22.05.1933
Efri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

1. mál, fjárlög 1934

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Hv. 1. landsk. var með ýmsar umvandanir og bendingar til stj. um það, að hún hefði ekki gætt nægilegs sparnaðar í stjórn sinni og ekki sýnt þann undirbúning undir síðustu fjárl., sem hann taldi við eiga. Sérstaklega talaði hann um það, að stj. hefði ekki undirbúið frv. til 1. um starfsmannahald landsins, eins og gert hafði verið ráð fyrir undir lok síðasta þings. Stj. bar að vísu ekki fram neitt þesskonar lagafrv., en hún lagði fyrir fjvn. Nd. skrá yfir alla starfsmenn landsins og opinberra stofnana. Fjvn. hefir haft þessa skrá til athugunar og kosið undirnefnd til þess að gera athuganir og till. þar um. Og í þeirri n. á sæti einn af einlægustu sparnaðarmönnum Sjálfstæðisflokksins, og ég held sá þeirra, sem hefir sýnt langmest samræmi í sparnaðartill. sínum. Stj. væntir því, að frá þessari n. komi henni bendingar og leiðbeiningar um ýmislegt, sem betur má fara í sparnaði og ríkisrekstri og mun taka þær till. hennar til athugunar, ef hún á lengi setu.

Það er rétt, sem hv. 1. landsk. sagði, að það er nauðsynlegt að hverfa af eyðslubraut og snúa á sparnaðarbraut. Eftir því fjárlfrv., sem stj. lagði fyrir þetta þing, held ég, að ekki verði um það deilt, að stj. hafi með því sýnt vilja sinn á að hverfa á meiri sparnaðarbraut heldur en áður hefir tíðkazt undanfarin ár. Um hitt er ekki hægt að saka stj., nema þá að litlu leyti, að á þessu þingi hefir ekki að öllu leyti verið haldið fast við sparnaðarbrautina, heldur tekin upp ýms lagafyrirmæli, sem hljóta að hafa æðimikinn kostnað í för með sér. En þau frv., sem til útgjalda leiða, miða flest annaðhvort að því að auka atvinnu í landinu eða til þess að hjálpa atvinnuvegunum í landinu. Skal ég m. a. nefna vegalögin, sem að vísu hafa í för með sér meiri útgjöld eins og þingið hefir gengið frá þeim nú heldur en var í frv. stj. Skal ég þá og nefna þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt er að gera vegna bændakreppunnar og vegna annara slíkra nauðsynjamála fyrir atvinnuvegi landsins. En hitt er rétt, og núverandi stj. mun ekki taka því nema með góðum hug, að henni sé bent á það, að láta fara fram athugun á því, hvar megi helzt spara. Og ég vænti þess, að eftir að fjvn. hefir athugað þær skýrslur, sem stj. hefir lagt fyrir hana um starfsmannahald landsins og kostnað við ríkisstofnanir og aðrar opinberar stofnanir, þá muni verða fundinn grundvöllur, sem megi leiða til nokkurs meiri sparnaðar í ríkisrekstri. Hv. 1. landsk. benti á, að til þess að koma sparnaði fram, mundi þurfa að fara fram skipulagsbreyt. á ýmsum opinberum stofnunum, og er það í samræmi við það, sem stj. hefir einmitt haft í huga, að því er sumar hinar opinberu stofnanir snertir.

