið af uppboðinu heldur en úr búðinni.

Allur þessi leikur er eiginlega meira til að horfa á hann heldur en andmæla honum, - svo fráleitt er þetta. Ég er sannfærður um, að það er í óþökk alls þorra bænda, að þetta frv. er fram komið. Meðhaldsmenn frv. hafa e. t. v. ekki athugað það, að þarna eru þeir að taka af bændum sjálfum sem svarar 5/13 af því, sem þeir greiða í útflutningsgjald. Því eins og menn vita, hafa bændur fengið ½ af öllu útflutningsgjaldi í ræktunarsjóð, sem veitir þeim aftur hagkvæmustu lánin, sem þeir eiga kost á enn sem komið er. Þessa 5/13 af útflutningsgjaldi landbúnaðarafurðanna vilja meðmælendur frv. taka af bændum, til þess að geta tekið hinn hlutann af ríkissjóði.

Sumir hv. þm. hafa borið þetta frv. saman við frv., sem hér var á dagskrá nýlega um útflutningsgjald af fiskimjöli. Þar er ólíku saman að jafna. Útflutningsgjaldið af fiskimjölinu var frá 6-8% af söluverði vörunnar, og var það fært niður í 15/8, eða sama hundraðshluta og útflutningsgjaldið er af öðrum vörum. Þar var því verið að lækka óvenjulega hátt útflutningsgjald, en hér er aftur á móti farið fram á, að fellt sé niður lægsta útflutningsgjald. Það má nærri geta, að allur þorri þeirra, sem við sjóinn vinna, telja sjálfsagt, að a. m. k. framlagið til ræktunarsjóðs hverfi, ef útflutningsgjald af landbúnaðarafurðum er fellt niður. Enda ætti engum að detta í hug að fara fram á það, að sjávarútvegurinn greiði ½ af öllum sínum útflutningi til ræktunarsjóðs, þrátt fyrir það, þó bændur vilji ekki greiða það gjald að sínum hluta, þó þeir eigi einir að njóta sjóðsins.

Þess ber og að gæta í þessu sambandi, að fullur helmingur þeirra landbúnaðarafurða, sem hér eru framleiddar, mun vera notaður innanlands. Þess vegna þurfa bændur ekki að greiða útflutningsgjald nema af helmingnum af sínum vörum. Aftur mun ekki meira en 1/30 af sjávarafurðum notaður innanlands, svo af 29/30 af sinni framleiðslu verða útvegsmennirnir að greiða útflutningsgjald.

Þegar verið er að tala um ástæður atvinnuveganna, er eins og menn gleymi því oft, að öll stærri útgerðin hefir verið rekin með stórtapi undanfarin ár. Árið 1931 var tap togaranna frá 25 upp í 100 þús. kr. á hvert skip, en línuveiðararnir töpuðu það ár frá 4 þús. upp í 35 þús. kr. á hvert skip. Árið 1932 nam tap togaranna minnst 12 þús. kr., að einu skipi undanskildu, og upp í 70-80 þús. kr. Á þessu ári er sýnilegt, að fiskverðið verður lægra en síðastl. ár, og því má búast við, að afkoma útgerðarinnar verði a. m. k. ekki betri. Það má geta nærri, að þeir, sem búa við slíka erfiðleika ár eftir ár, séu ekki fúsir að taka á sig allar byrðarnar af hinum atvinnuveginum. Enda vakti nú hv. 1. þm. N.-M. máls á því að leggja nýjan skatt á landbúnaðinn, eða taka upp gamla skattinn, tíundina. Ég sé ekki, að þeir, sem stinga upp á slíku, geti í sömu andránni verið með því að létta af þessu lítilfjörlega útflutningsgjaldi. Það er a. m. k. mjög skrítin aðstaða, og sýnist þegar betur er að gáð lítt samræmanleg, enda munu flestir hv. þdm. í hjarta sínu vera sammála um, að óheppilegt sé að fella niður þetta litla gjald, sem eins og ég hefi tekið fram áður, er ekki nema örlítið brot af útflutningsgjaldinu af öðrum framleiðsluvörum landsmanna. En uppboðið þarf að halda áfram, og vænti ég, að það komist í algleyming við 3. umr., svo þeir, sem berjast fyrir frv., komist upp í 40 stiga blóðhita, eins og gerist á allra vitlausustu uppboðum. Þá verður líklega lagt til, að útflutningsgjaldið falli niður lengur en til 1936, eins og nú er farið fram á, og ákvæði sett í frv. um, að það skuli gilda meðan Ísland er byggt. Hv. flm. frv. má sannarlega vera ánægður yfir að geta komið þessu uppboði í gang hér á Alþingi, því það mun hafa verið eini tilgangurinn með flutningi frv., eins og vænta mátti úr þeirri átt.