31.05.1933
Neðri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2314 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

173. mál, óréttmæta verslunarhætti

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég bjóst við, að hv. þm. Ísaf. tæki til máls, en úr því það varð ekki, þá ætla ég að segja nokkur orð.

Þegar frv. fór til hv. Ed., var felld úr því ein grein, líklega af misskilningi. Sú grein hljóðar svo: „Nú hefir framleiðandi eða heildsali sett á vörutegund eða upprunalegar umbúðir hennar ákveðið smásöluverð, og er þá — svo fremi tilgreint verð ekki veitir útsölumanni ágóða, er fer fram úr 25% af innkaupsverði — bannað að selja vöruna eða bjóða fram í smásölu við lægra verði, nema leyfi viðkomandi framleiðanda eða heildsala eða önnur heimild komi til, eða salan falli undir 1. mgr. 5. gr., eða varan sé seld notuð eða skemmd“.

Þessi grein hefir verið misskilin bæði af þm. og blaðinu Tímanum, þar sem sagt er, að greinin sé fram komin til þess að tryggja útsölumönnum 25% hagnað, en það er þvert á móti. Greinin tryggir því aðeins vernd, að útsöluverðið fari ekki fram úr 25% álagningu. Það er nægilega margt, sem komið hefir hér fyrir í verzlunarsökum, sem sýnir, að framleiðendur eiga þessa vernd fyllilega skilið. Ég hefi það eftir góðum heimildum, að hér í bæ sé seld sérstaklega góð íslenzk framleiðsla með sérstaklega lágu verði, til þess að koma góðu orði á verzlanirnar og menn kaupi einnig þar útlenda vöru. Þetta er kallað á reykvísku að „jobba“ með þessar vörur. Þetta er vitanlega gert á kostnað íslenzku framleiðendanna, bændanna. Ég hefi talað við Helga Bergs forstjóra um þetta mál, og leyfði hann mér að hafa eftir sér, að hann teldi greinina nauðsynlega til þess að tryggja framleiðendum lágmarksverð á vöruna. Ég vildi draga þetta fram, svo að hv. dm. felldu ekki þetta ákvæði úr frv. af misskilningi. Ég vil ennfremur benda á, að í þeim þýzku og dönsku lögum, sem þessi eru sniðin eftir, stendur þetta ákvæði óhaggað. Báðar þessar þjóðir hafa talið nauðsynlegt að hafa þessa hvöt fyrir framleiðendurna, og jafnframt nægilega mikið í aðra hönd fyrir þá, sem seldu. Ég vil ekki þreyta hv. þdm. á dæmum, en mér hafa verið sögð dæmi um egg, kjöt o. fl., sem fellt hefir verið óhæfilega mikið í verði, til þess að afla viðskiptavina; en þetta er óheilbrigður verzlunarmáti og kemur hart niður á framleiðendunum.