Hv. 1. landsk. nefndi aðeins eina stofnun, sem ég hefi með að gera, og það er útvarpið. Hann komst svo að orði, að þar væri í öllu sama eyðslan, sem áður hefði verið, og var svo að skilja, að honum hefði þótt eyðslan þar mikil áður við þá stofnun. Ég skal ekki deila við hann um það atriði, en aðeins benda honum á, að við þá stofnun hafa verið lækkuð laun þeirra starfsmanna, sem ekki eru á föstum lögbundnum launum, til samræmis við laun þeirra starfsmanna, sem hafa búið við lækkandi dýrtíðaruppbót í fyrra og þetta ár. Ég skal og benda á, að við þá stofnun eða viðgerðarstofuna, sem henni er nátengd, hafa verið lögð niður störf 2ja manna eða 2 mönnum sagt upp, öðrum með 350 kr. á mán. og hinum með 400 kr. á mán., og í ráði er nú innan skamms að segja þriðja manninum upp, sem einnig hefir 400 kr. á mán. Hygg ég því, að jafnvel í þeim rekstri, sem hv. 1. landsk. stýrir, sé ekki meira um starfsmannafækkun en hér hefir verið nefnt. Ríkisstj. mun hafa í huga að lækka rekstrarkostnað við allar opinberar stofnanir svo sem henni virðist auðið. En þar eru ýmsir agnúar á. Það hefir þótt hart í farið að segja upp fjölda starfsmanna, sem hafa verið í störfum hins opinbera, en mundu verða algerlega atvinnulausir, ef þeim yrði sagt upp stöðunni. Ríkisstj. hefir þess vegna ekki farið mjög geyst á þeirri leið, en hins vegar notað tækifærið, þegar stöður hafa losnað eða þess verið nokkur vegur á annan hátt að fækka starfsmönnum án þess beint að reka menn út á klakann.

Að stj. hefir í huga sparnað viðvíkjandi þessari stofnun, sem hv. þm. sérstaklega nefndi, verður og séð á því, að í fjárl.frv. stj. var lögð til mjög veruleg lækkun á fjárveitingu til útvarpsins, og stafar það sumpart af því, að stj. hafði í huga að koma þar við meiri sparnaði, og einnig af því, að tekjur útvarpsins fara nú nokkuð vaxandi, sérstaklega tekjur af auglýsingastarfseminni, sem ég hygg, að hafi verið starfað vel að undanfarið. Viðvíkjandi öðrum kostnaði við þessa stofnun skal ég geta þess, að bíll sá, sem keyptur hafði verið af starfsmönnum þessarar stofnunar, var samkv. mínu fyrirlagi seldur, og halli sá, sem lítils háttar varð af þeim kaupum, var ekki greiddur af útvarpinu, heldur af þeim mönnum sjálfum, sem keypt höfðu bílinn.

Viðvíkjandi ýmsum kostnaðarreikningum, sem þessi sami hv. þm. talaði um og átaldi, þá vil ég benda honum á, að þar sem hann hefir eingöngu gegnt fjmrh.embætti, þá mun honum e. t. v. ekki vera kunnugt um þá mörgu ferðakostnaðarreikninga, sem hinum ráðuneytunum oftlega berast frá starfsmönnum hins opinbera. Og ef hann athugaði, hve oft núverandi stj. hefir þótt ástæða til að skera niður ýmsa þá ferðakostnaðarreikninga og aðra slíka reikninga, sem til ráðuneytanna koma, þá hygg ég, að hann telji þá kostnaðarreikninga, sem hann nefndi af hálfu útvarpsstjórans, ekki eins mikið einsdæmi og hann vildi vera láta, enda hefir einn endurskoðandi landsreikningsins, einmitt sá maður, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir til þess kjörið, skrifað undir þennan lið landsreikningsins með þeim fyrirvara, að við svo búið mætti standa. Fjmrn. hefir úrskurðað, að útvarpsstjórinn endurgreiddi nokkuð af þeim reikningum, sem inn í útvarpsreikningana komu, og endurskoðanda Sjálfstæðisflokksins þótti þar svo sanngjarnlega í þá úrskurði farið, að hann, þó ég álíti, að honum hafi ekki gengið til nein sérstök velvild í garð útvarpsstjórans, felldi sig við þann úrskurð, sem stj. hafði fellt.

Það er rétt, að stj. hefir ekki vikið frá embættum neinum þeim mönnum, sem sent hafa reikninga til stjórnarráðsins, sem viðkomandi ráðuneyti hefir þótt ástæða til að skera niður og gera aths. við, og hún hefir ekki heldur vikið frá embætti þeim manni, sem hann nefndi sérstaklega. Hún hefir ekki heldur tekið það ráð að leggja niður starf hans, enda hefir þingið ekki sett nein l. um það efni og ekki borið fram neitt frv. í þá átt. En án sérstakra lagafyrirmæla verður slíkt ekki gert. Og stj. eða Framsóknarflokkurinn hefir ekki séð ástæðu til þess að bera slíkt frv. fram, m. a. af þeirri ástæðu, að henni hefir ekki þótt þar gætt fulls samræmis, þar sem nú á þessu þingi hefir einmitt verið gengið að dyrum framsóknarmanna um það, að leggja ekki niður annað embætti, sem ég hygg, að allur þorri landsmanna telji ekki fremur nauðsyn á í þeirri mynd, sem það er rekið, heldur en útvarpsstjóraembættið. Ég skal geta þess, að síðastl. ár hefir ekki verið veitt til rekstrar útvarpsins fram yfir fjárveitingu frá því er þessi stj. tók við, og á þeim tíma, sem liðinn er af þessu ári, hefir heldur ekki verið veitt fram yfir 1/12 á hverjum mán. af þeirri fjárveitingu, sem í fjárl. er.

Hv. 1. landsk. var með umvandanir um það, að stj. hefði ekki sýnt nógan sparnað. Hv. 2. landsk. var aftur á móti með umvandanir um það, að stj. hefði sýnt of mikinn sparnað, og það m. a. s. sparnað, sem hún hefði ekki mátt leyfa sér og ekki getað leyft sér án vansæmdar. Hann talaði um það, að felld hefði verið niður styrkveiting til verkamannabúastaða og byggingar- og landnámssjóðs. Núverandi stj. getur ekki talið sig eiga sök á því, hvað gert var á síðasta þingi, a. m. k. ekki sá maðurinn í stj., sem settist í ráðherrasæti síðasta þingdaginn.

Hv. 2. landsk. talaði mjög um það, að stj. hefði dregið úr fjárveitingu til vega- og brúargerða. Og hygg ég, að ummæli hans eigi rót sína að rekja að því, að þegar fjmrh. lagði fjárl.frv. fyrir þingið, þá var ekki fenginn lokareikningur yfir það, sem varið hefir verið til vega- og brúagerða á árinu. Nú, þegar lokareikningurinn er fyrir nokkru kominn, kemur í ljós, að þessi ummæli hv. 2. landsk. eiga ekki við rök að styðjast. Á síðastl. hausti voru allmjög auknar vegabætur, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem menn úr sjávarþorpum gátu fengið vinnu við, og þá var það nær eingöngu gert með það fyrir augum að létta mönnum á viðkomandi stöðum nokkuð lífsbaráttuna með því að veita þeim atvinnu. Á síðastl. ári hefir verið veitt til vega- og brúargerða 936 þús. kr., og hygg ég, að þegar sú upphæð er borin saman við útgjöld ríkisins yfirleitt, þá verði stj. ekki ásökuð fyrir það, að hún hafi ekki reynt að verja svo miklu fé til vega- og brúargerða sem kostur var á. Þess skal getið, að til þessarar upphæðar tók stj. 150 þús. kr. lán samkv. heimild í 1., til brúargerðar. Auk þess hefir stj. varið til símalagninga um 300 þús. kr., og hefir mestur hluti af þeirri upphæð gengið til algengrar verkamannavinnu, þar sem er jarðsímakerfið í Rvík. Hygg ég því, að þó að atvinnuleysið væri of mikið á síðastl. sumri hér í Rvík, þá hefði það orðið allmiklu tilfinnanlegra, ef þeirrar vinnu hefði ekki notið við lengi fram eftir sumrinu og jafnvel fram á vetur. Það er rétt, að stj. hefir tekizt að spara 3 millj. samanborið við árin þar á undan, en sá sparnaður hefir ekki komið fram á vega- og brúargerðum, heldur á dómgæzlu- og lögreglustjórnarliðum.

Hv. 2. landsk. talaði um það, að ríkisstj. hefði átt að auka verklegar framkvæmdir í landinu með því að taka lán. Það má vera, að hans flokksmönnum þyki það lækna meinin að taka stórlán á stórlán ofan. En þar til er fyrst því að svara, að stj. hefir ekki heimild til slíkrar stórlántöku, og í annan stað er stj. ekki þeirrar skoðunar, að lækningin sé í lántökum umfram það, sem mögulegt verður hjá að komast.

Sami hv. þm. talaði um, að stj. eða öllu heldur Framsóknarflokkurinn hefði staðið fyrir virkjun Sogsins. Ég hygg, að núverandi stj. verði þó ekki sökuð um það, að hún hafi viljað seinka því máli.

Þá talaði hv. þm. um það, að á síðastl. vori hefði kaupgjald í opinberri vinnu verið lækkað, og vildi hann halda því fram, að kaupgjaldið hefði verið lækkað allt ofan í 20%. Ég kannast ekki við, að það hafi verið svo mikið, en það mun hafa verið lækkað víða frá 10—15%, og er það aðeins í samræmi við þá lækkun, sem fór fram á launum allra opinberra starfsmanna ríkisins á því ári, þar sem dýrtíðaruppbót lækkaði svo verulega og laun annara starfsmanna, sem ekki njóta dýrtíðaruppbótar, voru einmitt lækkuð um 15%. Hv. 2. landsk. talaði um það, að hið opinbera hefði verið að þessu leyti verri atvinnuveitandi heldur en atvinnuvegirnir. Ég hygg þetta ekki rétt vera. Vegavinna hefir farið fram úti um sveitirnar og sá sambærilegi atvinnuvegur verður þá framkvæmdir, sem í sveitum eru gerðar, og landbúnaðurinn. Ég hygg, að hið opinbera hafi hvarvetna greitt svipað kaup og sumstaðar jafnvel hærra en goldið hefir verið við almenna landbúnaðarvinnu í sömu sveit. Annars veit ég ekki, hvort bændum landsins væri þægð í því, að gerð væri tilraun til þess að sprengja upp kaupið í sveitunum með því að yfirbjóða þann atvinnurekstur, sem þar er rekinn, með háu kaupgjaldi. Það vill og svo til, að allmikill hluti þeirra, sem að vegavinnu vinna, eru úr sveit, og ég hygg, að þegar bóndinn sjálfur fer að heiman í vegavinnu, þá þykist hann fá allmikið hærra kaup, því við búskapinn mun íslenzki bóndinn vart hafa unnið fyrir meiru kaupi síðastl. ár en sem svarar 16—17 aur. á klst.

Hv. 2. landsk. talaði um það, að hið opinbera hefði ekki greitt sama kaup alstaðar á landinu. Bent var á, að viðvíkjandi vegavinnunni, þá tæki hið opinbera sumstaðar tillit til verkakaupstaxta í nærliggjandi kaupstöðum, en á öðrum stöðum ekki. En þessu er öðruvísi farið. Svo sem öllum er kunnugt, leggja sýslurnar fram mikið fé árlega til þeirra vega, sem standa beint undir stjórn sýslunnar. Og við þá vegavinnu eru sýslunefndirnar algerlega einráðar um kaupgreiðslur. Og þær hafa yfirleitt gert það að skilyrði fyrir sínu framlagi til veganna, að kaupið væri ekki hærra en einhver tiltekin upphæð, sem sýslunefndirnar setja sjálfar. Hjá mörgum sýslunefndum hefir þessi upphæð hlaupið á 60—70, eða 65—75 aurum á klst. Og ríkisstj. hefir venjulega miðað við þetta kaup, sem sýslunefndirnar ákveða hver í sinni sýslu, við þær vegagerðir og umbætur, sem undir hana hafa heyrt. En það segir sig sjálft, að þar sem almennt verkakaup er misjafnt í hinum ýmsu sýslum landsins, þá hlýtur vegavinnukaupið að verða það einnig. Líka má taka það með í reikninginn, að verðgildi peninganna í samanburði við lífsnauðsynjar er langt frá því að vera eins á öllu landinu.

Þá talaði hv. 2. landsk. um það, að stj. hefði ekki verið fús á að veita fé til atvinnubóta. Ég vil mótmæla þessari ásökun. Stj. hafði á síðastl. ári heimild til þess að veita 300 þús. kr. til atvinnubóta. Hún notaði þessa heimild og fór fram yfir hana um 16 þús. kr. Ég held því, að hv. þm. væri nær að skjóta geiri sínum að löggjafarstofnuninni, sem heimildirnar gefur, en að stj. Stj. hefir einnig með viðleitni sinni til þess að útvega þeim kaupstöðum og sjávarþorpum, sem fé hafa getað lagt á móti, lán til ræktunar og ýmislegra annara framkvæmda, sýnt hug sinn í þessu efni. Í fjárl. fyrir yfirstandandi ár hafa 350 þús. kr. verið veittar til atvinnubóta, og var sú upphæð veitt með fullu samkomulagi við hv. 2. landsk. og flokk hans. Og í því fjárlagafrv., sem hér er til umr., er stj. heimilað að veita 300 þús. kr. í þessu augnamiði. Og þegar þess er gætt, að atvinnuhorfur eru nú mun betri en um sama leyti í fyrra, hefir maður ástæðu til þess að vona, að þetta framlag muni reynast nægilegt. En ef svo skyldi ekki reynast, á Alþ. að koma saman í síðasta lagi í febr. næstkomandi, og er þá tækifæri til að bæta við þessa upphæð, ef brýn þörf væri á. Annars heyra atvinnubæturnar ekki undir mitt ráðuneyti, og ber mér því raunar ekki að tala um þær.

Hv. 2. landsk. talaði um það, að stj. hefði látið safna skýrslum um hag bænda, og legði nú til, að veittar yrðu 11—12 millj. kr. þeim til hagsbóta. Ég get nú ekki tekið þetta sem ásökun. (JBald: Það var heldur ekki þannig meint.) Ég vænti þess, að hv. þm. styðji stj. eftir því sem hann getur til þess að rétta við hag bændanna eftir því sem geta ríkisins leyfir. Þótt illa sé látið af hag manna við sjávarsíðuna, og það með réttu, þá getur það ekki leikið á tveim tungum, að lægra hefir kaupið verið í sveitinni, nema hjá þeim, sem miklar tekjur hafa haft af eignum. Og fjöldi þeirra manna, er við sjó búa, hafa þegar fengið þó nokkra kreppuhjálp með atvinnubótum og fleiru, en bændurnir hafa ennþá ekkert fengið.

Stj. var það áhugamál, að fjárlagafrv. sitt sýndi sparnaðarvilja hennar, en henni var jafnumhugað um það, að sá sparnaður kæmi sem minnst niður á verklegum framkvæmdum. Þess vegna hefir hún lagt fyrir þetta þing ráðstafanir til fjáröflunar handa verklegum framkvæmdum, t. d. fer stj. fram á heimild til þess að mega taka allt að 1/2 millj. kr. lán til vega- og brúargerða. Ennfremur hafa ný vegal. verið samþ. á þessu þingi, sem á næstu árum auka framkvæmdir hins opinbera mikið að algengri verkamannavinnu. Stj. verður því fastlega að mótmæla þeirri ásökun, að hún hafi ekki borið hag vinnandi stéttanna í landinu fyrir brjósti, og hafi ekki notað alla þá möguleika, sem opnir hafa verið, til atvinnuaukningar og hagræðis fyrir þessar stéttir.